Eftir tæplega árs bið var loksins komið að því. Quention frá Kalima var loksins kominn til landsins og ég átti pantaðann tíma hjá honum í gær (mánudaginn 21. apríl). Tilhlökkunin var rosaleg, en ég fann einnig þegar ég var á leiðinni að stressið var alveg að drepa mig. Ég reyndi bara að róa mig niður, og það gekk sæmilega.
Þegar ég mætti á Tattoo og Skart, rétt um 12 voru Jón og Quentin komnir. Við fórum yfir það hvernig aðgerðin væri framkvæmd og hverni ég ætti að sjá um þetta eftir á. Ég var enn ekki alveg laus við stress svo ég ákvað að fá mér eina rettu áður en við byruðum. Þegar ég var búinn að reykja kom ég aftur inn og við spjölluðum aðeins meira. Eftir það var svo ekki eftir neinu að bíða.
Quentin lét mig fá bólgueyðandi verkjatöflur og sagði mér að taka 2 því það myndi gera það að verkum að bólgan yrði minni á meðan aðgerð stæði. Síðan settist ég bara niður og Quentin merkti tunguna á mér með penna upp á að skera í alveg beina línu. Þegar það var búið var ég látinn fá helling af pappír sem ég hafði í fanginu til að koma í veg fyrir að ég slefaði á fötin mín.
Þegar þetta var allt tilbúið var farið að huga að því að byrja á aðgerðinni sjálfri. Jón og Quentin settu tangir á tunguna á mér, sitthvorum megin við miðjuna, til þess að geta haldið henni úti, enda er það erfitt að ætla að halda tungunni úti í þennan tíma á meðan það er verið að skera. Þegar tangirnar voru komnar á sagði Quentin mér hvernig hann myndi gera þetta: Byrja að skera aðeins ofan á tungunni, svo undir og svo taka hana rólega í sundur, og spurði mig svo hvort ég væri tilbúinn. Ég sagðist vera það, enda var ég búinn að ná að slappa töluvert af og róa mig niður. Þá var byrjað að skera. Ég bjóst við rosalegum sársauka, en þessi sársauki sem ég upplifði var ekki mikill miðað við það sem ég hafði gert mér í hugarlund. Áður en ég vissi af var Quentin búinn að skera tunguna í sundur, en hann ákvað að sauma hvorn hluta fyrir sig aðeins saman til þess að minnka blæðinguna.
Eftir aðgerðina var blóðið þvegið framan úr mér og ég fékk smá tíma til að jafna mig og spjallað á meðan. Þegar ég var loksins tilbúinn og var kominn með allt á hreint varðandi umhirðu og slíkt reyddi ég fram veskið og borgaði, þakkaði kærlega fyrir mig og kvaddi.