Líklega hefur fólkseklan á hjúkrunarheimilum landsins ekki farið framhjá neinum. Ástandið er mjög slæmt og hafa sumir hjúkrunarforstjórar tekið til þess bragðs að auglýsa laus störf á erlendum tungumálum í dagblöðunum, til að freista þess að fá starfsfólk af erlendu bergi brotið, sem jafnvel talar ekki íslensku. Starfsfólkið er í flestum tilfellum ákaflega vinnusamt og duglegt, en þegar kemur að samskiptum þess við sjúklingana er orðaforðinn oft á skornum skammti. Mamma kunningja míns átti lausan tíma og ákvað að fá sér vinnu á hjúkrunarheimili nokkru (utan Kópavogs). Fyrsta morguninn sinn í nýju vinnunni kom hún meðal annars inn til gamals manns og sagði: “Góðan dag”. Maðurinn svaraði ekki en spurði eins og hann tryði ekki sínum eigin eyrum: “Ertu íslensk?” “Já”, svaraði konan, hálf hissa. Þá tók gamli maðurinn í handlegg hennar og hálfhvíslaði: "Gæturðu nokkuð hjálpað mér að komast aftur heim til Íslands? Ég er búin að vera hérna heillengi og ég hef ekki hugmynd um hvernig ég komst hingað.