Hundurinn minn, hann Holyfield Eftir langa leit að rétta hundinum, þá er ég loksins orðin stoltur hundaeigandi!
Ég tók að mér 5 ára Boxer hund, hann Holyfield, sem er svo yndislegur að ég er bara hissa.
Ég vissi lítið sem ekkert um Boxera, og ætlaði svo sannarlega ekki að fara að fá mér einn slíkann, hélt að þetta væru engan veginn hentugir fjölskylduhundar, en annað kom nú á daginn.

Hann er svo þolinmóður og góður við börnin, huggar þau ef þau gráta (sleikur af þeim tárin og “knúsar” þau), hann er yndislegur félagi í gönguferðum, þó að hann eigi það nú reyndar til að toga aaaaaansi fast ef hann finnur lykt af einhverju sniðugu.
Og ekki skemmir það fyrir að hann er vökull varðhundur og fylgist vel með mannaferðum í kringum húsið, hann er samt ekki mikið fyrir að gelta nema honum finnist brýn ástæða til að láta okkur vita af einhverju.

Honum kemur ekkert sérstaklega vel saman við aðra karlhunda, hefur lent í smá ryskingum, en í þeim tilfellum hafa hinir karlhundarnir urrað á hann fyrst og glefsað að honum, og verið að ögra honum.
Enginn hefur þó slasast í þessum “slagsmálum” þar sem að við fylgjumst mjög vel með honum og leyfum honum ekki að vera lausum.
Hann elskar hvolpa, og virðist lynda vel við tíkur, þó að hann taki félagsskap manna framyfir félagsskap hunda.

Hann þolir ekki heimilisköttinn, og er ég að verða úrkula vonar um að hann eigi eftir að láta hana í friði.
Ég held að hann sé voðalega abbó út í köttinn, og sé þessvegna að reyna að leysa það vandamál með því að losa sig við kisuna sem sér við honum í hvert einasta skipti og forðar sér á meistaralegann hátt.
Kötturinn er nú ekki alveg saklaus í þessu .. hún er oft að labba í kringum hann þegar hann sefur, og svona aðeins að trufla hann :)

Það er greinilegt að fyrri eigendur Holyfield hafa sýnt honum mikið og gott atlæti, hann er geðgóður og ljúfur hundur, þó hann sé mjög stór (að sögn næst stærsti Boxer á íslandi) og ekkert sérlega smáfríður.
En okkur finnst hann auðvitað fallegasti hundur í heimi .. eins og öllum finnst um sinn hund.

Ef þið eruð í hundahugleiðingum, þá mæli ég með því að þið gefið ykkur tíma til að skoða Boxer nánar, þeir koma á óvart, og ég er orðin alveg yfir mig hrifin af þessu kyni.

Zaluki.
———————————————–