Málin standa þannig að ég fékk mér hund síðastliðið haust. Þetta er labrador blendingur og við höfum verið á námskeiði hjá HRFÍ s.k. grunnnámskeiði til þess að við getum verið hundum og hundaeigendum til sóma. Mér finnst mjög gaman að eiga hund og fæ mikið út úr göngutúrum okkar og samverustundum öllum. Börnin mín sjá ekki sólina fyrir honum og við erum mjög sátt við að hafa tekið þessa ákvörðun.
En eftir að ég er orðin hundaeigandi þá kemur mér það mjög á óvart að sumir sem eiga ekki hunda líta svo á að ég hafi fyrirgert öllum rétti mínum til kurteisi og tillitssemi af þeirra hálfu. Þetta virðist vera n.k. íþrótt þeirra að ræða um hvað hundar séu sóðalegir á heimili og að það sé mengun af þeim í þéttbýli.
Þetta fólk virðist vita mjög mikið um hunda þó að það hafi aldrei átt hund. Margar setningar byrja á “Málið með hunda er..” eða “Það sem þarf náttúrulega að gera er…” o.s.frv.
Þau alhæfa mikið um hunda og hundaeigendur og ég á erfitt með að sætta mig við að þurfa alltaf að bakka eða snúa samræðum á annan veg. Ég hef ekki gert neitt af mér, er með hreint sakavottorð.
Ég reyni ekki að troða hundinum mínum upp á fólk (mér finnst það a.m.k. ekki). Hann hefur viss réttindi inni á okkar heimili og þegar fólk kemur í heimsókn þá verður það að sætta sig við það. Ég hef bent þeim á að fara í heimsókn í næsta hús (þar er ekki hundur en við þekkjum fólkið samt ekki ;) ef þau geta ekki sætt sig við dýrið mitt. Ég hafði hann að vísu lausan í sumarbústaðalandinu okkar þar sem fleira fólk var en ég geri það ekki aftur eftir viðtökurnar sem við fengum.
Það sorglega við þetta allt er að flest allt þetta fólk tilheyrir minni nánustu fjölskyldu. Ég er þegar farin að draga úr samskiptum mínum við þau þar sem þrek mitt til þessara skammarræðna er uppurið. En er það rétta leiðin? Á ég að setja merki á útidyrahurðina: “Einungis hundavinir”?
Hefur einhver þarna úti sömu sögu að segja eða er það fjölskyldan mín sem er ókurteis og kann sig ekki?
Hefur einhver þarna úti ráð handa mér?
Kveðja, alger Byrjandi