Hundar sem syngja, það hljómar kannski undarlega í eyrum en þeir eru samt til. Það er ekki algengt en sumir hundar eiga það til að syngja með þegar þeir heyra ákveðna tegund tónlistar eða ákveðnar gerðir af tónum. Sumir hundar syngja með þegar þeir heyra lög úr óperum en aðrir láta sér nægja að syngja með ákveðnum dægurlögum. Þeir hafa því mismunandi tónlistarsmekk alveg eins og mannfólkið.
Matthildur Ingibjörg Einarsdóttir, húsmóðir á Selfossi á fjögra ára gamla blendingstík sem er mjög söngelsk. Að sögn Matthildar var tíkin sem ber nafnið Týra aðeins þriggja eða fjögra mánaða þegar hún söng í fyrsta skipti. Þá söng hún með lagi úr óperunni Madam Butterfly sem verið var að sýna í sjónvarpinu. ,,Það kom mjög á óvart þegar ég heyrði hana syngja í fyrsta skipti, ég hélt hreinlega að eitthvað hefði komið fyrir en þá sat hún bar við sjónvarpið og söng með, “ segir Matthildur.
Að sögn Matthildar eru það fyrst og fremst lög úr óperum eða lög sem sungin eru af óperusöngvurum sem tíkin syngur með. Þá syngur hún mikið með lögum sem sungin eru af Kristjáni Jóhannssyni eða Sigrúnu Hjálmtýsdóttur. Hún á sér líka uppáhaldslag en það er lagið ,,´O sole mio” í flutningi Kristjáns Jóhannssonar. Matthildur segir að hún syngi alltaf með þegar hún heyri það lag og hún fylgi laginu alveg eftir, tóni þegar á að tóna og þagni þegar það á við. Þá syngur hún alltaf með laginu sem heyrist í auglýsingunni fyrir Ítalska boltann á Stöð 2. ,, Það er mjög gaman að fylgjast með þegar hún er að syngja, svipbrigðin eru mikli. Hún byrjar á að hlusta vel, hallar síðan undir flatt nokkrum sinnum og svo byrjar hún að syngja. Hún færir sig líka oft að hátalaranum ef hún er ekki nálægt honum þegar lagið byrjar, “ segir Matthildur. Að sögn Matthildar vekur það mikla kátínu gesta þegar tíkin byrjar að syngja en ef hún er látin syngja fyrir gesti er oft eins og hún verðið hálf feimin eða fari jafnvel hjá sér. Hún er því ekki mikið fyrir að syngja fyrir ókunnuga nema að hún viti ekki að verið sé að horfa á sig. ,, Það er aldrei að vita nema að Týra hafi verið fræg óperusöngkona eða frægur óperusöngvari í fyrra lífi, ” segir Matthildur.
Þórhildur Bjartmarz formaður Hundaræktarfélags Íslands segir að það sé ekki algengt að hundar syngi með þegar þeir heyri tónlist eða ákveðna tóna. Hún segir að mest sé um að hundar syngi með háum kvenmannsröddum eða ákveðnum háum tónum. Þá hafi hún heyrt um hunda sem góluðu alltaf með þegar klukkan sló tólf í útvarpinu hérna áður fyrr. ,, Ég átti sjálf tík sem söng alltaf með laginu ,, Stand By Your Man“ með kántrísöngkonunni Tammy Wynette. Hún kunni lagið alveg, þagnði á réttum augnablikum og tónaði þegar við átti, ” segir Þórhildur. Hún segir að sú tík hafi verið komin undan hundi sem söng mikið. Eigandi hans hefði oft setið og spilað á píanó og sungið og þá sat hundurinn við píanóið og söng með. Þórhildur segir að það sé gaman að sjá þegar hundar eru að syngja því það komi alls kyns svipbrigði í ljós.