Dag nokkurn kviknaði eldur í húsi Íslenskrar erfðagreiningar og allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu er kallað til.
Þegar fyrstu slökkvibílarnir mæta á svæðið tekur Kári til máls:
“Öll okkar vinna síðustu árin er læst inn í hvelfingu í miðri byggingunni. Allt erfðamengi mannsins og uppskriftin að lyfinu sem kemur til með að lækna sykursýki. Ég borga þeim slökkviliðsmönnum sem bjarga þeim gögnum 10 milljón krónur hverjum og styrki þeirra slökkvistöð um 50 milljónir!”
Öll liðin reyna, hver stöðin á fætur annarri, en allt kemur fyrir ekki.
Þar til slökkvibíll úr Hafnarfirði kemur aðvífandi. Það skiptir engum togum að Hafnfirðingarnir keyra viðstöðulaust inn í miðja byggingu, stökkva allir sem einn af bílnum inni í miðju eldhafinu og berjast eins og óðir menn við eldinn og hafa betur.
Kári kemur til þeirra yfir sig kátur, réttir þeim risastóra ávísun og spyr hvað þeir ætli nú að gera við peningana.
“Ætli við látum ekki laga bremsurnar á slökkvibílnum..”