Mér finnst þessi grein eiga fullan rétt á sér sem grein þótt hún sé kóperuð, svo mikið hefur verið talað um Dalsmynni bæði hér og á öðrum spjöllum.


Fréttablaðið, Mið. 23. júlí 07:28
Jaðrar við illa meðferð á dýrum
“Mikill óþrifnaður var í herbergjum. Að mati undirritaðs jaðrar þetta við illa meðferð á dýrum og verða yfirvöld að grípa strax í taumana,” segir í skýrslu Magnúsar M. Guðjónssonar dýralæknis sem fór á vegum Umhverfisstofnunnar í hundabúið Dalsmynni á Kjalarnesi til reglubundins eftirlits.

Eftir því sem kemur fram í skýrslu Magnúsar Guðjónssonar, dýralæknis á Suðurnesjum, eru mikil vanhöld á að farið sé að þeim lögum og reglum sem liggja til grundvallar rekstrinum.

“Of þröngt er um hundana. Ekki ættu fleiri en tveir smáhundar að vera í hverju búri. Búrin eru of lítil fyrir hunda af stærri kynjum.”

Þá segir að vegna þéttleika hundanna séu talsverð óþrif í búrum. Sett hafi verið dagblöð á gólfið fyrir hundana til að gera stykki sín á en þau hafi víðast hvar verið gegnumblaut af þvagi og saur og sums staðar í graut sem hundarnir gengu í. Loftræsing sé ófullnægjandi og engin útiaðstaða sé fyrir hundana. Hitalagnir þurfi að vera í gólfum.

Þá segir orðrétt í skýrslunni: Gotherbergi er algjörlega óviðunandi. Þar eru tíkur með hvolpa í rimla- eða vírnetsbúrum sem hrúgað er saman og minnir mest á búrhænsni.“

Magnús átelur hve margir hundar séu á búinu og bendir á að hundar hafi fylgt manninum í 10 þúsund ár og séu háðir manninum með félagsskap og samskipti. Hann segir að það sé fjarri að hægt sé að uppfylla þau skilyrði á Dalsmynni þar sem hundarnir séu allt of margir. Hann tiltekur þó að fólk virðist vera gott við hundana en eðli málsins samkvæmt geti nokkrar manneskjur ekki annað þeirri þörf.

”Við hjá Hundaræktarfélaginu höfum lengi barist fyrir því að þessu búi yrði lokað og sett yrðu lög um hundaræktun,“ segir Þórhildur Bjartmarz. Hún bendir á að þetta bú starfi samkvæmt sömu lögum og búrekstur þar sem dýr séu alin til slátrunar.

”Víðast hvar í heiminum eru fjölmenn hundabú bönnuð og barist er gegn starfrækslu þeirra. Í Bretlandi vofir yfir mönnum fangelsisvist ef bú finnast rekin á svipuðum grunni og í Dalsmynni," segir Þórhildur.
Appolo