Merkilegt hvað þetta mál hans Árna virðist hafa vakið upp áhugaverða umræðu um hið svonefnda “lýðræði” sem ku vera það stjórnarfar sem ríkir hér á landi. Svo virðist sem flestir hér séu sammála um að spilling sé algeng meðal íslenskra stjórnmálamann og ekki nóg með það, sumum finnst þetta bara vera orðinn hluti af kerfinu og ekkert tiltökumál!
Í þessu samhengi tel ég að fróðlegt væri að pæla aðeins í því hvaða merkingu lýðræði hefur hugmyndafræðilega í samanburði við raunveruleikann.
Í sinni einföldustu mynd er munurinn á lýðræði og öðrum stjórnkerfum fyrst of fremst sá að fólkið sjálft “ræður” hverjir fara með völd. Kjósendur fá tækifæri á að beita þessu valdi sínu með reglulegu millibili með því að veita pólitískum fulltrúum atkvæði sitt í almennum kosningum. Þetta er allt gott og blessað í teóríunni en ekki eins einfallt og fallegt í framkvæmd. Tökum Árna Johnsen sem dæmi: maðurinn fór inn á þing sem 1. maður suðurlands kjördæmis eftir síðustu kosningar sem 1. maður á lista Sjálfstæðisflokks, þýðir það að hann persónulega hafi fengið fleiri atkvæði en sá sem síðastur komst inn, ó nei. Ef Keikó væri settur í 1. sæti sjálfstæðismanna á suðurlandi myndi hann fljúga inn sem 1. þingmaður sunnlendinga, allir þeir sem greiða D-listanum atkvæði sitt eru nefnilega í raun aðeins að veita efstu mönnum á þeim lista brautargengi, hverjir það eru sem hreppa þau sæti er hins vegar alfarið mál flokksins. Það eina sem kjósandi getur gert er að strika út þau nöfn sem hann er ósáttur með, en sem fyrr er það flokksins að ákvaða hvort mark er á slíku tekið…þekki ég ekki til þess að slíkt hafi gerst.
Er hægt að kalla þetta “lýðræði”? Í þessu sambandi má geta þess að Sovétríkin sálugu voru, eins og Ísland, “lýðveldi” (sb. USSR: union of Soviet Socialist Republics). Þar voru kosningar haldnar reglulega þar sem yfirleitt var 99,9% þátttaka og kommúnistaflokkurinn fékk 95% atkvæða (óvinir ríkissins og auðir og ógildir voru alltaf til staðar). Kína er enn þann dag í dag “lýðveldi fólksins” (People's Republic of China), en að vísu eru embættismenn þar víst skotnir í hausinn ef upp kemst um spillingu (ekki mjög lýðræðislegt??).
Spurningin er sem sé: Hvað er lýðræði??? Þar sem það er nokkuð ljóst að hugtakið sjálft hefur afar takmarkaða merkingu, kannski þarf að finna fleiri nöfn yfir þetta?
Og svona rétt í lokinn, uppáhalds “lýðræðisríkið” mitt (fyrir utan Ísland auðvitað). Þar eru haldnar lýðræðislegar kosningar reglulega, þar er þing og þar eru margar skemmtilegar nefndir. “Forsætisráðherrann” er miðaldara maður með skemmtilega hárgreiðslu (þykkt, dökksvart, þó í seinni tíð hvítsprengt, krullað hár) og ætið með sólgleraugu, sá er jafnan bæði elskaðasti og hataðsti maður þjóarinnar. Þar hefur sami flokkurinn verið við völd svo lengi að fáir muna hver var síðasti forsætisráðherra á undan þeim sem nú situr..
Lýðræðiskveðjur
Lex