Jónas fór í veiðiferðalag til Sviss og gisti eina nótt í gistiheimili til fjalla, sem hann taldi annars laust við alla gesti. Hann valdi sér herbergi á jarðhæð rétt innan við aðalinnganginn og eftir að hann hafði eldað sér kvöldmat og borðað hann, settist hann á rúmið sitt og fór að hreinsa riffilinn sinn.
Jónas gáði ekki nógu vel að sér og gleymdi einni kúlu í rifflinum, svo að á meðan hann var að hreinsa hann hljóp skot úr rifflinum. Sem betur fer fór kúlan framhjá Jónasi og upp í gegnum loftið fyrir ofan rúmið.
Eftir morgunverð daginn eftir fór hann með lykilinn sinn í móttökuna og hótelstjórinn sagði við hann „Monsieur! Í gærkvöldi, kom fyrir slys hjá yður með riffilinn yðar, já?“
„Já, því miður,“ sagði Jónas. „Það hljóp skot úr riffilskömminni þegar ég var að hreinsa hann, en það er svosem enginn skaði skeður. Heppilegt að það var enginn annar í húsinu.“
„En, Monsieur, það er einmitt meinið, það var annar gestur í húsinu. Í herberginu beint fyrir ofan yðar herbergi voru ung hjón frá Englandi í brúðkaupsferð og kúlan yðar tók fingurinn af unga manninum.“
„En hræðilegt,“ sagði Jónas. „Þú verður að færa unga manninum afsökunarbeiðni mína. En það var heppilegt að hann var ekki Frakki. Þá hefði ég skotið af honum höfuðið!“


—————————————- —————————————-
Jónas fór á hestamannamót og sá þar að einn hesteigandinn var að gefa hestinum eitthvað sem hann gerði ráð fyrir að væri einhverskonar örvandi lyf. Hann stoppaði eigandann og bar þetta upp á hann og lét þess getið að hann myndi láta forráðamenn mótsins vita af þessu.
„Lyf?“ sagði eigandinn. „Nei, hreint ekki. Þetta eru bara sykurmolar. Sjáðu, ég skal fá mér einn sjálfur. Gjörðu svo vel, þú skalt bara prófa líka.“
Báðir menn átu sykurinn. Jónas afsakaði sig og fór.
Stuttu seinna var eigandinn að segja knapanum til, hvar hann ætti að vera og hvenær hann ætti að taka á sprett og svo framvegis. Það síðasta sem hann sagði knapanum var „Þú skalt bara hanga á baki og ekki hafa áhyggjur af neinu. Ef eitthvað fer framúr þér þá verður það annað hvort ég sjálfur eða Jónas!“


—————————————— ————————————–
Jónas var hjá lækninum og læknirinn var áhyggjufullur.
„Ég bara skil þetta ekki.“ sagði hann. „Ég er búinn að láta framkvæma margar athuganir og flóknar rannsóknir, en ég get bara ekki séð nákvæmleg hvað er að þér. Ég held að það hljóti að vera áfengisneyslan sem er að rugla allat saman.“
„Já, sko…“ drafaði Jónas, „… ég skil vel hvernig þér líður. Og ég skal bara koma seinna þegar það er runnið af þér!“


——————————————– ————————————
Jónas kom eitt sinn við í gæludýraverslun og keypti páfagauk sem kaupmaðurinn lofaði að gæti talað. Tveim vikum seinna kom Jónas aftur og kvartaði undan því að gaukurinn væri ekki farinn að segja eitt aukatekið orð.
„Kauptu handa honum svona bjöllu,“ sagði kaupmaðurinn. „Það virkar oft mjög vel til að fá þá til að fara að tala.“ Jónas keypti bjölluna.
Viku seinna kom hann aftur og sagði að fuglinn talaði enn ekki neitt. Nú lagði kaupmaðurinn til að Jónas fengi sér spegil í búrið hjá fuglinum – það væri alveg öruggt bragð til að fá hann til að byrja að tala. Jónas keypti spegilinn og fór með hann heim – en kom aftur þrem dögum seinna. Nú seldi kaupmaðurinn honum lítinn plast-páfagauk, sem hann sagði að myndi hvetja fuglinn til að tala.
Enn leið vika og Jónas kom aftur inn í dýrabúðina, en bara til að segja kaupmanninum að fuglinn hefði dáið.
„Og dó hann án þess að segja eitt aukatekið orð?“ spurði kaupmaðurinn forviða.
„Nei,“ sagði Jónas. „Hann sagði dálítið rétt áður en hann gaf upp öndina.“
„Hvað var það?“ spurði kaupmaðurinn.
„Í guðanna bænum gefðu mér eitthvað að éta!“


——————————————– ————————————
Það var óvenjulegt að sjá Jónas á hverfiskránni án hundsins. Hann hafði mætt á krána á hverjum degi í mörg ár og alltaf var hundurinn með honum. Guðmundur furðaði sig á því að hundurinn var ekki með og spurði Jónas hvar dýrið væri. Jónas brast umsvifalaust í grát.
„Ég þvoði hann í gærkvöldi og hann dó,“ snökti hann sorgmæddur.
Guðmundur var forviða. „Heldurðu að hundurinn hafi dáið bara af því að þú þvoðir hann?“ spurði hann.
Jónas kinkaði dapurlega kolli. „Það var annað hvort það, eða þurrkarinn.“


————————————- ——————————————-
Jónas og Magga sátu heima hjá sér þegar lögreglan réðist allt í einu inn með miklum látum og handtók hann. Honum var gefið að sök að hafa rænt kvenfataverslun tveim vikum áður og tekið þaðan 50 kjóla, sem hver um sig kostaði 3.990 krónur. Lögreglan fann alla kjólana við húsleit.
„Stalst þú þessum kjólum?“ spurði varðastjórinn við yfirheyrsluna.
„Já,“ sagði Jónas skömmustulegur.
„Áður en ég skrifa upp framburðinn frá þér þá er bara eitt sem mig langar til að fá að vita,“ sagði varðstjórinn. „Af hverju tókstu stæðu af útsölukjólum sem kostuðu undir fjögur þúsund kall hver, þegar í næsta rekka voru hrikalega verðmætir módelkjólar og loðfeldir upp á margar miljónir?“
„Æ, ekki þú líka,“ vældi Jónas. „Magga er búin að skamma mig í hálfan mánuð út af þessu!“


————————————————- ——————————-
Jónas var í skapi til að fara einn hring í golfi einn daginn og skrapp þess vegna á golfvöllinn í nágrenninu. Það var enginn á vellinum, svo hann ákvað að fara hringinn einn.
Fyrsta teighöggið var öflugt, en beygði af til hægri og kúlan hvarf á milli trjánna sem stóðu við brautina. Jónas íhugaði málið vandlega, en ákvað síðan að taka tveggja högga víti og slá annan bolta.
Annað höggið var beint og gott og boltinn skoppaði niður eftir miðri brautinni. Jónas var ánægður og fór sér hægt með kerruna eftir brautinni og naut góða veðursins og kyrrðarinnar. Hann stoppaði við kúluna sína, valdi kylfu vandlega og var um það bil að fara að slá þegar hann heyrði einhvern hávaða fyrir aftan sig. Jónas sneri sér við og sá hvar formaður golfklúbbsins kom hlaupandi eftir brautinni.
Þegar formaðurinn nálgaðist spurði Jónas „Hvað gengur á gamli minn?“
„Jónas minn,“ sagði formaðurinn, „veistu hvað þú gerðir?“
„Já, ég slæsaði boltann aðeins niður á milli trjánna og ákvað þá að taka annan, en auðvitað með tveggja högga víti.“
„Já, en þú skilur ekki hvað þú gerðir,“ sagði formaðurinn. „Fyrsta kúlan þín fór niður á milli trjánna, skoppaði út á veg og lenti í auganu á ungri stúlku sem var þar á hjólinu sínu. Hún datt af hjólinu í veg fyrir ungan mann á mótorhjóli sem kom á eftir henni. Hann beygði til að aka ekki á hana, en lenti þá út í skurði. Framhjólið hans beyglaðist mikið og hann handleggsbrotnaði. Úr hinni áttinni kom rúta með vestfirskar konur í verslunarferð. Hún endaði á ljósastaur þegar ökumaðurinn reyndi að forðast stúlkuna sem lá í götunni og nokkrar konur fengu minniháttar meiðsl“
„Guð minn almáttugur,“ sagði Jónas. „Hvað á ég að gera – hvað á ég að gera??“
„Ja, ef ég væri í þínum sporum, þá mundi ég færa hægri þumalinn aðeins lengra til vinstri.“


—————————————- —————————————-
Jónas var að aka um norðurland um daginn þegar lögreglan stoppaði hann.
„Gerir þú þér grein fyrir því að þú varst á alltof miklum hraða?“ spurði lögreglumaðurinn.
„Ja, ég var eiginlega allt of upptekinn við að fylgjast með veginum til að geta horft á hraðamælinn,“ sagði Jónas.
Nú fór pínulítið að fjúka í lögreglumanninn. „Ökuskírteinið!“ sagði hann hrannalega.
„Já, augnablik,“ sagði Jónas og byrjaði að leita. Eftir smá tíma rétti hann lögreglumanninum spjald, sem lögreglumaðurinn skoðaði vandlega.
„Ég bað um ökuskírteinið þitt,“ sagði lögreglumaðurinn. „Þetta er bókasafnsskírteini!“
„Já, ég veit það,“ sagði Jónas. „Ég er að leita! Mér datt bara í hug að þú vildir fá eitthvað til að lesa á meðan.“


————————————————- ——————————-