Hvað er hundaæði???
Um daginn settist ég fyrir framan sjónvarpið, í því var “hryllingsmyndin” cujo. Fyrir þá sem ekki hafa séð hana er hún um st. bernhardshund sem verður bitin af leðurblöku (blóðsugu) og fær hundaæði.
Og úr því að ég stefni á að vera dýralæknir langaði mér að vita hvað gerist þegar dýr fá hundaæði (vatnsfælni).
Ég fann þetta á netinu, en get ekki getið heimilda því ekkert nafn stóð undir greininni.
Hundaæði er bráð heilabólga sem öll spendýr geta smitast af og orsakast af veiru . Sjúkdómurinn lýsir sér með krampaflogum, einkum í vöðvum sem stjórna öndun og kyngingu. Það einkennilega er að kramparnir koma fram eða versna mikið við tilraunir til að drekka vatn, við að sjá vatn, heyra vatnshljóð eða heyra talað um vatn. Af þessum ástæðum hefur sjúkdómurinn stundum verið kallaður vatnsfælni. Annað einkenni er myndun á miklu magni af seigfljótandi munnvatni. Nafnið hundaæði stafar af því að oft er um hunda að ræða og sjúkdómurinn gerir þá hrædda, órólega, slefandi og ársargjarna, sem lýsa má með æði. Hægt er að bólusetja við hundaæði en þeir sem veikjast af sjúkdómnum deyja næstum allir eftir um viku veikindi með miklum þjáningum.
Hundaæði er landlægt í stórum hluta heimsins. Þau svæði sem eru laus við þessa plágu eru Suðurskautslandið, Ástralía, flestar eyjar í kyrrahafi, Japan, Taívan, Bretlandseyjar, Skandinavíuskaginn, Færeyjar og Ísland. Öll þessi lönd reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að sjúkdómurinn berist til þeirra en helstu hætturnar eru flutningur gæludýra og húsdýra milli landa en auk þess ferðir villtra dýra sem erfitt er að hamla. Á eyjum eins og Íslandi er tiltölulega auðvelt að koma í veg fyrir hundaæði með ströngu eftirliti með innflutningi lifandi dýra en slíkt eftirlit er einnig nauðsynlegt vegna annarra sjúkdóma eins og gin- og klaufaveiki. Ekki er vitað með vissu hve margir smitast af þessum hræðilega sjúkdómi, einstaka tilfelli koma upp í Evrópu og Norður Ameríku en hundaæði er verulegt vandamál í Rómönsku Ameríku, Asíu og Afríku. Sjúkdómurinn smitast venjulega með biti sjúks dýrs en veiran getur einnig komist í gegnum slímhúðir í munni og augum ef t.d. munnvatn úr sjúku dýri berst þangað. Veiran kemst í taugar á smitstað og berst síðan eftir taugunum til miðtaugakerfisins en það tekur oftast 3-10 vikur en getur stöku sinnum tekið mun lengri tíma. Eins og áður sagði geta líklega öll spendýr smitast af hundaæði en algengast er að menn smitist eftir hundsbit, sjaldnar eiga í hlut kettir, refir, apar eða blóðsugur („vampýrur", skyldar leðurblökum). Öll þessi dýr deyja að lokum úr sjúkdómnum að blóðsugunum undanskildum. Í Evrópu eru það einkum refir sem bera sjúkdóminn en í S-Ameríku eru það blóðsugurnar. Blóðsugurnar lifa m.a. á því að bíta á sársaukalausan hátt sár á lappir nautgripa og lepja síðan blóðið. Þær valda umtalsverðu tjóni með því að smita nautgripi og annan búpening með hundaæði. Mörg dæmi eru um það að blóðsugur hafi smitað menn með hundaæði.
Gangur sjúkdómsins er þannig að fyrstu einkennin eru höfuðverkur, sótthiti, lystarleysi, svefnleysi og dofi umhverfis staðinn þar sem bitið var. Eftir fáeina daga fer sjúklingurinn að verða órólegur, kvíðinn og ruglaður. Fyrstu merki um hræðslu við vatn koma fram á þessu stigi og þau þróast oft hratt yfir í algera vatnsfælni með krömpum í öndunar- og kyngingarvöðvum, sem að lokum verður svo alvarleg að sjúklingurinn getur ekki einu sinni kyngt eigin munnvatni heldur spýtir því og slefar. Flestir deyja eftir 1-2 vikna veikindi úr öndunarlömun og hjartsláttartruflunum.
Mörgum er hægt að bjarga ef gripið er til viðeigandi ráðstafana strax eftir bitið. Mikilvægt er að þvo og hreinsa bitsárið mjög vandlega og síðan baða það upp úr sótthreinsiefnum sem drepa veirur. Ef hægt er að ná dýrinu sem beit, má aflífa það og rannsaka hvort merki um hundaæði eru í heilanum en einnig er hægt að fylgjast með dýrinu í 10 daga eða svo og ef það er heilbrigt allan þann tíma er tæpast um hundaæði að ræða. Ef grunur leikur á að einhver hafi verið bitinn af óðum hundi eða öðru smituðu dýri er þar að auki hægt að grípa til meðferðar með bóluefni og mótefni (oft blóðvatn úr hestum) en aukaverkanir af þessari meðferð eru tíðar og geta verið alvarlegar.
Það mun reynast erfitt að útrýma hundaæði en mikilvægt er að halda útbreiðslu sjúkdómsins í skefjum. Á svæðum þar sem hundaæði er landlægt er einnig mikilvægt að bólusetja heimilishunda og ketti og að aflífa flækingshunda.