Backpiece Jæja, þá er ég búin að fara í fyrsta session hjá honum JP. Ég pantaði tímann í febrúar og hugsaði mér þá að fá mér húðflúr til minningar um pabba minn sem dó í febrúar í fyrra. Hef séð marga fá sér fæðingardag og dánardag til að minnast látinna ástvina, en mig langaði í eitthvað sem minnti mig á hann sjálfan sem manneskju en ekki eitthvað til minningar um dauða hans.

Pabbi minn var töluvert á sjó áður en ég fæddist og svo var hann líka mikill hestamaður. Ég fann einhvern tíma þetta málverk http://www.umm.is/UMMIS/Listamenn/Listaverkstakt/2841 eftir Daða sem mér finnst rosalega fallegt og langaði að hafa þetta, bátinn og öldurnar sem uppistöðuna í flúrinu (svona þar sem pabbi minn var sjómaður).

Þar sem ég er búin að bíða eftir tímanum síðan í febrúar er ég mikið búin að vera að pæla í þessu og ákvað þá að bæta við hestaskeifu (líka fyrir pabba). Svo ákvað ég að stækka flúrið og koma þá með einhver tákn um restina af fjölskyldu minni. Bræður mínir eru krabbar og þess vegna passa krabbar vel inn í þetta sjávarþema, JP fannst líka að kuðungakrabbar pössuðu vel inn í heildarmyndina af því að það er allt út í svona spírölum. Ég ákvað svo að bæta við nelliku og brönugrasi fyrir systur mínar. Stjörnunar eru fjórar og standa fyrir þrjár nánustu vinkonur mínar og frænku, tunglið er svo fyrir mig og baldursbrárnar eru fyrir mömmu.

Ég mætti á Íslenzku húðflúrstofuna kl. 11 á föstudaginn og Nonni byrjaði að flúra mig kl. 12, ég var í þrjá og hálfan tíma undir nálinni en hann náði ekki alveg að klára allar útlínur. Það á eftir að klára skeifuna sem kemur bakvið bátinn (sést aðeins í endann á henni undir seglunum) og svo koma nokkrar baldursbrár þar á bakvið. Ég þarf örugglega að mæta tvisvar til hans aftur til að klára útlínurnar og lita þetta. Þetta mun verða í öllum regnbogans litum. Öldurnar í miðjunni verða bláar og grænar (eins og sést á grænu útlínunum þar) svo verður báturinn gulur og brúnn, krabbarnir verða rauðir og appelsínugulir, blómin verða hvít og bleik og svo verða svona fjólubláar skyggingar í kringum blómin, stjörnunar og tunglið hins vegar verða svona “negatív”, þ.e. það verður ekkert flúrað inní þar.

Mér finnst stíllinn á þessu líka vera svo fallegur, þetta minnir mig á teikningu í barnabók, og þar sem þetta er svona aðallega til að minnast pabba míns finnst mér það passa. Ég var alltaf rosalega mikil pabbastelpa og mér finnst þetta minna mig á hvernig er að vera barn, þegar lífið var einfaldara og mér fannst ég hvergi öruggari og rólegri en í fanginu á pabba og hlusta á hann segja mér sögu eða syngja fyrir mig.

Verð að koma einu að að lokum, Búri var að flúra bakið á einhverjum strák meðan ég var þarna og sjitturinn hvað drengurinn er góður! Er alltaf að sjá flottari og flottari verk eftir hann og ég held bara að hann sé næstur á listanum mínum til að fá mér flúr frá (svona um leið og ég er búin að ákveða mynd og stað :P ). Ég allavegna held ekki vatni yfir honum!!