Sambandslaust eftir þrjú ár?

Ef stjórnvöld gripa ekki til aðgerða gætu íslenskir netverjar verið sambandslausir við útlönd eftir þrjú ár. Landssíminn spáir í nýjan sæstreng.
“Vegna öryggissjónarmiða og þess að þörf fyrir bandbreidd á næstu árum kann að reynast stórlega vanmetin er mikilvægt að huga sem fyrst að valkostum við Cantat-3 strenginn og tryggja áframhaldandi vöxt í netsamskiptum með ákvörðun eins fljótt og auðið er. Að mati sérfræðinga er tíminn til að ákveða hvort ráðist verður í lagningu nýs kapals skammur og að líkindum verður að hefja framkvæmdir innan tveggja ára ef tekið er mið af aðstæðum,” sagði Halldór Kristjánsson, forstjóri Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar, m.a. í ræðu sem Sjálfstæðisflokkurinn efndi til í fyrrdag um fjarskiptamál. Yfirskrift ræðu Halldórs var “Sambandslaust Ísland 2003?”. Forstjóri Landssímans greip erindi Halldórs á lofti og upplýsti að Landssíminn væri að íhuga lagningu nýs sæstrengs. Stjórn Landssímans samþykkti svo í gær að láta fara fram botnrannsóknir á fyrirhuguðu legusvæði sæstrengs og láta gera viðskiptaáætlanir.

Netumferð eykst stöðugt
Halldór sagði að netumferð til útlanda hefði nærri tvöfaldast á ári síðustu árin og margt benti til að hún myndi aukast enn frekar. Umferðin væri í vaxandi mæli að skila auknum tekjum í þjóðarbúið og fá fyrirtæki gætu verið án tengingarinnar við útlönd. “Ekki þarf mikla viðbót við þá notkun sem nú er til þess að fullnýta þá flutningsgetu sem við eigum aðgang að í dag,” sagði Halldór og minnti hann á að spáð væri 2-3 földun bandbreiddarþarfar til útlanda á ári næstu þrjú árin. Aðeins einn sæstrengur liggur til landsins, Cantat 3. Heildarflutningsgeta hans er 2,5 gígabæti á sekúndu, eða 2.500 megabæti (Mbs). Strengurinn er í 7% eigu Landssímans. Halldór sagði að þar sem aðeins væri um einn streng að ræða væri öryggi gagnasambanda við Ísland mjög lítið.

[Heimild: visir.is og Dagur]