Það getur gengið á ýmsu þegar reynt er að fá yngstu kynslóðina til að borða það sem er á boðstólnum og klára af disknum. Einn faðir var orðinn langþreyttur á stríðinu í kringum matarborðið og þrjósku sonarins sem vildi ekki klára matinn. Hann sagði því við strákinn: “Ég kæri þig til lögreglunnar ef þú klárar ekki af disknum.” Strákur lét ekki segjast en til að kanna alvöruna á bak við orð föður síns gekk hann niður á lögreglustöð og spurði: “Hefur pabbi verið hérna til að kæra mig fyrir að klára ekki af disknum?” Lögreglumaðurinn á vakt var fljótur að fatta um hvað málið snérist og sagði: “Já, vinur minn, hann gerði það.” Þá setti strákur í brýrnar og sagði hinn fúlasti: “Það var týpískt. Hann kærir mig en svíkst sjálfur um að borga afnotagjaldið af sjónvarpinu, keyrir um á óskoðuðum bíl og eimar spíra í kjallaranum.”
Nokkrir smástrákar sátu eitt sinn í hring og lugu hver sem betur gat. Kom þá að þeim maður sem hét Jón Baldvin. Jón vildi vita af hverju strákarnir létu svona. Þeir sögðust hafa fundið stóran nammipoka og að þeir hefðu komið sér saman um að keppa um pokann. Sá sem duglegastur var að ljúga mundi fá allt nammið. Jón sagði þeim að þetta fyndist honum ekki sérlega sniðugt. Lagði hann til að strákarnir hlypu í kapp, stykkju hástökk eða reyndu með sér á svipaðan hátt til að vinna gottið. Slíkt máttu þeir ekki heyra. “Já, en það er svo ljótt að ljúga, strákar. Aldrei lýg ég, hvorki í vinnunni eða annars staðar.” Það kom þögn á hópinn. Einn pollana, sá er Páll hét, stóð upp og lét Jón hafa nammipokann um leið og hann sagði: “ Við höfum ekkert í’ann þennan.”