Hvaðan koma hundarnir?
Hundar hafa fylgt manninum síðustu 8.000-10.000 árin, lengst allra húsdýra. Hundurinn finnst varla villtur; einungis þekkist einn villtur stofn á sléttum Afríku en allar aðrar hundategundir búa í sambýli við manninn. Nánasti ættingi hundsins er úlfurinn, sem er algeng tegund um allt norðurhvel jarðar. Úlfar líkjast hundum bæði í útliti og háttum og þessar tegundir geta meir að segja eignast frjó afkvæmi saman.
Það er ekki hægt að segja að hundar séu mjög sérstæð dýrategund. Þetta eru frekar lítil rándýr, sem hafa þróast á sléttum Afríku, en hafa ekki til að bera mýkt og hraða kattardýranna, styrk bjarndýranna eða samskiptahæfileika apanna. Væntanlega hafa hundar verið alætur og nærst mikið til á hræum og litlum nagdýrum. Þeir hafa að öllum líkindum lifað og veitt í hópum eins og raunin er með þá hunda sem nú lifa villtir.
Það er ekki vitað hvernig sambýli manna og hunda hófst. Líklegt má þó teljast að hundarnir hafi hýmt í kring um mannabústaði í leit að æti, rétt eins og algengt er með hrafna til sveita á Íslandi. Þannig fer hundurinn að líta á mannabústaðinn sem sitt heimili og þetta heimili ver hann fyrir öðrum rándýrum. Eigum við að segja að þannig hefjist vinskapurinn. Maðurinn fæðir hundinn og hundurinn ver manninn og heldur vörð næturlangt. Dýrelskir menn hafa síðan farið að temja hunda og tekið þá með á veiðar og smátt og smátt breiðist þessi gagnlegi siður út. Hundar eru í senn frjósamir og langlífir, sem gefur eigendum þeirra mikla möguleika á að velja gæfa hvolpa til undaneldis. Villtum hvolpum er fargað, nema þeir verði fyrri til og flýji. Móðurlausir eiga þeir litla möguleika úti í náttúrunni í samkeppni við fjölmörg önnur rándýr - og sífellt minni bráð.
Á okkar dögum eru til ótal hundakyn. Mörg þeirra eru eingöngu hugsuð manninum til ánægju en hundurinn gegnir ennþá mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi. Hér að neðan er listi yfir nokkur hundastörf:
Blindrahundar
Lögregluhundar
Björgunarhundar
Fíkniefnaleitarhundar
Fjárhundar
Varðhundar
Veiðihundar
Sleðahundar
Kjölturakkar
Síðasta “hundastarfið” er oft vanmetið. Staðreyndin er sú að fjölmargar rannsóknir sýna að fólk sem á hunda (gildir einnig fyrir ketti og önnur gæludýr) er ánægðara og sáttara við lífið en annað fólk. Einnig hjálpa hundar fólki til að vinna bug á einmannaleik og þunglyndi, sem hvort tveggja eru stór og vanmetin vandamál í nútímaþjóðfélagi.
Það er hins vegar ekki sama hvernig hundum er sinnt. Á þessari síðu er að finna fjölmargan fróðleik um hundahald og vandamál tengd hundahaldi. Hundar bera eigendum sínum vitni - gott eða slæmt.