Í framhaldsskólanum
Tveir piltar sem eru að taka stúdentspróf ákváðu að nota upplestrarfríið til að skemmta sér ærlega og var mikið um glaum og gaman á hverjum degi í upplestrarfríinu. Nóttina fyrir fyrsta prófið sem var sögupróf nýttu þeir til fullnustu og þegar kom að því að mæta í prófið höfðu þeir ekki sofið í meira en sólarhring. Þeir fóru þó í skólann, ræddu við kennarann og sögðu honum að það hefði sprungið á bílnum uppi við Þingvallavatn kvöldið áður og þeir hefðu verið alla nóttina að ná í varadekk. Þeir fengu sólarhringsfrest til að hvíla sig. Þegar þeir mættu í prófið var farið með þá í sitthvora skólastofuna, gsm síminn tekinn af þeim og þeir látnir vera einir. Á fyrstu síðu var ein spurning sem var svona: „Hvaða ár nam Ingólfur Arnarson land (5%)?“ Þeir urðu dauðfegnir að sjá að prófið væri svona létt, svöruðu strax og flettu svo á aðra síðu. Þar var spurt: „Hvaða dekk sprakk á bílnum (95%)?“