Einn þráður á dag kemur Huga í lag!
Sælir Hugarar!

Jæja, þá er þessi frábæri vefur kominn í loftið og er að mínu mati sá staður internetsins sem mér þykir skemmtilegast að tjá mig.

En já, eflaust hafa flestir tekið eftir því að hér er ekki mikið af nýju efni til þess að skoða. Af hverju er það? Flestir halda eflaust að það sé einungis vegna þess að á Huga séu ekki nægir notendur, en það er ekki svo. Hugi fær hellings af heimsóknum daglega, en einungis brot af þeim sem inn koma ákveður að staldra við og tjá sig um eitthvað sem á daga þeirra hefur drifið.

Af hverju það er svo er spurning og felst svarið eflaust í mörgum þáttum, allt frá Facebook til breyttrar internetmenningar þar sem skilaboðin verða styttri og krefjast minni fyrirhafnar til þess að fá viðurkenningu fyrir innsent efni o.s.frv.

En af hverju ættum við að vilja halda Huga lifandi með innsendu efni fyrst það eru svona margir aðrir staðir á internetinu þar sem hægt er að tjá sig?

Hér eru nokkrar ástæður frá stjórnendum Huga:
  • "Á huga getur maður talað undir nafnleynd, ekki á facebook. Það eitt og sér hefur ótal kosti, t.d. þorir viðkomandi þá að tjá sig meira um ýmis málefni eða vandamál á huga sem hann myndi annars ekki þora að gera undir nafni á facebook."
  • "Á huga getur maður kynnst nýju fólki"
  • "Fólk skrifar sjaldnast eitthvað mjög langt á facebook eins og grein eða eitthvað slíkt. Það geturðu gert á huga og ólíkt við margar íslenskar síður með aðsendum greinum –þá færðu komment á greinina!"
  • "Á Facebook skoðarðu tilviljanakenndar stöðuuppfærslur hjá vinum sem geta verið um hvað sem er. Þú ræður semsagt ekkert „um hvað“ þú ætlar að lesa. Þetta geturðu hinsvegar gert á huga. Sem dæmi, ef þig langar að lesa um kvikmyndir ferðu inn á /kvikmyndir o.s.frv."
  • "Þú getur séð ýmis málefni frá öðru sjónarhorni á huga heldur en á facebook því fólkið á huga er e.t.v. ekki á sömu skoðun og Facebook-vinir þínir"
  • "Á Huga hefur þú aðgang að greinum, myndum, umræðum og könnunum um áhugamál þitt, allt á sama stað. Einnig hefur þú yfirlit yfir allt þetta efni frá öllum áhugamálum á einum stað sem þú getur sérhannað að þínu skapi"
  • "Hugi er netsamfélag. Að vera Hugari var oft upphafspunktur í skemmtilegum samræðum við ókunnuga og jafnvel síðar vináttu".
  • "Hugi opnaði augu manns fyrir nýjum áhugamálum og umræðum þar sem maður var ekki lokaður inni í boxi með það sem maður sjálfur hafði stillt að eigin hentugheitum. Reglulega rak maður augun í eitthvað nýtt sem maður hafði ekki leitt hugann að áður". 

Það er til margs að vinna, enda er ástæða fyrir því að við ákveðum að koma hingað og tjá okkur fremur en að fara á Facebook. En Hugi þarfnast ykkar aðstoðar. Við erum að berjast við breytta tíma þar sem að fólk vill frekar láta mata sig fremur en skrifa eitthvað sjálft.

Ok, þið viljið hjálpa. Hvað getið þið gert?
  • Einn þráður á dag kemur skapinu í lag!  Þetta þarf ekki að vera neitt merkilegt. Bara eitthvað fyrir fólk til að henda sín á milli, hvort sem það er inni á/sorp, /tilveran eða annars staðar. Bara einn þráður á dag frá virkum notendum Huga myndi margfalda efnið sem við höfum úr að moða!
  • Mér "líkar" þetta! Eru þið ánægð með eitthvað sem þið lásuð? Verið dugleg að láta greina/korkahöfunda vita, því það hvetur þá áfram á sömu braut! Þið getið bæði notað stigakerfið og ef efnið er sérstaklega gott, endilega skjóta inn "flott grein/vangaveltur/þráður" o.s.frv.
  • Senda inn myndir/kannanir/greinar. Ekki er erfitt að finna mynd af einhverju áhugaverðu í dag. Ef þú ert kattavinur, sendu inn mynd af ketti sem þér finnst sætur. Ef þú ert fótboltakall sendu inn mynd af góðu marki o.s.frv.. Þetta tekur ekki nema 2-3 mínútur en getur skipt sköpum fyrir framtíð Huga. Sama á við kannanir, enga stund gert en skilar miklu. Munið bara að hafa "hlutlaus" möguleika fyrir þá sem ekki þekkja til efnisins en vilja taka þátt. Og ef þið eruð í sérstaklega miklu stuði, sendið inn greinar um eitthvað hugans málefni!
Tökum höndum saman Hugarar og tryggjum þessum vef langlífi! Margt smátt gerir eitt stórt og í tilfelli Huga, eitt risastórt!
Bætt við fyrir 12 árum, 6 mánuðum:

Ef þið hafið sjálf einhverju við að bæta um hvað Hugi hefur fram yfir aðra vefi, endilega segið það hér!
"People hardly ever make use of the freedoms that they do have, like freedom of thought. Instead they demand freedom of speech as compensation" - Kirkegaard