Húmor á sér lengri sögu en ritöldin spannar. Gríski heimspekingurinn Aristóteles sagði að hláturinn væri það sem greindi manninn frá öðrum dýrategundum og þessa fullyrðingu hafa ótal hláturspekúlantar hermt eftir honum, og kannski ekki verið sammála um neitt annað. Jafnvel dýrafræðingar hafa tekið undir að einungis maðurinn hafi kímnigáfu.
Öll vitum við vel hvað húmor er. Samt vefst fyrir okkur að útskýra hugtakið svo öllum líki, kannski vegna þess að húmor er svolítið einstaklingsbundinn. Það sem einum finnst fyndið sér annar ekkert skoplegt við.
Læknavísindin mæla með hlátri af heilsufarsástæðum. Nýleg sálfræðirannsókn á húmor sýnir að hann dregur úr spennu. Þess vegna er hann orðinn handbendi læknisfræðinnar. Hlátur lækkar blóðþrýsting og bætir ástand líkama og sálar.
Húmor á sér viðhlæjendur út um víðan völl. Eðli málsins samkvæmt eiga brandarar og skemmtisögur sér meiri lífsvon í munnlegri frásögn þegar menn geta jafnvel aukreitis hlegið að mismælunum. Þeir sem laða fram hlátur og gleði á vitsmunalegan hátt eru áreiðanlega gæddir gáfu kímninnar.