Hvaða tegund hentar mér best?
Tegundirnar hér á landi eru margar og mjög ólíkar, sumar tegundir einfaldlega henta ekki sumu fólki, sumar tegundir eru orkumiklar, aðrar latar, sumar tegundirnar eru dóminerandi, aðrar ekki og svo fram eftir götunum.
Kynntu þér tegundirnar vel áður en þú ferð út í það að fá þér hund, ekki fá þér Beagle bara af því hann var svo sætur í myndinn Dogs and Cats, og ekki fá þér Collie bara af því að Lassie var svo hlýðin og góð.
Hvað kostar að eiga hund?
Kostnaðurinn fer eftir stærð hundsins vitanlega, en ef við miðum við hund af meðalstærð þá getum við liðað þetta svona niður.
Ég myndi gera ráð fyrir ca. 5.000 á mánuði í fóður = 60.000
Hundaleyfi í Reykjavík er held ég um 15.000 á ári (er ekki viss)
Bólusetningar og ormahreinsun er sennilega á um 5.500 á ári
Svo ef þú vilt láta klippa klærnar á hundinum fyrir þig, þá kostar það eitthvað smotterí í viðbót, einnig hundasnyrting ef þú ert með hund sem þarf þess.
Svo kemur inn ýmislegt eins og bein, hundanammi, hlýðniþjálfun, ól, taumur og svona sem þarf að endurnýja öðru hvoru, og svo einnig getur komið upp óvæntur dýralæknis kostnaður ef hann veikist eða lendir í slysi.
Þannig að ég myndi áætla að 100.000-120.000 væri ekki ólíkleg tala þegar allt kemur til alls.
Byrjunarkostnaðurinn er samt mestur, td að kaupa búr ef hann á að vera í búri, hlýðninámskeið, ólar taumar og matardallar, 3 bólusetningar ef hann er óbólusettur, örflögumerking sem er æskileg og bæli (má nú oft redda því með einhverju sem maður á heima við)
Svo ef þú vilt hreinræktaðann hund þá gera þeir alveg kostað dágóðann slatta líka.
Það má alls ekki blekkja sjálfan sig áður en haldið er út í það að fá sér hund, þetta kostar mikla peninga og því verður að gera ráð fyrir því í upphafi, annars er hætt við að maður reki sig á það þegar hundurinn er eldri að maður hefur kannski ekki efni á því að eiga hundinn, og fer að sleppa mikilvægum hlutum eins og bólusetningum, og kaupa kannski ódýrari og lélegri hundamat.
Er ég í réttu húsnæði til að eiga hund, og má vera með hund þar sem ég bý?
Hundar þurfa að komast út nokkrum sinnum á dag til að gera þarfir sínar, auk þess þurfa þeir að komast út að labba.
Garður er frekar nauðsynlegur fyrir flestar stærri tegundirnar og sumar minni.
Það er mjög erfitt að húsvenja hund ef maður býr í blokk og þarf að fara með hann út í gegnum stigagang og kannski niður stiga þar að auki.
Ef þú býrð í blokk þá þarf leyfi frá öllum íbúum.
Ertu í leiguíbúð? Má vera með hunda þar? Hvar mun ég búa eftir 1-2 ár?
Hef ég tíma til að eiga hund?
Hundar eru félagsdýr, og þurfa félagsskap og þó að þeir geti verið heima í 8-9 tíma á dag, þá er það mjög óæskilegt og ætti enginn hundur að þurfa að vera lengur einn heima en 4 tíma á dag.
Að sjálfsögðu koma upp einstaka tilfelli þar sem að þeir þurfa að vera lengur einir heima, slíkt getur alltaf gerst.
Ef þú færð þér hvolp þá getur þú alveg átt von á því að þurfa að eyða miklum tíma í að aga og kenna hundinum rétta og góða siði.
Því þarf svo að halda við svo lengi sem hundurinn lifir.
Þú þarft að skuldbinda þig til að fara með hann út á hverjum degi í gönguferð í öllum veðrum, sólskini og snjókomu, og þrífa upp eftir hann skítinn.
Er ofnæmi á heimilinu?
Ef grunur er um ofnæmi ætti að láta geta ofnæmispróf áður en hundurinn er fenginn inn á heimilið, það er mjög erfitt fyrir eigendur og hund ef sú staða kemur upp að einhver á heimilinu er með ofnæmi fyrir hundinum.
Er ég tilbúin/n til að skuldbinda mig til að eiga hundinn alla ævi?
Hundar lifa oft í allt að 15 ár, smáhundar geta orðið eldri en það.
Þú verður að vera viss áður en þú færð þér hund að þú sért algerlega tilbúin/n til að annast hann og elska allan þennan tíma.
Þetta er eitthvað sem þú þarft að skoða innra með þér og leggja hreinskilnislegt mat á það hvort að þú sért tilbúin/n að leggja þetta á þig.
Hundar eru yndislegir, og vel uppalinn hundur er án efa einn allra besti félagi sem hægt er að hugsa sér.
Komdu alltaf vel fram við hundinn þinn, þeir gleyma því aldrei ef þeir eru beittir ofbeldi eða farið illa með þá, og umfram allt njóttu þess að eiga svona góðan vin sem elskar þig skilyrðislaust.
Langar í endann að benda fólki á að skoða bæn hundsins sem er í kassa hérna á hugi.is/hundar, hún segir allt sem segja þarf held ég.
———————————————–