Heilræðavísur Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra Íslands.
(Sást til tveggja manna að ræðast við inni í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Heyrðist þá annar kveða:)
Ungum er það allra best
að óttast stjórnarherra,
þeim mun velferð veitast mest
og virðing aldrei þverra.
Hafðu hvorki háð né spott,
huga að ræðu minni,
hinum æðsta gerðu gott,
gleymdu æru þinni.
Ráðherrum þínum þéna af dyggð,
það má gæfu veita,
varast þeim að veita styggð,
viljirðu gott barn heita.
Hugsa um það helst og fremst,
sem hægristjórn má næra;
aldrei sá til æru kemst.
sem ekkert gott vill læra.
Ljúfur er í lyndi glaður;
ljóst má heita og sannað,
að hinn verður bara hálfur maður,
sem heldur eitthvað annað.
Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar rétta boðun,
en þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrykkir ranga skoðun.
Vertu dyggur, trúr og tryggur,
taktu enga sjansa,
ver aldrei styggur né í orðum hryggur
við oss í mínum bransa.
Eftirlátur, kær og kátur,
kemstu langt á Fróni;
valda spjátur, hæðni, hlátur,
heilsu- og sálartjóni.
Víst ávallt þeim vana halt:
Vinna, þegja, læðast;
umfram allt þó ætíð skalt
elska mig og hræðast