Ég plataði kallinn minn með mér og við keyrðum uppeftir ákveðin í að skoða þetta með opnum huga og án fordóma og þegar við renndum í hlað kom Doberman tíkin hún Sara á móti okkur ásamt dóttir hennar henni Ronju sem var þarna í heimsókn. Fyrst var ég ekki viss um að ég væri á réttum stað því ég sá engan aðra hund og bara lausar kanínur út um allt fyrr en nær var komið, en þá blasti við búr með Stóra Dan pari í út á túni og svo þegar við lögðum bílnum og stigum út fór ekkert á milli mála hvað væri verið að rækta þarna því lætin voru þvílík. Ég viðurkenni fúslega að þegar Ásta kom út úr húsi að ég greip til lygar til þess að mér yrði ekki fleygt út aftur, og við hjónin sögðumst vera að leita okkur af hvolpi og við vissum ekki alveg hvað okkur langaði í og hefðum lítið vit á þessu. Ásta spurði voðalega lítið en sagðist eiga allar stærðir af hvolpum, allt frá tjúum upp í Stóra Dan og vildi endilega sýna okkur hundana sína. Þar sem veður var ágætt og dóttir hennar var að þrífa inni voru flestir hundarnir úti, og við fórum því að útigerðum þar sem voru hundar í öllum útigerðunum og ef ég hef talið rétt voru gerðin alls 24 og í þeim voru allt frá smáhundum upp í boxer og skelfilegt magn af hundum.
Gerðin voru ekki stór, svona á stærð við eldhúsborð og í þeim voru tveir upp í sex hundar og örugglega ekki minna en 100 hundar í allt þó ég hafi ekki gefið mér tíma í að telja, en í fljótu bragði tel ég að ég hafi séð ca. 20-30 Silky, 25-30 pomma, 25-30 tjúa, nokkra fiðrindahunda og svo allskonar bland af öðrum tegundum, meðal annars þrjár þungaðar Japanese Chin tíkur, einn Basset hound, nokkra Bulldog og Boxera ásamt tveim Boston terrier hundum og þá vantar auðvitað alla hundana sem ég heyrði í inni. Lyktin var skelfileg þó svo að Ásta afsakaði druslulegt útlit Silky Terrier hundana með því að það væri nýbúið að rigna, gat ég ekki séð að rigninginn hefði náð að skola frá hland og skít sem rann yfir steypt kalt gólfið hjá hundunum. Ég var mjög hissa að Ásta fór með mig að skoða Boxer hund sem var pabbi hvolpa sem hún reyndi að meðal annars selja mér og fær hún prik fyrir að hafa leyft mér að valsa þarna um þessi útigerði, því ef ég hefði verið í hennar sporum hefði ég ekki sýnt nokkrum manni allt magnið af hundum sem ég væri með og ég hef alltaf heyrt að fólk fái ekkert að skoða. En þrátt fyrir skít, hland og lítið pláss fannst mér í raun ekkert athugavert við aðbúnað hundana eða það sem ég sá, ekkert sem kom á óvart að minnsta kosti. En það sem stakk mig var að sjá greyið hundana þegar maður nálgaðist búrin, þessi grey öskra á athygli og emja ef þau fá hana ekki og það er greinilegt að það vantar mikið uppá snertingu og umhyggju frá mannfólki. Eins heyrði ég skelfileg óhljóð innan úr hundahúsi tvisvar, eins og hundar væri að slást og þá meina ég slást, en hvorki Ásta né dóttir hennar virtust kippa sér upp við hávaðann, þó svo að ég hafi fengið hroll niður bakið við lætin. Og í einu af fremstu búrunum var Silky Terrier tík sem að snerist í hringi endalaust eins og þeir sem sáu Puppy Mill myndbandið sáu að var hegðun þeirra hunda sem klikkast af einveru og hreyfingaleysi, skelfileg sjón!
Ásta var mjög elskuleg og er greinilega mikil sölumanneskja, en bullið og ruglið sem valt upp úr henni afsakar alveg að ég skyldi ljúga að henni um sannan tilgang heimsóknarinnar í byrjun, við erum þá bara jafnar. Ég viðurkenni að ég féll alveg fyrir þeim hvolpum sem Ásta kom fram með og leyfði mér að skoða og halda á, bæði þessum nýfæddu og svo Stóra Dan hvolpunum. Og ég skil alveg afhverju fólk sem asnast þarna upp eftir geti ekki hamið sig og falli í þá gryfju að styðja svona Puppy Mill og fari heim með hvolp sem hægt er að borga á öllum mögulegum og ómögulegum greiðslum.
Mín niðurstaða er því sú að Ásta gæti örugglega verið að gera ágætis hluti ef græðgi hefði ekki náð henni á sitt vald og ef hún væri með 15-25 hunda væri ekkert hægt að setja út á hana því það er plássið sem mér sýnist hún hafa til staðar og mannskapur. Henni þykir örugglega vænt um sum af þessum dýrum, en því miður held ég að sú umhyggjan týnist í peningagræðgi. Ég styð það ennþá heilshugar að Dalsmynni í þeirri mynd sem það er í dag verði lokað og það sem fyrst og bíð spennt eftir að Ásta annað hvort ráði fleira starfsfólk til að dekra við hunda eða að hún fækki hundunum umtalsvert eins og lög krefjast.
Kv. EstHe
Kv. EstHer