BMW-bifreið stórskemmdist í árekstri við hund
- hundurinn Herkúles slapp ómeiddur
“Það stórsá á bílnum og stuðarinn brotnaði. En Herkúles slapp ómeiddur og það má teljast með ólíkindum,” segir Jóhanna Jónsdóttir sem missti smáhund sinn út úr bifreið sinni á Reykjavíkurveginum í Hafnarfirði um helgina með þeim afleiðingum að hann hljóp fyrir bíl og varð af mikið högg.Hundurinn heitir Herkúles og þykir nú standa undir nafni:
“Herkúles heyrði í öðrum hundi gelta í bíl og það skipti engum togum að hann stökk út úr bílnum mínum og beint í veg fyrir BMW-bifreið sem kom aðvífandi. Höggið var mikið þegar bíllinn skall á Herkúlesi og ég bjóst ekki við að sjá hann lifandi aftur. En viti menn: Herkúles stóð upp eins og ekkert hefði ískorist og eftir stóð bíllinn klesstur. Ég gæti trúað að þetta væri tjón upp á hundrað þúsund krónur,” segir Jóhanna sem sannfærðist þarna um að Herkúles væri ekki eins og aðrir hundar. Hún lét til dæmis gelda hann fyrir löngu en samt heldur hann fullri náttúru. Það hefur verið sannað með hormóna- og blóðsýnatökum þrátt fyrir að búið sé að fjarlægja bæði eistun.
“Herkúles var bara sprækur eftir áreksturinn, þó svo að malbikið sæti fast á rassinum á honum, og eitthvað var hann hruflaður á fótum. En hann gelti af gleði,” segir Jóhanna, alsæl með hundinn sinn.