Fyrir um það bil mánuði eignaðist ég tík sem vantaði heimili. Hún verður 4 ára núna í ágúst. Ég hef ekki mikla reynslu af hundum og er alltaf að gera mér betur og betur grein fyrir hvað ég var að taka að mér. Til að gera langa sögu stutta finnst mér eins og ég hafi bætt við einu barni á heimilið! Ég hef lesið slatta um hunda og hundauppeldi síðan hún kom og er búin að skrá mig á námskeið með hana sem ég vonandi kemst á sem fyrst. þetta er hundategund sem þarf mikla hreyfingu og við erum svo heppnar að við búum nálægt hundasvæði Þar sem hún getur hlaupið um eins og henni þóknast og það þóknast henni svo sannarlega. Hún kemur frá góðu heimili og kann helling. Það er t.d. tiltölulega lítið mál að hafa hana lausa að snúllast í garðinum þegar við erum þar án þess að hún strjúki burt. Hún hleypur ekki út þegar útidyrahurðin er opnuð (sem betur fer því hér er fólk að koma inn og út allan daginn). Það sem ég þarf að kenna henni er að hlýða kalli þegar hún er á hlaupum um hundasvæðið og ganga við taum.
Stundum hef ég brugðið á það ráð að setjast upp í bílinn og keyra af stað og þá kemur hún eins og eldibrandur og hoppar inn þegar ég opna. Einu sinni þegar hún hlýddi mér ekki ákvað ég að hjóla heim í þeirri von að hún elti mig en það gerði hún ekki og þegar hún svo kom loksins heim skammaði ég hana agalega mikið. Daginn eftir las ég að það mætti ekki gera vegna þess að það ætti alltaf að vera gott að koma heim til húsbóndans!! Ég fékk svíðandi samviskubit og hef verið voða góð við hana eftir það þegar hún kemur heim eftir að hafa verið að óhlýðnast. Mér finnst óþægilegt að hleypa henni lausri (þó það sé á hundasvæði) þar sem ég get ekki treist því að hún komi þegar kallað er. Eftir mikla óhlýðni hef ég hvorki haft nennu né vilja til að standa í því að hleypa henni lausri heldur farið í gönguferðir með hana í taum. Með því móti fær hún ekki næstum því þá hreyfingu sem hún sem hún fær þegar hún getur hlaupið um sjálf. Þannig að nú er ég komin í vítahring með þetta því eftir því sem hún fær minna að hlaupa því óhlýðnari verður hún loksins þegar hún fær það og eftir því sem hún verður óhlýðnari því latari verð ég að leyfa henni það!
Er hún kannski að bíða eftir að hennar kæri fyrverandi húsbóndi sæki hana? Mér þykir voða vænt um hana og finnst að hún sé ein af fjölskyldunni og langar þess vegna til að þetta geti gengi vel. Er ég kannski að gera of miklar kröfur til hennar miðað við að hún hefur bara verið hérna hjá okkur í mánuð? Vonast til að fá að heyra frá einhverjum sem hefur einhverja reynslu af hundum og sérstaklega þeim sem hafa tekið að sér fullorðinn hund.
kveðja
baraklemma