Fyrir stuttu skrifaði kona í velvakanda og sagðist ekki skilja hvað fólk hefði á móti Dalsmynni. Nefndi hún það einnig að þetta stafaði af öfund fólks í garð Ástu Sigurðardóttur. Ég get ekki sagt að ég öfundi hana enda hef ég reynslu af því að starfa á hundahóteli og veit hvað í því felst að hugsa um stóran hundahóp, þó þar hafi hann ekki einu sinni verið einn sjötti af þeim hundum sem búa á Dalsmynni. Alla daga voru öll búrin þrifin og þau skúruð. Jafnframt þurfti að þrífa útigerðin sem hundarnir voru í yfir daginn. Daglega þurfti ég að fara í um 15 göngutúra með hótelgestina og var dauð uppgefin eftir daginn. Ekki get ég ímyndað mér hvernig Ásta fer að því að annast þá 194 hunda sem hún hefur á sinni könnu ásamt þessum 3 öðrum starfsmönnum búsins. Nýlega fór ég til Dalsmynnis en ekki frekar en í fyrri heimsókn minni þangað fékk ég að skoða nokkurn skapaðan hlut að vild. Ef hlutirnir væru í lagi í Dalsmynni, hvers vegna má ekki skoða þá? Ég hef séð á myndum þaðan að mörgum hundum er troðið saman í of þröng búr. Einnig eru lítil útigerði þar sem hundarnir fá sína “hreyfingu”. Það sér það hver maður að svona lítil útigerði nægja ekki hundi fyrir sínum daglegu hreyfiþörfum. Hundurinn hefur fylgt manninum í yfir 1000 ár, svo það er eðli þeirra að þarfnast snertingu við manninn. Það er einnig nauðsynlegt fyrir hvolpana til að geta aðlagast fljótt vistaverum manna, en á búinu fá þeir ekki að kynnast öðru en að lifa í búri alla sína sorgar ævi.
Þegar reka átti Ástu úr HRFÍ á sínum tíma voru tekin DNA sýni úr nokkrum hvolpum og kom í ljós að þeir sem voru skráðir sem systkini í ættbókum Ástu voru ekki systkini. Svo fáránlega sem það hljómar, var ekki einu sinni rétt mamma skráð! Hvernig í ósköpunum er hægt að gera slík mistök að vita ekki hver mamma hvolpanna er? Enda hafa margir hundar þaðan ekki staðist ræktunarmarkmið, og einnig hafa komið upp fjöldamargir gallar. Ásta segist gefa afslátt af gölluðum hvolpum, en ég þekki flólk sem hefur fengið gallaða hunda og þegar það kom í ljós þverneitaði Ásta að gefa nokkurn afslátt. Einnig hafa fjöldamargir ekki fengið ættbækur með hundunum sínum, þrátt fyrir að þeir hafi borgað himinhátt verð fyrir ættbókafærða hvolpa. Athugavert þykir mér að sumir af hennar hundum eru ekki ættbókafærðir en þrátt fyrir það selur hún hvolpa undan þeim sem ættbókafærða!
Nú hafa loksins nýjar reglur verið settar varðandi hundabú. Þar segir til um að það þurfi einn starfsmann á hverja 8 hunda. Það er því nokkuð ljóst að Ásta þarf verulega að auka starfsmenn sína eða þá að fækka hundum sínum svo um munar. Mig langar að vita nákvæmlega hvenær hún þarf að fara eftir þessum reglum, því það lítur ekki út fyrir það að hún sé að hafa gífurlegar áhyggjur af þeim. Eða fær hún virkilega að komast upp með það að hundsa settar reglur í landinu? Hvernig stendur á því að það er ekki löngu búið að taka í taumana og stöðva þessa misnotkun á dýrum og loka þessari hvolpaframleiðslu. Fyrir áhugasama vil ég benda á heimasíðuna http://www.simnet.is/jv1 Þar er hægt að sjá myndir af þessum hryllingi sem á sér stað í búinu.
Virðingafyllst,
Bergþóra Bachmann
Brekkukoti, Bessastaðahrepp
- www.dobermann.name -