Æi, nú svara ég ekki alveg á réttum stað, en ég rakst á þessa umræðu og ég er með labrador sem varð eins árs í byrjun desember og greindist með mjaðmalos strax og ég fékk hann um þriggja mánaða. Hann nagaði mjög mikið og er reyndar bara nýhættur því. Ég keypti mér stærsta rimlabúrið sem hægt var að fá og hann er alltaf í búrinu þegar ég þarf út. Ég vandi hann á búrið eins og þér hefur verið ráðlagt að ofan, - ég var dugleg að hrósa honum þegar hann hafði verið í búrinu og gaf honum kex eða nammi. Lét nagbein inn í búrið og hann lætur aldrei frá sér heyra nema hann þurfi “á klósettið”. Því miður er hann slæmur í mjöðmunum, - það háir honum ekki að öðru leyti en að hann hlýtur að finna fyrir óþægindum og sársauka vegna bólgu sem myndast ef hann reynir eitthvað á sig. Þó að ég gefi honum remadyl, þá nægir það sjaldnast til að ná niður bólgunum. Ég veit ekki hvað svona hundur getur lifað lengi, - kannski spurning um hvað maður sjálfur álítur vera skynsamlegt fyrir bæði hund og eiganda. Hann sýnir aldrei að honum líði illa því hann veit jú ekkert annað en að vera svona. Það þarf að hjálpa honum inn í bíla og hann verður fljótt haltur eftir smá áreynslu eða göngur. Það þarf að halda á honum hita og forðast mikinn kulda. Annars var hann líka mjög viðkvæmur þegar hann var hvolpur þó ég sé nú ekki mjög harðhent eða ströng við hundana mína. Það hefur reyndar komið mér á óvart hvað labbinn er viðkvæm og lítil sál. Var að fá dvergpinscher í hús sem er eitt kíló og labbinn og pinscherinn eru bestu vinir. Labbinn er eins og algjör hænumamma og er skíthræddur um að meiða litla krúttið. Mjaðmalos er aftur á móti þannig að stundum getur maður séð það frekar auðveldlega með eigin augum en stundum getur mjaðmalos verið til staðar án þess að það sjáist á hundinum. Mér var t.d. fyrst sagt að minn væri með mjaðmalos á vægasta stigi sem mér finnst engan veginn standast miðað við hversu slæmur hann er. Annar dýralæknir sagði að svona hundar lifðu hámark tvö til þrjú ár. Ef einhver hefur upplifað að eiga hund sem hefur greinst með mjaðmalos svona snemma, hefði ég áhuga á því að fá góð ráð. Annars er engin ástæða til að panikka þó hvolpurinn sýni einhver einkenni, því labradorar taka út mikinn vöxt á skömmum tíma og það getur því verið hreinlega vaxtaverkir og slíkt sem sýnist. Ef hvolpurinn þinn er ekki ættbókarfærður, er ástæða til að fylgjast með honum og passa upp á að hann sé ekki hreyfður of mikið fyrstu mánuðina. Einnig er mikilvægt að passa upp á þyngdina, því eftir því sem þeir eru stærri og þyngri, því verra er það fyrir mjaðmirnar.
Vona þetta reddist hjá ykkur en eyddu frekar smá pening í búr og gott undirlag,í staðinn fyrir að hafa áhyggjur af ónýtu dóti og hundurinn er þá líka á öruggum stað. Þegar hann fer að venjast búrinu, finnst honum það bara vera öryggi að vera þarna.