Látum oss hlæja!
Þessir brandarar eru allir úr prestabrandarabókinni “Látum oss hlæja”!
Baunapokinn
Presturinn var orðinn aldurhniginn og minnið farið að bila. Þetta kom sér illa við messur, því hann gat aldrei munað hvenær átti að segja “amen”. Kirkjan var af þeirri gerðinni að söngloftið var yfir kórnum. Orgelleikarinn var hjálpsamur náungi og presturinn var sköllóttur. Nú lét organistinn bora gat á gólfið á söngloftinu og síðan var sett trekt í gatið. Loks var keyptur stór poki af heilbaunum. Í hvert skipti sem presturinn átti að segja “amen” lét organistinn baun í trektina og allt gekk vel, presturinn sagði “amen” þegar við átti. En svo gerðist óhappið: Það kom gat á baunapokann…
Niður með Hitler!
Þetta gerðist í Noregi á stríðsárunum. Maður nokkur átti páfagauk, sem hann hafði kennt að segja: Niður með Hitler. Páfagaukurinn sat gjarnan á girðingunni umhverfis hús mannsins og þegar fólk átti leið framhjá gargaði gaukur: “Niður með Hitler.” Þegar fram liðu stundir, heyrðu Gestapómenn sér til mikillar hrellingar í þessum kjaftfora páfagauk. Hér varð að sjálfsögðu að grípa í taumana. Gestapó-foringinn fyrirskipaði að gauksi og eigandi hans, skyldu mæta á skrifstofu hans tiltekinn dag. Hræddur og kvíðinn lagði aumingja páfagaukseigandinn af stað með kjaftaskinn í búri sínu, til skrifstofunnar. Leiðin lá framhjá prestssetrinu og prestur sá þá félaga og veitti því jafnframt athygli hversu niðurdreginn maðurinn var. Hann fékk að heyra alla söguna. “Þetta er ekkert mál,” sagði prestur. “Ég á líka páfagauk, og hann segir svo sannarlega ekki: Niður með Hitler. Við skiptum bara á páfagaukum.” Jú, þá var það klappað og klárt. Maðurinn var hinn ánægðasti og mætti á skrifstofu Gestapó-foringjans með fuglinn, á réttum tíma. En áður en gaukur yrði dæmdur varð að sanna þennan voðalega glæp. Reynt var með öllum hugsanlegum ráðum að fá páfagaukinn til að tala, en gauksi sat steinhljóður og var greinilega undrandi yfir öllu tilstandinu. Loks fékk einn foringinn þá snjöllu hugmynd að segja við páfagaukinn hin voðalegu orð í þeirri von að þá myndi gaukur apa eftir sér eins og gauka er siður. Hann sagði því hátt og skýrt: “Niður með Hitler,” fyrst einn, en síðan tóku hinir foringjarnir undir og að lokum var allur hópurinn farinn að hrópa í samtaka kór: “Niður með Hitler.” Þá gat páfagaukurinn ekki þagað lengur, en sagði skýrt, en hátíðlega: “Drottinn, heyr vora bæn.”
Presturinn
Presturinn hafði verið fenginn til að tala í samkomuhúsinu. Hann var þekktur fyrir það, hve utan við sig hann var. Nú hagaði svo til, að ekkert fatahengi var í samkomuhúsinu. Prestur gekk því rakleiðis til sætis síns á fyrsta bekk og klæddi sig úr frakkanum og lagði hann á bekkinn. En hann lét ekki hér staðar numið heldur fór líka úr jakkanum og vestinu og lagði hvorutveggja hjá frakkanum. Utan við sig og án þess að vita hvað hann gerði, smeygði hann axlaböndunum útaf öxlunum og byrjaði að hneppa frá sér buxunum. Þá fannst samkomustjóranum kominn tími til að grípa inní og sagði: “Presturinn vildi kannski vera svo vænn, að halda samkomuna áður en hann háttar sig?”
Jakobsstiginn
Þeir voru engir sérstakir vinir, nágrannaprestarnir. Þeir hittust þó af og til og skiptust á nauðsinlegum kveðjum og spjölluðu lítilsháttar saman. Eitt sinn hittust þeir í veislu og segir þá annar við hinn: “Mig dreymdi skrýtinn draum í nótt.” “Nú, segðu mér hann,” sagði hinn forvitinn. “Ég veit svei mér, ekki hvort ég get það. Hann var nefnilega um þig, minn kæri kollega.” “Nú, þetta var bara draumur. Lát oss heyra.” “Jæja, þá. Draumurinn var svona:
Mig dreymdi, að ég var dauður og stóð við gríðarlega mikinn Jakobsstiga. Engill kom niður og sagði, að mér væri óhætt að fara upp til himins. En engillinn fékk mér krít og sagði mér að gera strik á stigakantinn í hvert sinn, sem mér kæmi í hug einhver synd, sem ég hefði drýgt á jarðvistardögum mínum. Ég hélt af stað upp og eftir talsvert langa stund, mætti ég þér kæri starfsbróðir. Ég varð að sjálfsögðu undrandi og spurði þig: “Hvert ert þú eiginlega að fara?” Og þú svaraðir mér heldur þurrlega: “Niður að sækja meiri krít.”
Litli fuglinn
Hann var aðeins lítill fugl. En honum fannst þessar sífellu suðurferðir á haustin eitthvað svo tilgangslausar. Hann tók því þá óbifanlegu ákvörðum, að fara hvergi. Hann var hreykinn og ánægður yfir eigin sjálfstæði og horfði með hálfgerðri vorkunnarsemi á aðra fugla, sem síðari hluta septembermánaðar tóku sig upp í stórhópum og héldu suður á bóginn. Svo leið nokkur tími. En þá fór að kólna. Það var nístingskalt og þegar komið var fram í nóvember, sá litli fuglinn, vinur okkar, að hér var aðeins eitt sem hægt var að gera: Koma sér suður í sólina og hitann. Og frostkaldann morgun lagði hann af stað. Allt gekk vel í fyrstu, en fljótlega myndaðist ísing á vængjunum, og svo fór að lokum að litli fuglinn, vinur okkar, varð að nauðlenda, illa haldinn einhversstaðar í hinu blauta Hollandi. Skammt frá lendingarstað fuglsins voru beljur að naga hálm. Nú vildi hvorki betur né verr en svo, að ein kýrin missti frá sér það, sem kýr eru sífellt að láta frá sér og hefði það ekki verið í frásögur færandi, ef ekki hefði viljað svo illa til að þetta lenti á aumingja litla fuglinum, vini okkar. Hann bókstaflega fór á kaf. Þetta virtust ætla að verða dapurleg endalok og litla fuglinum fannst myrkrið og vonleysið umlykja sig í orðsins fyllstu merkingu. En til er nokkuð, sem nefnist heitir bakstrar. Fljótlega fann litli fuglinn fyrir hitanum frá kúadellunni. Blóðið byrjaði aftur að renna eðlilega og kraftarnir jukust að nýju og skapið batnaði. Í gleði sinni byrjaði fuglinn nú að syngja fallegan söng (What kind of fugl am I?).
En í skógarjaðrinum var gulbröndóttur hollenskur köttur á ferð. Hann sperrti eyrun og trúði þeim varla: Fuglasöngur? Gat þetta verið satt? Jú, það var ekki um að villast og kisi var fljótur að finna útúr því hvaðan þessi dýrðlegi söngur kom: Þetta var óvenjulega músíkölsk kúamykja. Og með því að kötturinn var svangur, þá kærði hann sig kollóttann um umbúðirnar, en fann fljótlega innihaldið, vin okkar litla fuglinn, sem hann át, ja, með húði og fjöðrum.
Já, svona var sagan sú. Ef til vill hafið þið þegar fundið boðskap sögunnar, en hann er þríþættur:
1. Það er ekki víst að það séu endilega óvinir þínir sem kasta skít að þér.
2. Það er ekki víst að það séu endilega vinir þínir sem vilja þig uppúr skítnum.
3. Ef þú hefur það gott í skítnum, reyndu þá að halda þér saman!
Skógarkapellan
Ensk hefðarfrú ætlaði að eyða fríi sínu í þýsku fjallaþorpi. Hún kunni ekki mikið í þýsku, en kom þó saman bréfi á bjagaðri þýsku, sem hún sendi skólastjóranum í þorpinu. Í bréfinu, bað hún skólastjórann um upplýsingar um eitt og annað, svo sem staðsetningu hússins, sem hún átti að dvelja í, útsýni og fleira.
Jú, jú, skólastjórinn skildi þetta allt, nema eitt. Það var skammstöfun sem hann botnaði ekkert í. Frúin hafði skrifað:
“Eftir því sem ég kemst næst, er væntanlegur dvalarstaður minn mjög afskekktur. Þér megið því ekki vera undrandi þó að ég gerist svo djörf að spyrja, hvort á staðnum sé nokkuð WC?”
“WC,” hugsaði skólastjórinn, “hvað er það nú fyrir nokkuð?” Og þar sem skólastjórinn gat ómögulega fundið út merkingu þessarar skammstöfunar, fór hann til vinar síns, þorpsprestsins og bað hann um að hjálpa sér. Og að lokum fundu þeir vinirnir það út, að þessi skammstöfun ætti við þann fræga stað, skógarkapelluna, sem laðaði að sér fjölda ferðamanna á hverju sumri. Að sjálfsögðu hét kapellan á ensku, Wood Chapel, sem trúlega væri skammstafað WC. Ánægður með þessi málalok skrifaði skólastjórinn frúnni síðan svarbréf:
“Yðar náð! WC er staðsett um það bil 10 kílómetra frá húsi yðar, mitt í afar fallegum furuskógi. Þar er opið á þriðjudögum og föstudögum milli klukkan 5 og 7. Þetta kemur sér ef til vill illa fyrir yður, ef þér eruð vön að heimsækja slíkan stað daglega. En ég get glatt yður með því, að margir hafa með sér mat og dvelja á staðnum daglangt. Í WC eru sæti fyrir 80 manns, en jafnframt eru næg stæði. Ég vil þó ráðleggja frúnni að mæta snemma, því að þeir sem koma seint geta ekki verið öruggir um að komast inn. Hljómburðurinn þarna er mjög góður, svo jafnvel hin veikustu hljóð, heyrast mjög vel. Ég vildi svo að lokum ráðleggja frúnni að heimsækja umræddan stað á föstudögum, því þá er þarna orgelundirleikur.
P.S.: Konan mín og ég höfum ekki haft tíma til að heimsækja þennan stað í 3 mánuði og veldur það okkur að sjálfsögðu miklum kvölum, — en því miður, — leiðin er svo löng.”