Laugardaginn 12.ágúst var haldin í fyrsta skipti Gaypride ganga á Íslandi. Um 9000 manns gengu sem leið lá frá Hlemmi og niður á Ingólfstorg þar sem samkynhneigðir, vinir og vandamenn gerðu sér glaðan dag. Gaypride gangan er eins sú lengsta sem sést hefur, þegar þeir fyrstu voru komnir niður á Ingólfstorg voru þeir öftustu ennþá að tínast af Laugarveginum yfir á Bankastræti, svo löng var hún. Gleði og litadýrð var það sem einkenndi gönguna. Fólk dansaði í takt við diskótónlist, dillaði sér við bongótrommuslátt eða söng hástöfum hina ýmsu slagara og Regnbogafána samkynhneigðra var flaggað um borgina. Gönguna leiddi hinn eini sanni Venus, klæddur í hvítan kjól og hvert atriðið leiddi síðan af öðru. Hestvagn með fjallkarli og konu og fylgdarsveinum þeirra, Rósa á Spotlight og vinkona voru dregnar áfram á brúðkaupstertu, pallbíll með leðurhommum í anda The Village People, eldgleypir, blöðruormur í regnbogalitunum svo eitthvað sé nefnt. Aftarlega í göngunni kom síðan bíll með kerru í eftirdragi og uppá henni voru þrír skápar og skápavörður sem kallaði yfir allt “Skápar eru fyrir föt, ekki fólk”
Boðið var uppá ýmis skemmtiatriði á Ingólfstorgi. Fjallkonan og karlinn stigu á svið og fóru með brag sem m.a. fjallaði um Íslands fornuhetjur og kynhneigð þeirra. Felix og Gunni sáu um að skemmta börnunum, Andrea Gylfa söng og margt margt fleira. Senuþjófur dagsins var samt Páll Óskar Hjálmtýrsson, sem steig á svið í níðþröngum, kolsvörtum latexgalla. Allt ætlaði um koll að keyra og það er sjaldan sem maður sér 18.000 hendur á lofti sem klappa í takt við tónlistina um miðjan dag á Ingólfstorgi.