Ég var mjög glöð þegar það stórskref kom að skák var viðurkennd sem íþrótt og sett hingað inn sem áhugamál. Núna tel ég að það sé komið að næstu heilaíþrótt, Bridge.

Bridge er talið eitt erfiðasta spil í heimi og krefst mikillar rökhugsunar enda þegar fólk er búið að spila reglulega í 2-3 ár þá er það orðið þeim eðlislægt að reikna út hvaða spil andstæðingarnir eru með á hendinni og undirbúa hvort spila eigi eða vera í vörn.

Sjálf hef ég spilað Bridge frá 11 ára aldri en fór ekki í atvinnumennsku fyrr en 15 ára. Því miður er meðalaldur atvinnuspilara of hár að mínu sem og mati Bridgefélags Íslands og margt hefur verið gert til að kynna þessa íþrótt fyrir ungu fólki. Núna er hægt að taka Bridge áfanga í sumum skólum og jafnvel í Hafnarfirði er byrjað að kenna Bridge í unglingadeildum grunnskóla til að auka færni þeirra í stærðfræði og rökfræði.

Helsta vandamál varðandi að ekki hefur verið mikil endurnýjun í þessari íþrótt er að það er ekki nóg að segja við manneskju mannganginn eins og í skák og leyfa honum svo að þreyfa sig áfram. Það tekur tíma að öðlast grunnskilning á þessu spili og hefur Bridgefélag Íslands um margra ára skeið haldið byrjenda- og framhaldsnámskeið til að kenna grunninn. Gallinn er sá að þessi námskeið eru dýr og fáir tilbúnir að borga svona mikið fyrir að kynnast íþrótt sem það kannski finnur sig ekki í.

Þess vegna tel ég að hér ætti að rísa upp Bridge áhugamál þar sem stjórnendur væru a.m.k. með eitt Meistarastig. Á bak við mig hef ég heimsmeistara og Evrópumeistara í Bridge sem vilja miðla þekkingu sinni áfram og fyrsta markmið áhugamálsins væri auðvitað að kenna grunninn að þessari íþrótt. Einnig veit ég að margir úr yngri deild Bridgefélags Reykjavíkur hafi margt fram að leggja.

Bridge er mun meira spilað en fólk telur, t.d. er Bridgefélag Reykjavíkur með keppni á hverju kvöldi, misþunga svo fólk geti fundið hvar það er statt sem atvinnuspilari. Á miðvikudögum er svo komið að yngri deild Bridgefélags Reykjavíkur og þangað geta allir komið sem hafa lært grunninn og eru undir 25 ára, því keppnisstjórinn er jafnframt leiðbeinandi og við sem erum lengra komin erum þarna líka til að miðla þekkingu okkar og veit ég til þess að ungt fólk hafi komið inn með einungis vitneskju um talningu á punktum og eftir árið komið með mjög gott kerfi og spilafærni þeirra margfaldast.

Því skrifa ég þessa grein með von um að fólk sjái að nú sé tímabært að koma hinni hugaíþróttinni inn, Bridge, því hún stuðlar að auknu minni, aukinni almennri skynsemi, bættri stærðfræðiþekkingu og er einfaldlega það skemmtilegt spil að þegar maður er orðinn fær þá getur maður ekki hætt að spila (mín reynsla sem og flestra atvinnuspilara).

Með Kveðju,
Abigel
Félagsmeistari í Bridge