Þar sem notendur huga eru mestmegnis harðkjarna estrógen boltar fannst mér tilvalið að troða inn einni grein um hvað það er “æðislegt” að vera kona. Ég verð nú að játa það að ég ætlaði að skrifa þvílíka jafnréttisgrein og dýfa mér í baráttuna í einu og öllu því ég er svo rosalega mikil kona. En hugsaði svo málið- og ákvað að taka annan pól í hæðina og skrifa um konur frekar út frá sokkaböndunum en rauðsokkunum. Ég hef alltaf verið hrifin af hugmyndinni um kvenleika, líf í lífi og goðsögninni um móður jörð og hef kannski út af því kallað mig hálfgerðan feminista. Nei, annars- ég er enginn feministi….ég hrífst bara af feminisma. Ég hef lengi látið fara í taugarnar á mér feministana sem eru rosa stoltir af loðnu löppunum sínum og brúskunum í handakrikunum, skil ekki mótþróann í að láta líkamshárin vaxa villt, mér finnst það einfaldlega subbulegt. En það er ekki viðfangsefni þessarar greinar, mig langar einfaldlega aðeins að blaðra um konur og menn, trú og Eimskip og þar fram eftir götunum.
Í Biblíunni segir að Guð hafi skapað manninn og tekið úr honum eitt rifbein og búið til konuna. Í bókinni “Womens Encyclopedia of Myths and Secrets” kemur samt fram að karlar hafi verið að reyna að fæða börn án kvenna í hundruðir ára en það tókst aldrei. Til að fæða börn þurftu þeir annað hvort að borða hjarta úr konu eða drepa konuna og gleypa fóstrið og voru börnin síðan fædd út um munnin. Síðan var einn gæi sem hét Zeus, (æðsti gríski guðinn) hann fæddi barn úr lærinu á sér en fyrst þurfti hann að drepa mömmuna, skera fóstrið burt og sauma það inn í lærið á sér. Þessir karlar hljóta að hafa orðið svolítið pirraðir að geta ekki gert allt einir og óstuddir, karlmenn geta ekki lifað án kvenna. Við einar getum borið með okkur líf. Kristin trú hefur samt sem áður frá fyrsta degi sett konuna á lægri stall en manninn. Í Biblíunni kemur hver dæmisagan á fætur annarri þar sem strangar reglur eru viðhafðar um hvernig konan á að vera auðmjúk, undirgefin og virða mann sinn og þjóna. Biblían er skrifuð af mönnum fyrir menn. Kvenfyrirlitningin sem kemur fram í þessari bók er alveg með eindæmum, konur voru grýttar fyrir að sofa hjá fyrir brúðkaup og skipti þá engu máli hvort henni hefði verið nauðgað eða hvað, hún var óhrein og skyldi grýtt til dauða við húsdyr föður hennar!! En ef eiginmaðurinn skyldi ljúga um óhreinleik hennar, skyldi hann fá sekt og ganga að eiga konuna og mætti aldrei skilja við hana. Er það nú refsing!!!
Vegna nýrra tíma er okkar kynslóð kannski frekar farin að trúa á sjálfa sig, trúa því að vinnan göfgi manninn og að maður uppskeri eins og maður sáir. Konur þyrftu kannski frekar að tileinka sér þá trú en að vera litaðar af kynjamisrétti kristinnar trúar. Málið er bara að við höfum alist upp við þessa trú og það er erfitt að brjóta af sér hlekkina. Ég vil taka það fram að þetta er einungis álit mitt og þar sem ég er svo ung og hef ekki lent í neinum erfiðleikum í lífinu, er ég kannski ekki fær um að meta gildi trúarinnar sem ég játaðist við fermingu. Mér var sagt að margir fara ekki almennilega að trúa á Guð fyrr en Hann hefur fengið tækifæri til að hjálpa. En við vorum að tala um konuna og mig langar að segja ykkur frá öðrum trúarbrögðum sem upphefja konuna og gefa henni annað og betra líf.

Blóðið
Í mörgum trúarbrögðum hefur konan verið talin æðri en karlmaðurinn og nær Guði vegna þess að þær geyma “brunn eilífrar æsku” sem er náttúrulega hið heilaga blóð sem fellur við hvern fullan mána. Meðal Ashanti manna eru stúlkubörn meira metin en drengir vegna þess að þær geyma “blóðið”. Jafnvel kristnir menn héldu því fram að altarisvínið væri tíðablóð en þessi hópur sem um ræðir, “Ophite Christians”, var ekki beint eins og við erum flest í dag. Við athöfn sem nefndist “Agape” eða “Ástarveislan” skildust að eiginkonur og menn og ein allsherjarorgía byrjaði, orgíunni lauk svo með því að sæðið úr manninum var étið sem “líkami krists” og þegar tunglið var fullt (og allar gellurnar á túr) var tíðablóðið einnig drukkið sem “blóð krists”. Í mörgum trúarbrögðum var algengt að tíðablóð skyldi drukkið til að öðlast visku. Hindúar trúðu því að heimurinn hafi byrjað á “Fljóti lífsins” sem þykknaði og myndaði utan um sig skorpu sem varð að jörðinni og þess vegna köllum við náttúruna Móður Jörð, hún fæddi af sér umheiminn út frá tíðablóði sínu. Kóraninn segir að Allah sé “maður gerður úr flæðandi blóði” en í pre-islamískrí Arabíu var Allah Sköpunargyðjan. Frá henni rann hið mikla fljót einu sinni í mánuði og konungar og mikilsmetnir menn fengu að baða sig í þessu fljóti sem hafði heilunarmátt og oft varð þetta kallað “Viskublóðið” því allir urðu svo gáfaðir og hreinir eftir að hafa baðað sig í tíðablóði Allah. Enn eimir af þessari hefð, rauði dregillinn sem fræga fólkið gengur eftir á Óskarsverðlaunahátíðinni, er tákn hins mikla fljóts sem aðeins konungar og vitrustu mennirnir fengu að baða sig í. Þannig að næst þegar þið horfið á Óskarinn eru allar stjörnurnar að labba á túrblóði!!!

Baráttan
Mér finnst konan dýrðleg, ég veit að konan er hæfari í mörg karlastörf vegna þess eins að hún er kona en er alfarið á móti þessari jákvæðu mismunun sem skaut upp kollinum um árið. Það var að ef kona og karl eru jafn hæf í eitthvert starf skyldi konan vera ráðin. Ef tveir aðilar eru alveg jafn hæfir er þá ekki bara best að draga um hver fær starfið. Það er réttlæti. Þegar ég byrjaði að pæla í þessari “jafnréttisgrein” ákvað ég að hringja í stærstu fyrirtækin á landinu og sjá hve margar konur væru í stjórnunarstöðum til að sanna það að við hefðum það bara gott. En allar konurnar sem ég talaði við voru mér algjörlega ósammála um að við værum í góðum málum og virkuðu á mig eins og þær hefðu þurft að berjast með kjafti og klóm til að komast þangað sem þær eru í dag. Það er staðreynd að konur þurfa að hafa meira fyrir því að komast á toppinn en karlar og tel ég að það muni samt breytast með næstu kynslóðum. Það er ótrúlegt hve samhugurinn er sterkur hjá karlmönnum, þeir eru ekkert vondir, þeir treysta bara konum ekki eins vel og körlum fyrir starfinu sem þeir gegna. Á meðan treysta konur í stjórnunarstöðum yfirleitt hæfasta umsækjanda, hvort sem það er karl eða kona. Eimskip fékk viðurkenningu Jafnréttisráðs í fyrra fyrir að hafa 8 konur í stjórnunarstöðum en auðvitað á það að vera sjálfsagt að hafa helming stjórnunarstaða í höndum kvenna. Við þurfum bara að sjá hvað í okkur býr og hætta að hlusta á gamlar raddir sem segja okkur að vera undirgefnar og sætar. Konur hafa yfirleitt miklu breiðari sýn á það sem er að gerast í kringum okkur og var mér bent á viðskiptablöðin tvö sem eru gefin út hérna. Viðskiptablaði Morgunblaðsins er ritstýrt af konu en Viðskiptablaðinu er ritstýrt af manni. Það er ótrúlegur munur á þessum tveimur blöðum, hið fyrrnefnda er með mun almennri og yfirgripsmeiri umfjöllun um markaðinn í heild en Viðskiptablaðið fjallar eiginlega bara um karlmennina í bransanum. Konur eru ekki nógu duglegar við að ota sínum tota, þær eru ekki nógu aggressívar, en þar komum við einfaldlega að genum, hormónum og mismun kynjanna.

Hormónar
Það varð smá vakning í þjóðfélaginu þegar leikritið Hellisbúinn sló í gegn en það fjallaði einmitt um muninn á kynjunum. Þar voru þvílík sannindi á ferð og þetta leikrit ætti eiginlega bara að sýna einu sinni á ári til að minna fólk á að menn verða ekki eins og konur vilja og öfugt. Rannsóknir sýna að karlmenn hugsa um eitt í einu, afgreiða eina hindrun áður en sú næsta er skoðuð á meðan konurnar tékka á öllum tíu hindrununum og skoða svo hvar best sé að byrja. Kannski þetta sé ástæðan fyrir því að karlmenn setja allan sinn kraft í hindrunina, aftur og aftur og koma svo dauðþreyttir heim og hafa ekki orku í neitt nema að ýta á takka fjarstýringarinnar. Konurnar hins vegar spara sig fyrir það erfiðasta þannig að þær eiga alltaf einhverja orku eftir sem þær nota svo í að búa til matinn, vaska upp, þvo og strauja fyrir næsta dag og fara út með ruslið. Svo eru karlmenn að halda því fram að við séum veikara kynið, endemis bull og vitleysa. Við erum ólík og eigum að njóta þess að vera ólík! Mér finnst alveg fínt að fíla engan veginn formúluna og Quake 3 og það fer ekkert í taugarnar á mér þegar strákavinir mínir nenna ekki að vera memm yfir Ally McBeal. Það er til fullt að konum sem fíla formúluna og það gerir þær ekkert ókvenlegar, þær hafa bara aðeins annað áhugasvið. Margir feministar vilja brjóta upp þessar hefðir og stereótýpur en af hverju verður klisja klisja? Góð vísa er aldrei of oft kveðin og það geta ekki allir verið allt öðruvísi en hinir. Ég hef samt tekið eftir meiri umburðalyndi í þjóðfélaginu og við erum að fatta að við konur getum verið fallegar án þess að vera aðeins 13 kíló, fegurðin er andleg. Aftur vil ég taka það fram að þetta er einungis brotabrot af öllum mínum pælingum um konur og menn, trúarbrögð og Eimskip og vona ég að grein þessi fari ekki fyrir brjóstið á viðkvæmum sálum sem ekki hafa sömu skoðanir.
En talandi um konur og stereótýpur, auðvitað erum við öll sérstök í augum Guðs og tölur sýna að konur virka einfaldlega betur í þvottavélaauglýsingum og karlar virka betur í…..hmmm? Konur virka eiginlega betur í öllum auglýsingum!! Virka konur ekki bara betur á flestum sviðum? Ég held að við séum löngu búnar að fatta að við höndlum flesta hluti betur en karlarnir, þeir þurfa bara lengri tíma til að átta sig á hvað er í gangi. Þeir eru enn á þriðju hindruninni. Ekki það að ég sé neinn feministi.