OK, nú er komið nóg af stigahórum á Huga.

Ég hef ekki alveg komist til botns í því hvaða tilgangi þessi blessuðu stig þjóna. Það eina sem ég hef heyrt er að þeir sem voru komnir með meira en 1000 stig einhverntíma hafi fengið geisladisk, en ég veit samt ekki hvort það er rétt. Svo er önnur skýring á þessum stigum og hún er sú að skapa einhverja keppni, fá fólk til að skrifa greinar, senda inn myndir og skoðanakannanir og taka þátt í umræðum. Ef einhver veit um frekari tilgang þessara stiga þá má hann endilega tjá sig.

Þrátt fyrir að ekki sé alveg ljós tilgangur stiganna, þá eru margir sem misnota Huga. T.d. var núna einn að eyðileggja margar greinar með því að svara þeim mörghundruð sinnum með einhverju rugli. Þessi einhver kallar sig “jessi” og hefur greinilega ekki mikinn þroska. Það er líka algengt að sjá sem svar við greinum “ég er bara að safna stigum” eða “ég vil fá stig”…eða þá að menn svara með einhverju rugli sem kemur efni greinarinnar ekkert við.

En mig langar að vita hvort ekki sé hægt að gera eitthvað við þessu. Þetta skemmir fyrir okkur hinum sem erum hérna til að tala um það sem við höfum áhuga á og finnst skipta máli. Er ekki hægt að banna fólk eða reyna að hafa eitthvað eftirlit með þessu.

Með von um að fólk fari aðeins að þroskast
Xenia