Laun starfsmanna eru samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Byrjunarlaun 25 ára slökkviliðs- og sjúkraflutninganema eru kr. 109.475(lfl. 117) að viðbættu vaktaálagi kr. 54.978 og þrekálagi kr. 6.631. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins leggur til 1,4% af heildarlaunum á móti 4% séreignarsparnaði starfsmanns. Desemberuppbót er að meðaltali kr. 4.423 á mánuði og orlofsuppbót að meðaltali kr. 833. Samtals eru því byrjunarlaun kr. 176.341 að meðaltali á mánuði . Uppbæturnar eru greiddar einu sinni á ári.
Starfsmaður sem lokið hefur neyðarbílsnámi (EMT-intermediate) eftir u.þ.b. 36 mánuði í starfi og er 30 ára er með kr. 217.358 í laun að meðaltali á mánuði og hefur hann þá lokið þeim námskeiðum sem klára þarf til að geta verið í flestum skráningum á vaktinni.
Í ofangreindum launatölum er innifalin greiðsla vegna þátttöku starfsmanns í sí - og endurmenntunaráætlun slökkviliðsins. Starfsmaður skilar þar allt að 52 tímum á ári í endurmenntun utan reglubundins vinnutíma.
Unnið er á tólf tíma löngum sólarhringsvöktum ýmist 4 eða 5 daga í senn með jafn löngum vaktafríum. Starfsmenn skila þannig að meðaltali 42 stunda vinnuviku og að meðaltali eru 15,2 vaktir í mánuði.
Launin sem nefnd eru að ofan eru án yfirvinnu. Ein 12 tíma aukavakt gefur 14,4 yfirvinnutíma. Yfirvinnutímakaup er 1% af mánaðarlaunum þannig að nýliði fær kr. 16.862 (orlofsgreiðsla innifalin) að auki fyrir hverja 12 tíma aukavakt miðað við ofangreindar forsendur. Starfsmaður með EMT-intermediate nám að baki fær kr. 23.705 fyrir hverja 12 tíma aukavakt. Í ár er gert ráð fyrir 30 tímum að meðaltali í yfirvinnu á mann á mánuði. Yfirvinna er breytileg frá ári til árs og stundum er um litla yfirvinnu að ræða.
Gerð er krafa um að slökkviliðsmenn standist þrekpróf á hverju ári. Af þeim sökum er þeim gert að stunda þá líkamsþjálfun sem nauðsynleg er til að geta sinnt starfinu. Til þess fá slökkviliðsmenn æfingakort í líkamsræktarstöðinni Hreyfingu, þeim að kostnaðarlausu.
Sumarleyfi er 192 tímar á ári að 30 ára aldri, 216 tímar að 40 ára aldri og 240 tímar eftir það. Vetrarleyfi er 88 tímar á ári.
Kjarasamning LSS og LS má nálgast á eftirfarandi slóð:
http://www.shs.is/bindata/documents/Kjarasamningur_LN_LSS_2001_00049.pdf/