Fjósamaðurinn hafði lengi verið ástfanginn af heimasætunni en þetta var ást í meinum því hann hafði aldrei uppburði í sér til að játa henni ást
sína - né heldur gaf hún honum nokkurt tilefni til að ætla að ástin væri endurgoldin. Svo fréttist að blásið væri til harmóníkkuballs í félagsheimili sveitarinnar. Fjósamaðurinn herti upp hugann og bauð heimasætunni á dansleikinn. Honum til mikillar gleði og nokkurrar undrunar játaði heimasætan.
Stóri dagurinn rann upp og fjósamaðurinn gekk heim að bæ og barði dyra.Bóndinn kom til svars, sagði dóttur sína vera að taka sig til og bauð fjósamanninum, sem var í sínu fínasta pússi, til stofu. Fjósamaðurinn
fékk það á tilfinninguna að bóndanum væri ekkert of vel við þessa tilhögun, að þau væru að fara saman á dansleik. Hann sest og þorir varla að segja orð og til að gera illt verra fer um hann hroðalegur vindverkur og hann neyðist til að senda frá sér örlítinn þarmagust. Þá segir bóndinn: “Snati!” Fjósamaðurinn tekur nú eftir því að undir stólnum semhann situr á liggur hundur í makindum sínum. Hann dregur þá ályktun að bóndinn ætli hundinn hinn prumpandi sökudólg og til að sannreynakenningu sína sleppir hann öðrum viðrekstri frá sér - sýnu meiri en sá fyrri. Enn segir bóndinn, nokkuð höstugur: “Snati!”. Feginn gefur nú fjósamaður frá sér þá ólgu gass sem hafði verið honum til verulegra óþæginda. Þá segir bóndinn: “Snati! Viltu koma þér undan stólnum áður en mannfýlan drullar á þig!”


Hvernig á að taka mynd af hvolpi?

1. Taktu filmuna úr kassanum og settu í myndavélina.
2. Taktu filmukassann af hvolpinum og hentu honum í ruslið.
3. Taktu hvolpinn úr ruslafötunni og þurrkaðu kaffikorkinn af trýni hvolpsins.
4. Veldu hentugan Bakgrunn fyrir myndina.
5. Settu myndavélina á þrífót og stilltu hana.
6. Finndu hvolpinn og taktu skítuga sokkinn af honum.
7. Stilltu hvolpinum upp fyrir framan myndavélina.
8. Gleymdu uppstillingunni og skríddu á fjórum fótum á eftir hvolpinum með myndavélina.
9. Stilltu myndavélina með annarri hendi og reyndu að halda hvolpinum í fjarlægð með hinni.
10. Náðu í þurrku og þurrkaðu slefið af linsunni.
11. Taktu flasskubbinn af hvolpinum og hentu honum í ruslið.
12. Hentu kettinum út og sótthreinsaðu rispuna á trýni hvolpsins.
13. Settu tímaritin aftur upp á stofuborðið.
14. Reyndu að ná athygli hvolpsins með tístu leikfangi.
15. Settu gleraugun aftur upp og athugaðu hvort myndavélin skemmdist nokkuð.
16. Stökktu upp og gríptu í hvolpinn í tíma og æptu: “Nei, nei úti”.
17. Kallaðu á maka þinn til að þurrka upp óhreinindin
18. Blandaðu þér drykk.
19. Sestu í hægindastól með drykkinn og ákveddu að kenna hvolpinum að hlýða orðunum “sestu” og “kyrr” strax í fyrramálið.





Sköpun heimsins, séð frá sjónarhóli hundsins

Á fyrsta degi sköpunarinnar skapaði Guð hundinn.

Á öðrum degi sköpunarinnar skapaði hann manninn til að þjóna hundinum.

Á þriðja degi sköpunarinnar skapaði Guð öll önnur dýr í heiminum, hundurinn er efstur í fæðukeðjunni.

Á fjórða degi sköpunarinnar bjó Guð til það verkefni fyrir manninn að hann hefði það háleita markmið á degi hverjum að viðra hundinn.

Á fimmta degi sköpunarinnar bjó Guð til tennisboltann svo hundurinn geti leikið sér.

Á sjötta degi sköpunarinnar skapaði Guð dýralækninn til þess að hundurinn sé alltaf heilbrigður og pyngja eigandans léttari.

Á sjöunda degi sköpunarinnar ætlaði Guð að hvíla sig…………… en hann þurfti að fara út að ganga með hundinn.