Davíð Davíðsson verkamaður lenti nýlega í þeim hörmulegu hremmingum að konan hans skildi við hann eftir að hafa að eigin frumkvæði farið með hann í einn af nektarklúbbum borgarinnar. Davíð sagði Gys.is þessa raunasögu í ítarlegu viðtali sem Ófús Æðis blaðamaður átti við hann. Davíð sagðist svo frá: Hjónabandið hefur verið prýðisgott árum saman. Maturinn hefur alltaf staðið tilbúinn á borðinu þegar ég kem heim klukkan sjö á kvöldin. Konan hefur aldrei byrjað að ryksuga meðan ég sef á sunnudagsmorgnum. Og hún hefur alltaf haft tilbúna hreina, hvíta skyrtu og nýpressuð jakkaföt handa mér á laugardagskvöldum, en það hefur alltaf verið eina kvöldið í vikunni sem ég er ekki heima að horfa á sjónvarpið. Þá hefur konan alltaf tekið sjónvarpsdagskrána upp fyrir mig til að ég geti horft á hana á sunnudögum. En á laugardagskvöldum var ég sem sagt vanur að búast í mitt besta skart og fara með félögum mínum að spila körfubolta. Þannig var sem sagt allt í besta lagi í hjónabandinu þangað til ég átti afmæli um daginn. Þá ákvað konan að gefa mér ekki sokka í afmælisgjöf eins og hún var vön, heldur bjóða mér í nektarklúbb. Strax í dyrunum fór óheppnin að elta mig. Dyravörðurinn heilsaði mér kumpánlega. Konan mín varð strax hissa og spurði hvernig ég þekkti hann. Ég sagði sem satt var að hann væri í liðinu sem við spilum alltaf körfubolta við. Við fórum nú á barinn en þar tók ekki betra við því þjónstustúlkan spurði hvort ég vildi ekki tvöfaldan gin í greip eins og venjulega. Konan mín varð mjög hissa og vildi fá að vita hvernig ég þekkti þjónustustúlkuna. Ég sagði náttúrulega bara eins og satt var að hún væri í kvennaliðinu sem ætti næsta tíma á eftir okkur í körfubolta. Konan sagði svo sem ekki neitt við þessari skýringu en mér fannst hálvegis eins og hún væri ekki viss um hvort hún ætti að trúa mér. Við fórum nú og settumst við borð nálægt sviðinu. Þá veit ég ekki fyrr en ein nektardansmærin stekkur allt í einu upp í fangið á mér, kyssir mig rembingskoss beint á munninn og spyr hvort ég vilji ekki einkasýningu á eftir eins og venjulega. Ég ætlaði auðvitað að fara að útskýra fyrir konunni að þessi stelpa æfir körfubolta næst á undan okkur og sýnir mér stundum hvernig eiga að skjóta á körfu… En ég komst ekki til þess því konan var allt í einu hlaupin af stað til dyranna. Ég hljóp á eftir henni en hún rigsaði alla leið út á götu og settist þar inn í leigubíl. Ég rétt náði að skjóta mér inn í aftursætið við hliðina á henni, en áður en ég gat farið að útskýra málið fyrir henni, sneri leigubílstjórinn sér við, horfði á okkur til skiptis og hristi svo höfuðið dapurlegur á svip. “Ég verð að segja það alveg eins og er, Davíð minn,” sagði hann, “að þó ég hafi séð ýmislegt til þín um dagana, þá er þetta sú allra óásjálegasta herfa sem þú hefur nokkurn tíma húkkað hérna.”