Í Suðaustur-Asíu er rík hefð fyrir húðflúrum eins og á svo mörgum öðrum stöðum. Þau eru þó ekki gerð í fegurðarskyni eins og hér á Vesturlöndunum, heldur hafa þau sterka trúarlega og andlega þýðingu fyrir þann sem ber þau. Talið er að hefðin fyrir þessari gerð húðflúra, sem kallast sak yant, hafi byrjað á 9. öld.
Sak yant eru venjulega helgur texti, geometrísk form, mynd af dýri (t.d. tígrisdýri) eða blanda af þessu þrennu og eru mjög vinsæl meðal hermanna í t.d. Kambódíu. Þeir trúa því að ef þeir bera sak yant geti ekkert skaðað þá og það geti verndað þá gegn byssukúlum og jafnvel handsprengjum. Hvert sak yant er sérsniðið að einstaklingnum, bæði persónuleika hans og hverskonar vernd hann óskar eftir.
Sá sem vill fá sér sak yant sér til verndar byrjar á því að leita til munksins sem hann vill að framkvæmi það, munkurinn fer yfir “umsóknina” og metur hvort maðurinn sé verðugur þess að bera helgan texta eða mynd á líkama sínum. Ef munkurinn samþykkir fer einstaklingurinn heim og má ekki tala neitt næstu þrjá dagana. Að þessum þremur dögum liðnum fer hann aftur til munksins sem mylur þá blekstaut og blandar saman við vatn, olíu og í sumum tilfellum, slöngublóði og/eða slöngueitri, meðan hann sýður tæplega 50 sm nál í heitu vatni. Þegar blekið er orðið nægilega þykkt og nálin hefur soðið í dálitla stund, tekur hann nálina og núir sítrónusafa yfir hana, dýfir henni í blekið og byrjar að handpikka húðflúrið á einstaklinginn meðan hann þylur bænir í sífellu. Þegar húðflúrið er tilbúið þarf munkurinn svo að blessa það til þess að virkja mátt þess. Þetta gerir hann með því að kveikja á reykelsi, brenna krónublöð blóma og blása á nýja húðflúrið.
Til þess að máttur flúrsins haldist þarf sá sem ber það að vera “hreinn” í hugsun og hegðun og lúta þeim reglum sem munkurinn setur honum. Þær reglur sem þarf að lúta eru misjafnar milli munka en hér eru örfá dæmi:
- Bannað er að sofa hjá einhverjum sem er giftur öðrum.
- Bannað er að borða stjörnuávöxt og/eða grasker.
- Bannað er að tala illa um móður einhvers (s.s. flestar konur).
- Bannað er að borða afganga.
- Bannað er að ganga undir þvottasnúru eða undir hús (í Kambódíu eru flest hefðbundin hús á stultum).
- Bannað er að leyfa konu að leggjast ofan á sig eða setjast á sig.
Frægasta tattoo-klaustur Thailands er Wat Bang Phra þar sem munkarnir sérhæfa sig í að flúra sak yant til verndar gegn illum öndum, óheppni eða líkamlegum skaða. Þeir sjá einnig um að blessa og endurvirkja mátt gamalla sak yant flúra. Einu sinni á ári, í mars, er svo haldin húðflúr hátíð í Wat Bang Phra. Thailendingar trúa því að þau sak yant sem eru gerð á þeim degi hafi meiri mátt en önnur.
Húðflúrhátíðin hefst í dögun þegar fólk byrjar að safnast saman fyrir utan klaustrið, bæði þeir sem ætla að fá sér flúr og þeir sem ætla að endurvekja mátt gamalla flúra. Thailendingar trúa því að við þetta tækifæri geti það dýr sem þeir eru með húðflúrað á sig tekið yfir líkama sinn. Áður en athöfnin byrjar ríkir því oft mikil ringulreið fyrir utan klaustrið þar sem hermenn, munkar og fólk að bíða eftir flúri reynir að hafa hemil á öðrum sem telja sig vera andsetna af tígrisdýrum, slöngum, eðlum, fiskum o.fl. svo eitthvað sé nefnt. Þegar klukkan er orðin rúmlega tíu stígur ábótinn (eða yfir-munkurinn) á svið og heldur stutta ræðu, því næst blessa lærisveinar hans fjöldann með því að úða á þá vatni. Það sem eftir er dagsins situr fólk og bíður fyrir framan ýmsar byggingar klaustursins, eftir að röðin komi að þeim hjá munknum sem sérhæfir sig í að veita þá vernd sem það er að sækjast eftir.
Ef einhverjum langar að fara til Wat Bang Phra og fá sér sak yant hjá munkunum þar, þá mæli ég eindregið gegn því þar sem bæði blekið sem þeir nota er vægast sagt mjög vafasamt og þar að auki þá sótthreinsa þeir ekki nálarnar sínar milli húðflúra. Ég er samt ekki að segja að það geti ekki verið allt í lagi að fá sér flúr í þessum heimshluta, bara passa að fyllsta hreinlætis sé gætt.
Þeir sem vilja lesa meira um sak yant og húðflúrmenningu Suðaustur-Asíu bendi ég á google.com 