Ég ætla að segja ykkur aðeins frá henni Tínu minni.
Hún er 3 ára Rough Collie tík, fædd 9. janúar 2000. Hún er alveg æðislega skemmtileg, getur verið óþekk, en oftast svona skemmtilega óþekk. T.d. þá hleypur hún stundum frá manni þegar ég fer með hana útí garð, hleypur hún þá aðeins nokkra hringi í kringum húsið og kemur svo til mín, en lætur mig ekki ná sér, svo hleypur hún aftur í burtu en kemur svo á endanum.
Ég er svona í því að kenna henni ýmislegt núna, er búin að kenna henni að heilsa, svo er hún ekki alveg að nenna að læra að leggjast. Ég er búin að kenna henni að bíða eftir matnum, þ.e.a.s. þegar ég set matinn í dallinn hennar, þá sest hún og bíður eftir að ég segi gjörðu svo vel. Það er mikill kostur, því þá ræðst hún ekki strax á fyrstu molana og allt fer útum allt.
Henni finnst alveg æðislega gaman að fara út að labba, samt best að fá að hlaupa frjáls. Við reynum að fara á hverjum laugardegi í göngur með Hvuttaklúbbnum og það finnst Tínu gaman. En hún er frekjan í hópnum, heldur að hún ráði yfir öllum og þá sérstaklega yfir Kollu “vinkonu” sinni. Þær rífast næstum í hverri göngu!! Ef ykkur langar að sjá myndir af Tínu getið þið kíkt á heimasíðu hennar: http://kasmir.hugi.is/naeturtina eða skoðað myndasafn Hvuttaklúbbsins.
Kveðja
Edda og Tína