ÉG er með eitthverjar glósur..=) Vona að þær duga eitthvað =)
Fyrri hluti, Englar alheimsins
I (9-32): Af foreldrum Páls, öfum og ömmum, og fæðingu hans sjálfs 30. mars 1949.
1) Páll sér föður koma með son sinn á Klepp og verður hugsað til ævintýra móðurinnar. Hegel og veruleikinn, skáld og heimspekingar: “… í okkar heimi hafa aðrir rétt fyrir sér og þekkja muninn á réttu og röngu.” Seinna þegar lyfjaskýið umlykur Pál sýnir hann engin viðbrögð þegar nafn hans er nefnt. (10)
2) Draumi móður Páls lýst: hundur og 4 hestar, sá skjótti hagar sér undarlega og deyr. Móðir Páls man fyrst drauminn aftur þegar hann hverfur úr þessum heimi, finnst hann einhver fyrirboði þess sem gerst hefur.
3) Um ævisögur og fæðingardag Páls 30. mars 1949. Nató er einnig á tímamótum við dauða Páls, enginn óvinur lengur, múrar hrundir í Berlín en “…múrarnir milli mín og heimsins hrynja aldrei;…” (16)
4) Fæðingardagurinn áfram - barnið vill nú ekki lengur fæðast í þennan heim grjótkasts og táragass.
5) Ólafur faðir Páls nær í smyglaða brjósthaldara sem Gunnar stýrimaður á Eyjafossinum færir heim með meiru. Gunnar selur Björgvini kaupmanni góssið á 3 kr. stk. x 1000=3000 kr.
6) Ólafur fer á Austurvöll til að forvitnast en verður að flýja undan táragasi og fer á Skeggjagötu til tengdaforeldra sinna. Hann fréttir að hann sé orðinn faðir, en Páll veit ekki hvort hann grætur af fögnuði eða sviða af táragasinu.
7) Var bölvun yfir deginum? Páll er eins og lóan fyrir foreldrum sínum, en heimurinn er klofinn í tvennt eins og geðsjúkur maður. “Ó, svarthvíti heimur, þegar allt var í jafn föstum skorðum og sjúklingur í spennitreyju!” (23) “…bílinn sem einn daginn ók inn í dauðann.” (23)
8) Forsagan: Ólafur afi sem hvarf “…jafn snemma af sjónarsviðinu og ég.” (24) Drykkjuskapur afans, kjallaraholan við Sjómannastíginn, ferð Ólafs yngra yfir Hellisheiði til vandalausra í Kambahreppi þar sem hann dvelur 12 ár í torfbæ. Síðan aftur til Reykjavíkur, sjósókn, strætisvagna- og rútuakstur, leigubíll, kjallaraíbúð við Bryggjusund. Móðir Páls “af góðu fólki” svo faðir hans leggur sig allan fram til að standa sig.
9) Orðrómur um að Ólafur stundi Gúttó og haldi framhjá konu sinni. Jóhann bróðir Guðrúnar kemst að því að þar er Gummi bróðir Ólafs á ferð og ekkert syndsamlegt.
10) María amma Páls er sigld og vel að sér í Lagerlöf, Hamsun, Björnson og Strindberg. Afinn Páll vinnur við að kortleggja gróðursvæði svo þau bregða búi og flytja á Skeggjagötu þegar Ísland er hernumið. Í barnaskoðun er spurt um geðveiki í ætt Páls.
11) Afinn yrkir stökur fyrir Pál þar sem hann óskar þess að sólin megi ríkja á vegi hans. Hann gefur Páli forláta frímerkjabók 8 ára gömlum. Þegar Páll er orðinn öryrki heimsækir hann afa sinn og ömmu á Teigaveginn og heyrir afann fara með kveðskap sinn, jafnvel eftir að hann er dáinn.
II (33-54): Af bernsku Páls, æskufélögum og nágrönnum.
1) Umhverfi spítalans lýst kuldalega. Endurminningar frá því ungar mæður sátu á túninu með ungbörn sín.
2) Móðir Páls hittir Baldvin Bretakóng (liðsforingjann) sem er fyrrum embættismaður utan af landi. Hann segir að englar vaki yfir Páli litla, en ávítar hann síðar þegar hann er orðinn vitskertur fyrir að hafa ekki gætt englanna sinna.
3) Páll litli kannar umhverfið og er bitinn af 3 stelpum í næsta garði. Hann sér ekki sjálfan sig í speglinum og gegnir ekki Pálsnafninu.
4) Bréf til Rabba bróður: Páll er hættur að taka lyfin, minnist leikja við Gulla og talar um þegar Bergsteinn faðir hans var að mála spítalann. Páll man síðar þegar hann sjálfur var að mála og verkjaði í eyrað, sannfærður um að hann væri van Gogh.
5) Vinirnir: Rauðhærðu bræðurnir Daníel og Skúli, synir Þórs togarajaxls og Ellu feitu, og dökkhærðu bræðurnir Jói og Siggi, synir Benna pípara og Þóreyjar. Þór verður fyrir voðaskoti í veiðitúr með Benna og missir annað augað.
6) Gulli verður listmálari, Daníel og Skúli bílasalar, Jói gæslumaður og Siggi sjómaður, Páll einfari að atvinnu og vistmaður á Kleppi. Glæsileg skúta strandar og ýtir undir þrá Sigga eftir fjarlægum löndum en Gulli notar myndefnið í frægt málverk.
7) Ella feita býr til bolluvendi og Jói og Palli selja þá á 2 kr. í stað 20. Þeir minnast túkallanna hennar Ellu síðar þegar Jói er orðinn gæslumaður á Kleppi og hittir Pál þar sem sjúkling.
8) Páll fær að hlusta eftir hjartanu í skauti Stínu systur Daníels og Skúla. Eyvindur vörubílstjóri og kattabani kaupir sér togara og fer á hausinn. Síðar liggja leiðir hans og Páls saman í húsnæði Félagsmálastofnunar. Systkini Páls: Haraldur, Rabbi, Svana.
9) Benni keyrir á ljósastaur og deyr.
10) Siggi fer í skútuna eftir dauða föður síns og lætur sig dreyma um að komast burt. Löngu síðar reynir hann að kaupa skútuna en eigendurnir láta hana frekar drabbast niður en selja hana.
III (55-66): Af stúdentinum (og Páli).
1) Orð Makbeðs um lífið “… þulið af bjána … og merkir ekki neitt.” (55) Páll hleypur berfættur að heiman upp að Elliðaám, rankar við sér í fangaklefa og er keyrður á Klepp í járnum.
2) Strákarnir skjóta máva og á skúr Óla trillukarls. Þá sjá þeir löggubíl bruna að spítalanum.
3) Löggurnar fara með stúdentinn vitskerta inn á Klepp en þar er ekki tekið við honum.
4) Saga stúdentsins: Í fangelsinu slær hann höfðinu við veggina og bítur í sundur á sér tunguna. Loks er hann fluttur á Klepp og deyr þar nokkrum vikum síðar. Þá kemur í ljós að hann var með heilaæxli og sársaukinn olli sturluninni.
IV (67-81): Kleppur og nágrenni í æsku Páls.
1) Aðbúnaður sjúklinga batnar, þeir eru viðraðir og baðaðir. Áður var réttur sjúklinga minni en búfénaðarins.
2) Ragnar föðurbróðir Páls tjáir sig um Klepp eftir að hafa verið rekinn þaðan fyrir að gefa sjúklingi jólaköku.
3) Ragnar og barátta hans við auðvaldið. Hann segir að læknarnir séu dauðhræddir við sjúklingana. Hegðun megi bæta með því einu að koma vel fram við sjúklingana.
4) Steinunn gamla sem eldar barnakjötið verður strákunum til bjargar þegar þeir villast á pramma.
5) Gulli notar fyrirmyndir af innrömmunarverkstæði Kúdda í “Spjall snillinganna”. Bergsteinn er snilldarmálari en selur aldrei neina mynd, kannski af því að Kleppsspítali er á þeim öllum.
6) Fyrsti yfirlæknir á Kleppi var andatrúar og stundaði vatnalækningar. Lýst er sýsli meðfærilegra sjúklinga umhverfis spítalann: Bóndans sem byggði torfbæinn, bóndakonunnar með kaffið, Baldvins Bretakóngs, Grétu sem gekk svo hratt og mikið og Einars sem hélt hann væri Ali Baba.
7) Foreldrar Páls heimsækja hann á spítalann en þá er búið að dópa hann svo upp að hann getur ekki talað. Þetta er gert vegna þess að starfsfólk er svo fátt yfir páskana.
V (83-104): Dvöl Páls í Skagafirði og heimkoma þaðan.
1) Lýst er líðan Páls á spítalanum og skynjunum hans. Allt er kuldalegt og myrkt. Vísað er til fljúgandi kúa Chagalls og málverka Bergsteins.
2) Minningar frá sumardvöl í Skagafirði. Pétur einbúi á Hvalnesi hafði samneyti við enska skipshöfn frá 16. öld og passaði upp á draugana í skemmunni.
3) Páll kynnist Keisara norðurljósanna á Sauðárkróki og lýsir athöfnum hans víða um land. Á Gistiheimilinu við Stangarholt liggja leiðir þeirra Páls saman og Keisarinn varar hann við að tíminn sé að renna út.
4) Pétur gerir skotárás á skip Landhelgisgæslunnar.
5) Páll fer að Kirkjumýri og kynnist Ólöfu dóttur Halldóru ráðskonu. Hún finnur þau buxnalaus inni í hlöðu og bindur endi á samdrátt þeirra.
6) Þegar Páll kemur heim úr sveitinni er fjölskyldan flutt í Dvergheima. Páll endurheimtir frímerkjabókina frá Magga og Ómari, en frímerkin sjálf eru horfin, og fær viðurnefnið Mussi slappi.
7) Vinahópurinn hefur sundrast - Siggi er fluttur til Vestmannaeyja og Jói orðinn reykjandi leðurjakkatöffari sem kemur Páli ekki til hjálpar þegar hann er uppnefndur.
Síðari hluti, Farandskuggar
VI (107-132): Páll og Dagný.
1) Páll vegur yfir 100 kg vegna lyfjaneyslu. Hann málar og hugsar um Dagnýju sem verður stöðugt meiri hugarburður.
2) Páll heimsækir Dagnýju en hún er óánægð með heimsóknir hans enda telur hún sambandi þeirra lokið.
3) Dagný er dóttir háttsetts embættismanns og móðir hennar er svo snobbuð að hún á erfitt með að ímynda sér dóttur sína í slagtogi með syni leigubílstjóra
4) Páll kemst í kynni við Dagnýju meðan hann er frískur og vel útlítandi. Þau hlusta á tónlist saman, lesa og láta sig dreyma um ferðalög, en Rögnvaldur og Arnór vinir Páls eru ekki hrifnir af sambandinu. Rögnvaldur telur Dagnýju yfirstéttarstelpu á smá mótþróaskeiði sem eigi eftir að fara í lögfræði og giftast einhverjum með ættarnafn.
5) Páll heimsækir Dagnýju eftir að þau eru hætt saman, hún er í HÍ og hann hættur í menntó vegna höfuðkvala. Dagný sættist á að fara með Páli í bíó en mætir svo ekki. Páll drekkur sig fullan og fer á stúdentaball í Tjarnarbúð þar sem hann ræðst á Dagnýju og dansherra hennar og er varpað á dyr.
6) Forspá Rögnvaldar um Dagnýju rættist. Páll kynnist Rögnvaldi strax á fyrsta degi í menntó. Hann er úr Borgarfirði, róttækur fútúristi og aðdáandi Egils Skallagrímssonar (“Höggva mann og annan”), drykkfelldur og fyrirferðarmikill og því kallaður flóðhesturinn. Hann fer öllum á óvart í tannlækningar í Þýskalandi, eignast konu og 2 börn og flytur í lítinn bæ norðan heiða. Páli finnst hann breyttur, enda hann sjálfur farinn yfir um.
7) Eftir slaginn í Tjarnarbúð lendir Páll í samkvæmi og sængar hjá einum húsráðenda, Kötu. Þaðan fer hann daginn eftir beint til Dagnýjar en leggur á flótta eftir að hann er nærri búinn að stinga hana með hnífi.
8) Frá Dagnýju fer Páll á Mokka og þaðan í heimsókn til ókunnugs manns, finnst hann ofsóttur og sér ofsjónir. Vaknar síðan í strætisvagnabiðskýli.
VII (133-156): Aðdragandi þess að Páll er settur á Klepp, og heimsóknir Rögnvaldar.
1) Páli finnst hann ofsóttur; í Morgunblaðinu er mynd af honum og þess getið að hann hafi ætlað að halda málverkasýningu á lögreglustöðinni. Hann einangrar sig á heimilinu og telur að Halli bróðir sinn dragi grunsamlega menn í húsið. Hann slær Halla við matarborðið fyrir smjatt, brýtur disk og skipar öllum að þegja.
2) Um jólin vill Rögnvaldur að þeir Páll fái sér í glas (rifjaður upp brúðkaupsundirbúningur frá sumrinu áður). Þeir verða viðskila niðri í bæ og Páll ógnar manni með hnífi Rögnvaldar í biðröðinni við Hótel Borg. Páll næst eftir að hafa lent í Tjörninni og varðstjóri ráðleggur honum að leita læknis.
3) Höfuðverkur Páls ágerist. Hann skynjar merkjasendingar nágranna og þrá konunnar í næsta húsi, læsir að sér og neglir fyrir herbergisgluggann að innanverðu. Rögnvaldur hringir og skrifar en Páll telur hann kominn í óvinaliðið, hann sjálfur standi einn.
4) Guð vill að Páll breyti herberginu í örk og fái sér kvenmann en konan í næsta húsi bregst ókvæða við tilboði hans um holdlegt samræði. KGB og Herstöðvaandstæðingar eru meðal andstæðinganna. Páll verður fyrri til aðgerða og hleypur að heiman berfættur á stutterma bol.
5) Þegar Páll hefur verið í nokkur ár viðloðandi á Kleppi kemur Rögnvaldur í heimsókn í hvert sinn sem hann á leið í bæinn. Páll skynjar að Rögnvaldur er ekki eins öfundsverður og hann lítur út fyrir að vera (“… Kleppur er víða.” (145)). Hann ræðir um hve auðvelt sé að fyrirfara sér við Reykjanesvita eitt sinn og lætur verða af því síðar með einhverjum hætti (sbr. bílinn “…sem einn daginn ók inn í dauðann” (23)). Arnór gerist prestur eftir sukksamt líf í Kaupmannahöfn og jarðsyngur Pál þegar þar að kemur.
6) Þegar Páll er lagður inn á Klepp kynnist hann Brynjólfi geðlækni. Hann er öllum stundum á spítalanum og virðist ekki líða mikið betur en sjúklingunum.
7) Páll hressist, minnkar lyfjaneyslu og fer að hugsa um að skrifa sögu eða yrkja ljóð sem hann geti sýnt Yoko Ono og gefið út í Bandaríkjunum.
8) Páll heimtar peninga af föður sínum og rýkur á dyr með seðlabúnt og ferðaútvarp eftir að hafa hótað föðurnum lífláti og velt eldhúsborðinu um koll.
9) Lögreglan hirðir Pál berfættan á Keflavíkurveginum á leið til Bandaríkjanna og fer með hann á Klepp. Þar slæst hann við Vilhjálm gæslumann um útvarpið, er sprautaður niður og settur í einangrun.
VIII (157-178): Saga Péturs.
1) “Postularnir” Pétur og Páll vilja heldur þurrka af og skúra en föndra eða prjóna sokka. Páll vitnar í biblíuna máli sínu til stuðnings.
2) Pétur hafði tekið inn sýru og þar með eyðilagt í einu vetfangi allar áætlanir um nám og fjölskyldulíf með Jóhönnu kærustu sinni og barni þeirra sem þá var ófætt. Hann er sprautaður niður þegar hann loks ber kennsl á kærustuna eftir heimsókn hennar og foreldra hans.
3) Pétur talar um indíána og telur sig hafa skrifað doktorsritgerð við Pekingháskóla um Schiller. Óli bítill hefur verið lengst félaganna á Kleppi, lifir og hrærist í Bítlunum og telur sig hafa samið flest lög þeirra. Viktor þekkir vel til Englands, talar um gríska harmleiki og sonnettur Shakespeares og bregður sér í gervi Adolfs (“Dolla”) Hitlers.
4) Eysteinn, sem er líkari sjúklingi en gæslumanni, fer með Pétri og Páli í bæjarferð. Viktor þurfti að skreppa í neðanjarðarbyrgið og Óli komst ekki vegna ökuferðarinnar í forsetabílnum.
5) Pétur og Páll fá Eystein með sér í HÍ að grennslast fyrir um doktorsritgerð Péturs. Þeir fá kurteislega afgreiðslu á skrifstofunni en háðsglósur frá kunningjum Eysteins, honum til lítillar ánægju.
6) Pétur kemur sér út úr húsi hjá foreldrum sínum og Jóhanna útilokar hann frá barninu. Honum líður eins og Gregor Samsa í Hamskiptunum eftir Kafka, hann ráfar um göturnar milli þess sem hann er settur á Klepp þar sem honum líður einna best.
7) Pétur stekkur út um gluggann á herbergi þeirra Páls og finnst rekinn þremur dögum síðar.
IX (179-200): Saga Viktors.
1) Viktor sat á bryggjunni fyrir vestan og beið föður síns sem fórst með trillu, hélt að hann lifði enn og hefðist við á eyðieyju. Einu sinni hoppaði hann framaf bryggjunni og leið inn í græna furðuveröld.
2) Viktor lærir rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík. Taugar hans gefa sig í verknáminu og hann fer í tækninám við enskan háskóla en leiðist yfir í bókmenntir. Hann hlustar á Shakespeareleikrit af plötum og í lyfjavímunni fer hann að finna fyrir persónum leikritanna og reyndar Adolf Hitler líka.
3) Viktor er fluttur í böndum til London eftir að hafa krafist þess fá að tala þýsku á munnlegu prófi, og síðan heim. Hann flytur á Gamla garð og fær lán í Samvinnubankanum en við athugun kemur í ljós að Adolf Hitler hefur kvittað fyrir. Lögreglan finnur Viktor í herbergi sínu á Garði í samræðum við Himmler.
4) Páll, Óli og Viktor ræða hvort þeir eigi að fara að jarðarför Péturs. Páll talar um engla alheimsins, Viktor um farandskugga. Páll vill fara að jarðarförinni, Viktor ekki en Óli kemur með málamiðlun.
5) Bjarmalandsför. Páll, Óli og Viktor fara á kvikmynd eftir Buñuel og síðan á Grillið á Hótel Sögu undir stjórn Viktors. Þegar kemur að því að borga fara þeir fram á að lögreglan verði sótt.
6) Lögreglan sækir þá á Sögu og Páll sér ekki betur en laganna verðir skemmti sér vel yfir uppátækinu.
7) Viktor ræðst á Lúðvík gæslumann við komuna á Klepp. Lúðvík krefst þess að Viktor verði sprautaður niður.
X (201-219): Öryrkjablokkin, illvirki Kidda og Sæma, og saga Ómars.
1) Páll lítur til baka þegar endalokin nálgast: “Ég gerði það á minn hátt.” (201)
2) Páll skrifar Rabba bróður sínum bréf þegar hann er fluttur inn í öryrkjablokkina. Hann lýsir giftingaráformum sínum, að hann sé hættur að mestu á lyfjunum, og nýr sannleikur blasi við honum um van Gogh og Gauguin.
3) Páll fer í Athvarfið í Austurstræti og síðan á hamborgarastað í strætisvagnaskýlinu á Lækjartorgi. Kiddi og Sæmi koma á eftir honum inn, éta matinn hans og ræna örorkubótunum.
4) Páll kemur heim í Öryrkjablokkina svangur og einmana. Hann hringir í Konráð þáttagerðarmann, segir honum hvað gerst hefur og fær óskalag: “My way”.
5) Páll minnist þess þegar hann lét föður sinn ná frímerkjunum af Ómari og strákarnir girtu niður um Pál í hefndarskyni og bundu hann við ljósastaur. Ómar byrjar snemma afbrotaferilinn, stelur hlutum á reiðhjólið sitt og peningum frá móður barnsins sem hann bjargar úr lokaðri íbúð. Seinna þegar leiðir Páls og Ómars liggja saman á gistiheimilinu finnur Páll að Ómar þjáist fyrir misgjörðir sínar og hlutskipti í lífinu. Nokkru síðar fylgir Páll Ómari heim eftir slagsmál á skemmtistað við Hlemm. Ómar vill ekki fara á Slysavarðstofuna og deyr þegar þeir eru nýkomnir heim. Stuttu síðar flytur Páll af gistiheimilinu.
XI (221-224): Páll yfirgefur þennan jarðneska heim.
1) Það er komið sumar þegar Páll yfirgefur þennan jarðneska heim: “Svo tek ég sæng mína og stekk.” (222)
2) Foreldrar Páls koma að sækja muni hans. Móðir hans opnar bók Sigfúsar Daðasonar og les orð hans um drauma. Sama dag sér hún ljósmyndina af Páli á stofuborðinu og man drauminn um hestana fjóra.
3) Páll kveðst ekki vera dáinn: hann siglir bláan sjóinn, og vitjar foreldra sinna. Upp úr dufti úlpunnar hans rís fugl sem flýgur burt og hverfur.