Tie-Off Tounge-Split

Að kljúfa tungu er yfirleitt framkvæmt með einni af þremur eftirtöldum aðferðum: Laser-skurði þar sem hún er brennd sundur með geisla, Skurði, þar sem hún einfaldlega er skorin í sundur og Bindingu, þar sem girni er þrætt í gegnum tungulokksgat og hert þar til tungan deilist.

Við Laser aðferðina er viðkomandi yfirleitt svæfður undir aðgerðina. Geislinn brennir tunguna sundur og sárið saman aftur samtíma, sem skilur eftir mjög slétta og mjúka innri barma á tungunni eftir aðgerð.
Með skurði er viðkomandi oft deyfður ef gerandinn hefur leyfi til þess, tungan skorin með skurðarhníf og innri barmarnir saumaðir eða brenndir saman. Tungubroddarnir verða yfirleitt mjög oddhvassir við þessa aðferð og innri barmar tungunnar verða stundum hrjúfir.
Við bindingu er byrjað á að setja pinna í tunguna og gatið látið gróa nokkrar vikur. Enn betra er að stækka gatið upp í 3-4mm áður en hafist er við að binda, þannig líkurnar á að innsti hlutinn grói saman aftur minnki.
Þegar þar er náð er girni þrætt inn um tungugatið og bundið utan um tungubroddinn. Bindingin er svo endurtekin 1-2 á dag þar til tungan klofnar.

Ég vill hér deila með ykkur minni upplifun við að hafa deilt tungunni sjálfur með bindingu.

Eftir að hafa fengið piercingu í tunguna og hún gróin, fullvissaði ég mig um að hún sæti fullkomnlega í miðjunni, því tungan samanstendur af 2 vöðvum sem er haldið saman af himnu í miðjunni, og það getur haft alvarlegar afleiðingar ef maður sker út fyrir himnunni.
Með tilhlökkunarfiðring í maganum byrjaði ég á að safna saman áhöldunum:
Plastnálum, eins og notaðar eru til að þræða tannþráð inn undir spangir.
Veiðigirni, og þar valdi ég að nota 0.3mm breitt, en það fer mjög mismunandi sögum af því hvort sé betra að hafa þunnt eða þykkt.
Plokkara og eyrnapinna til að hreinsa.
Skæri, eyrnapinna, munnskol og íbúprófen.

Þá var stóra stundin runninn upp, tók lokkinn úr, þræddi girni í nálina og þjösnaðist svo á gatinu við að koma nálinni í gegn. Það hafðist með herkjum og girnið var þrætt utan um tungubroddinn, hert vel að og hnýtt. Setti lokkinn aftur í og rembdist við að halda aftur af slefi næstu 2 mínútur.
Þetta var tvímælalaust sársaukafyllsti sólarhringurinn í þessu ferli, þar sem tungan var orðin helaum eftir að hafa troðið nálinni í gegn ásamt því að girnið hægt og rólega sprengdi sig í gegnum ysta húðlagið allan hringinn sem það var vafið utan um.
Næstu dagar og vikur urðu svo endurtekning á sama ferlinu:
Vakna, bursta tennur og tungu. Hreinsa allt gums upp úr skurðinum með plokkara og eyrnapinnum, klippa girnið í burtu og þræða nýtt í og lokið af með munnskoli.
Í upphafi skipti ég 1 sinni á dag en fór fljótt yfir í tvisvar, morgna og kvölds, auk þess að hreinsa eftir hverja máltíð, sígarettu, kaffibolla os.frv.
Það langskemmtilegasta af þessu var að plokka gumsið. Tungan reynir jú í sífellu að endurnýja himnuna í sárinu, þanni nýr húðvefur myndast alveg stanslaust allt ferlið í gegn. En í hvert sinn sem maður hífur feita, hvíta gumsklessu upp úr sárinu sér maður líka að sárið er dýpra, skurðurinn náður lengra, en seinast þegar maður hreinsaði.

Það tók ca. 2 daga áður en ég fór að sjá opið sár í tungunni, og 3 áður en það var náð allan hringinn. Neðri hlið tungunnar var seinasta svæðið til að bresta. Fyrstu vikuna sá ég einmitt mesta árangurinn fremst og aftast á tungunni, tungulokkurinn silaðist nær tungubroddinum sem hægt og rólega tvístraðist. En að viku liðinni gerðist ekki mikið meira á broddi og aftast, heldur fóru efri og neðri girnin að étast inn í tunguna á ógnarhraða.
Hér byrjaði ég að finna fyrir alveg stórkostlegri árangurstilfinningu, en á sama tíma meiri óþægindum, því nú var girnið komið inn í tunguna, og því þurfti ég í sífellu að hífa girnið upp svo tungan gréri ekki yfir það.
Það kom fyrir einu sinni, lenti í 14 tíma vinnudegi þar sem ég ekkert gat sinnt tungunni allan daginn. Þegar heim kom þurfti ég að rífa girnið upp í gegnum vef sem var gróinn yfir, og það var fucking vont. Miklu verra en bara að rista með rakvélablaði, þannig ég lagði mikla áherslu á að passa að þetta gerðist ekki aftur.

Þegar 2 vikur voru liðnar af ferlinu var ég orðin mjög bjartsýnn á að þessu yrði lokið fljótlega því skurðurinn jókst svo hratt, en allt í einu var eins og ekkert gerðist í marga daga, svo sá ég allt í einu smá árangur, svo ekkert aftur í nokkra daga.
Meðaltími hjá þeim sem ég hef lesið um sem hafa gert þetta hefur verið um 21 dagur, og fram að 14. degi var ég handviss um að ná undir því, en á 21. degi var skurðurinn eingöngu 1mm dýpri en á 14. Ég fór að skipta oftar, herða meira, en ekkert gerðist.
Svo allt í einu þá hjó girnið sig lengra inn á neðri hliðinni, og þá fór allt af stað og á 28. degi hékk tungan saman á bláþræði í miðjunni.

Hér var hún líka byrjuð að gróa örlítið saman aftast, en ég hreinsaði eins oft og ég gat þaðan og hreyfði tungulokkinn í sífellu aftur til að halda aftur af því.

Á 30. degi breyttist líf mitt svo til batnaðar. Skipti um girni eftir vinnu, og þegar ég herti þá klippti girnið restina af himnunni burt og tungubroddarnir gátu leikið lausum hala frjálsir frá höftum hliðarmannsins.
Stórkostleg tilfinning, og ég stóð með Sólheimaglott út að eyrum, ullandi og hringsólandi tungubroddunum fyrir framan spegilinn næstu klukkutímana.

En öllu var ekki lokið enn.
Næstu vikuna svaf ég með tungulokkinn uppí mér, haldandi honum aftast inni í skurðinum. Hreinsaði oftar heldur en á meðan ég var að þessu og gerði allt í mínu valdi til að halda aftur af samgróningi, en allt fyrir ekkert.
Heilir 6mm náðu að gróa saman, jókst hægt og rólega fyrstu 4 vikurnar og hefur svo ekkert aukist síðan.

Er nú samt himinlifandi, skurðurinn er góður og langur, er þó búinn að ákveða að lengja hann fljótlega, og er orðin ansi leikinn í að stýra þessum kvikindum.
Ég fæ heldur aldrei leið á að rúlla broddunum utan um hvorn annan og geifla þeim sundur inni í lokuðum munninum, dunda mér við þetta allan daginn meðan ég ekki tala eða borða.

Og varðandi virkni tungu, þá finn ég bragð ennþá, og jafnvel betur en áður. Ég get sagt alla bókstafi og hljóð nákvæmlega eins og áður, það er skemmtilegra að borða íspinna og sleikjóa en áður og auðvitað finnst mér miklu betra og skemmtilegra að kyssa og munngæla heldur en áður.

Í alla staði hæstánægður með þetta, og skil eiginlega ekki hvað náttúran var að pæla með því að þróa þessa himnu í tunguna, ég álít það allavega feil-þróun og er feginn að hafa slitið mig frá henni.

Takk fyrir kommentin og að hafa fylgst með, vona að þetta hafi verið fræðandi og skemmtilegt.
Að lokum vill ég bara rétt bæta við að mod og stærri aðgerðir á líkamanum ætti ekki að ráðast út í án þess að ráðfæra sig við fagfólk sem vinnur við að gera svona hluti, og þrátt fyrir það skal fólk samt gera sér grein fyrir mögulegum afleiðingum. Einnig er erfitt og í mörgum tilfellum ómögulegt að hætta við mod ef það er búið að gera það. Piercingu er hægt að taka úr, laserfjarlægja tattoo og svoleiðis, en mods skilja yfirleitt eftir sig meiri ummerki.

Baráttukveðjur
Nathan