Ég skrifaði litla grein um Baxter hérna um daginn og einhver sýndi smá áhuga þannig að ég ákvað að senda inn viðtal við Carl í Baxter sem ég skrifaði fyrir Undirtóna í fyrra. Í þessu viðtali erum við nú samt að tala um Eclectic Bob sem er annað batterí hjá Baxterstrákunum. Here it goes:
Eclectic Bob er ein af uppáhaldshljómsveitunum mínum í dag. Á heimasíðu Eclectic Bob segir frá Bob sem er voða fínn gæji sem elskar endalausa tónlist. Þar segir frá fuglunum sem syngja bassalínu meðan Bob kannar hrjóstrugt landsvæði dals hinna ókunnugra takta. Bob leyfir sérstökum vinum að koma með sér í þetta land grúvsins. Tónlistina býr hann til af ástúð og natni undir norðurljósunum og á www.eclecticbob.com deilir hann minningum sínum með okkur.
Árið 1998 kom út platan Baxter með hljómsveitinni Baxter frá Svíþjóð. Ári seinna fann ég þessa plötu á útsölu í Japis á 199 krónur. Ég skellti mér á eintak, hlustaði, féll í stafi og fór svo niður í Japis og keypti alla Baxterdiskana sem voru eftir. Svo hef ég verið að gefa vinum og vandamönnum þessa frábæru plötu í afmælis- og jólagjafir. Mér finnst þessi plata semsagt góð. En nú eru liðin tvö ár síðan hún kom út og ég setti mig í samband við Carl Herlöfsson eina aðalsprautu bandsins og forvitnaðist um framhald.
“Við erum búin að vera að vinna að nýju plötunni með Baxter í næstum tvö ár en lentum í þessum klassísku vandræðum með útgáfufyrirtækið. Hérna í Svíþjóð gefum við út á okkar merki Primal music en fengum svo Maverick recording (sem Madonna á!!) til að gefa okkur út úti í heimi. Þeir gerðu allt með hangandi haus fyrir fyrstu plötuna en vildu svo allt í einu skipta sér af öllu þegar var komið að annarri plötu, þeir vildu fá hittara, einfaldan texta sem krakkarnir föttuðu…æ þú veist, allt þetta verðum-að-græða-stórfyrirtækja kjaftæði. Við hættum hjá Maverick (og það án þess að hitta Madonnu!) og ætlum bara að gefa út á okkar merki. En í millitíðinni höfum við Ricky (Tillblad, hin aðalsprautan) verið að bardúsa mikið undir öðru nafni Eclectic Bob.“
Primal music gefur einnig út Yoga sem kom hingað 1999 og hélt tvenna magnaða tónleika á Gauknum svo þið hafið einhverja hugmynd um bylgjulengd þessara kappa. Auðvitað tékkaði ég á heimasíðu Eclectic Bob og aftur féll ég í stafi. Á síðunni eru þeir með alla nýju plötuna á mp3. Platan sem ber skemmtilega nafnið Chokolate Garden á að koma út á næstu dögum og verður semsagt til í Japis í mars ef allt gengur sem skyldi. Þeir Carl og Ricky búa til stelpu “bor og bassa” eins og Kristín tilraunakokkur kallar það. Er það bara hún eða er drum´n´bass kallað bor og bassi almennt?? Allavega…grrrlie-drum-n-bass it is! (á góðri útlensku). Í Baxter eru strákarnir að vinna með gellu sem heitir Nina Ramsby (allar sænskar stelpur heita Nina), en á Chocolate Garden syngja fimm frábærir söngvarar.
“Söngvararnir á plötunni eru í rauninni fólk sem ég er búin að vera vinna með í allskonar verkefnum síðastliðin ár. Sofia sem syngur flest lögin (geðveik rödd….minnir bæði á Arethu Franklyn og Julie Cruise) var í hljómsveitinni Krom sem við gáfum út á Primal ´98. Herbie sem syngur eitt lag me Sofiu var með einhvern heimsfrægan smell fyrir nokkrum árum….”right type of mood” minnir mig að það hafi heitið. Daddy Boastin (eitt lag með Sofiu) er uppáhalds ragga artisti Svíþjóðar um þessar mundir og við erum með eitt reggískotið lag sem hann var fullkominn í. Scoob Rock er ungur strákur sem var að gefa út sína fyrstu plötu fyrir nokkrum mánuðum og hefur vakið mjög mikla athygli hérna. Svo er það hin gellan en það er Carmela Leierth. Hún syngur tvö lög (þar á meðal Station to station sem er að mínu mati besta lag plötunnar) og við fengum hana því hún er…uhm…hún er geðveikt beib.(Ef það er ekki nógu góð ástæða þá veit ég ekki hvað). Við Ricky búum bara til tónlistina og sá sem syngur lagið semur yfirleitt textana…það hefur komið vel út hingað til og við höldum okkur bara við það.”
Þegar Carl og Ricky eru ekki að búa til skemmtilega og hressandi en jafnframt melónkólíska rafmúsík þá eru þeir að vinna í grafík-vef-tölvu-geðveikt flóknu fyrirtæki sem heitir 24hr International. Þeir kynntust þegar þeir fóru að vinna sama í F+ sem var annað svona hönnunar-veflausna fyrirtæki sem Ricky átti. Baxter byrjaði einmitt þegar Nina fékk vinnu þar en núna er Nina að vinna þar á fullu og spila með hinum hljómsveitunum sínum, Grand Tone Music og Jim Bob meðan strákarnir leika sér með Eclectic Bob.
Allt er þetta undir sama hattinum og Primal er eiginlega orðin ein stór fjölskylda fyrir fallegt hæfileikafólk í Stokkhólmi. Þau hafa líka komið fram sem þessi fjölskylda og þá undir nafninu Primal Soundsystem og spiluðu meðal annars á Hróarskeldu ´99. Ekkert er ákveðið með næsta sumar….væri ekki tilvalið að fá þau á RMF eða verður það kannski ekki aftur?
Þar sem ég er alltaf innstillt á gömlu skólafélagabækurnar verð ég að hafa smá grúppíuspurningar.
Aldur?
“Ég er 38, (GAAAA! Alveg gamall!!!) Ricky er eitthvað yngri og Sofia er miklu yngri.”
Uppáhaldshljóðfæri?
“Gítarinn er alltaf í uppáhaldi hjá mér en ég held að Ricky haldi mest upp á tölvuna sína.”
Uppáhaldstónlistarmaður?
“Jan Johansson, The Gladiators, Chet Baker, Lee Perry, Squarepusher, Nightmares on wax, Little Feet, Lunatic (franskt hip hop), Outkast…spurðu mig svo aftur á morgun á þá kem ég örugglega með allt annað svar.”
Uppáhaldskvikmynd?
“Songs from the second floor (Sånger från andra våningen) eftir Swede Roy Andersson.”
Hver er frægasta manneskja sem þú hefur hitt??
“Hmmm…..frægð er svo etheral eitthvað….ég held að það sé Anthony Keidis. (Ha? Hver?) Úr Red Hot Chilli Peppers, hann er alveg frægur er það ekki? En ef þú varst að reyna spyrja án þess að spyrja hvort ég hafi hitt Madonnu þá er svarið nei. Og mér er alveg sama….merkið hennar er ömurlegt…(bíddu..sagðist hann ekki vera 38 ára??) Ert þú fræg? Ef þú værir fræg væri ég kannski alveg til í að hitta þig.” (Hels, ans djös….ég vildi að ég væri fræg!)
Þegar þeir eru spurðir hvernig tónlist þeir spila kemur telja þeir yfirleitt upp eiginlega allar tónlistarstefnur sem eru til en eru að reyna að takmarka skilgreininguna. “Þetta er blanda úr svo rosalega mörgum áttum. Ég er með sérstaklega (diverse) bakgrunn og er búin að vinna með ofsalega ólíku fólki við að spila og búa til ofsalega ólíka tónlist. Við reynum yfirleitt að hafa opinn huga og leyfum öllu mögulegu að gerast inni í stúdíóinu. Aðalhráefnin í samsuðu okkar myndu samt vera dub, bor og bassi, hipp hopp, djass og reggí…..en maður veit aldrei einhvern veginn….þetta er allt voða….eclectic…”(bíddu…hvað þýðir eclectic eiginlega?!)
Hver er munurinn á því að vinna tónlistina fyrir Eclectic Bob og Baxter?
“Eclectic Bob hefur aðeins léttara yfirbragð, við leikum okkur kannski meira með Bob á meðan við einbeitum okkur og vöndum okkur kannski meira við Baxter. Það er smá munur á vinnubrögðunum og víbrinu í kringum vinnuna. Bæði ferlin hafa vissan sjarma….en grunnhugmyndin er samt alltaf sú sama. Það er kannski hægt að segja að Baxter sé innblástur Ecelctic Bob og öfugt.”
Þar sem Carl og Ricky hafa verið að klára báðar plöturnar sínar hefur ekki gefist mikill tími til tónleikahalds í vetur en aðspurðir segjast þeir vera vel til í að koma hingað. Svo varð maður náttúrulega að tjékka á hvort þeir þekktu einhver íslensk bönd…fyrir utan Björk að sjálfsögðu og Carl sagðist eiga demó með Silt (Botnleðju) og svo væru þeir með nokkrar spólur sem Eldar sem er bransagæi Íslands númer 1 hafði komið til þeirra þegar þeir voru að setja saman Monolithic Minds III. Carl hrósaði íslenskri drum&basstónlist hásterkt og sagði líka að Botleðja væri kúl. Farið á www.eclecticbob.com og www.primal.se og sjáið hvað primalfjölskyldan hefur upp á að bjóða, svo er bara að skella sér á Chocolat Garden þegar hún kemur út hvenær sem það verður.