Sá gleðilegi atburður gerðist í gær að fjölgun varð á heimili mínu í Grafarvoginum. Mamma og pabbi fóru á fund vegna sameiginlegs jólaboðs föðurættar minnar til frænku og frænda. Þar fundu þau fyrir tvo hvolpa, bræðurna Breka og Storm sem eru fjögurra og hálfs mánaða. Frænka og frændi voru bara að prófa að hafa tvo hunda, höfðu upphaflega bara fengið sér Breka en höfðu haft Storm hjá sér í viku. Þeir slógust svo að þau ákváðu að það væri nú ekki allt of sniðugt að hafa tvo. Mamma missti skrúfu og ákvað að taka Storm með heim. Ég er ekki viss um að pabbi sé enn búinn að átta sig á þessu. Hann er búinn að væla í mömmu um hund í mörg ár og nú hefur hann loksins fengið hann og meira að segja af þeirri tegund sem hann óskaði sér mest, þ.e. English Pointer eða enskan bendi. Stormur er semsagt stór, grannur, snögghærður og hvítur með ljósbrúna flekki og mun fara með pabba á rjúpu og benda á rjúpurnar sem pabbi á að skjóta.
Koma Storms var svo óvænt að ég held að enginn á heimilinu sé almennilega búinn að átta sig á því að hún sé raunveruleg. Allavegna held ég að pabbi og systkini mín séu enn að klípa sig í hendina til að athuga hvort þetta sé draumur og kettirnir að óska sér að þetta sé bara martröð sem þeir muni brátt vakna upp af. Þeir eru semsagt ekki sáttir við þennan nýja fjölskyldumeðlim og urra og hvæsa ásamt því að hárin á þeim rísa og standa út í loftið svo þeir líta út fyrir að vera helmingi feitari en þeir eru og svo kemur svona kambur aftan á bakið á þeim!!! Minnir mig á Gremlins… Stormur, sem aldrei hefur gelt fyrr á ævinni, geltir hástöfum á kettina og eltir þá um allt. Hann langar voðalega mikið að leika en hann er samt pínu hræddur. Hann er nebbla ekki alveg viss um hvort hann ætti að taka þessi urr og hvæs alvarlega eður ei og stekkur óöruggur til baka þegar kettirnir láta í sér heyra. Hann getur samt ekki hamið sig, sérstaklega þar sem hann er búinn að átta sig á því að kettirnir eru hræddari við hann en hann við þá.
Kettirnir eru heldur ekki sáttur við hversu óskaplega hrifinn Stormur er af matnum þeirra og gerir hann hvað hann getur til að komast í kattamatinn, sem er ekki sniðugt þar sem hann fær vindgang af honum. Aumingja bróðir minn mátti þola það í alla nótt. Stormur vældi svo mikið því hann er ekki vanur að sofa einn í bælinu sínu svo Jóhann tók hann inn til sín. Stormur lét ekki segja sér það tvisvar og stökk upp í rúm í fangið á Jóa, undir sæng og ofan á koddann. Þegar ég kom heim í nótt veinaði bróðir minn á mig, kvartaði sáran undan því hversu plássfrekur hundurinn væri og í ofanálag væri hann andfúll og hryti og fretaði til skiptis. Jóhann mátti dúsa í prumpufýlu í alla nótt og vaknaði heldur myglaður í morgunn, alsæll að losna við hundinn úr rúminu, en Stormur hefði ekki getað verið ánægðari. Hann var búinn að finna nýjan besta vin.
Aumingja Mundur, fressið og “húsbóndinn” á heimilinu, var óskaplega móðgaður út í Jóhann, þar sem Mundur er vanur að sofa inni hjá Jóa á hverri nóttu, en Dimma, læðan mín, er vön að sofa hjá mér. Mundur greyið vildi ekki sjá það að þurfa að deila rúminu með hundinum og var hálf ræfilstuskulegur og væflaðist fyrir utan herbergið og vissi ekkert hvað hann átti af sér að gera. Ég prófaði að fara með hann inn í herbergi systur minnar en það vildi hann ekki sjá. Ég gat ekki leyft honum að vera inni hjá mér því Dimma og Mundur slást og eru alls ekki góðir vinir. Svo Mundur greyið hékk frammi og við Dimma fórum að sofa inni hjá mér og vinkona mín með, en hún gisti semsagt í dýragarðinum hjá okkur. Þegar ég vaknaði í morgunn hafði Mundur skriðið inn um gluggan og lágum báðir kettirnir uppí hjá mér og vinkonu minni (sem betur fer er ég með stórt rúm). Það skrítna við það að kettirnir slógust ekkert og virtist alveg sama um návist hvors annars. Ætli þeir séu ekki komnir í bandalag núna, svona “cats versus dog” eða eitthvað. Spurning hvað gerist næst.
Allavegna, heimilið er allt í háaloftum, krakkarnir geta ekki ákveðið sig hver má fara með hundinn út að labba og hundurinn liggur steinrotaður í húsbóndastólnum inni í stofu með teppi breitt yfir sig. Ég bý officially í dýragarði og er ekki alveg búin að ákveða mig hvort ég sé ósátt eða himinlifandi. Ég veit bara að ég vona að Stormur og kettirnir eigi eftir að læra að lifa í sátt og samlyndi og jólin líði hjá nokkuð áfallalaust.