Shige heitir réttu nafni Shigenori Iwasaki og er fæddur í Hiroshima borg í Japan í mars árið 1970. Hann byrjaði að kenna sjálfum sér listina að húðflúra árið 1995 en þá starfaði hann sem vélaverkfræðingur hjá umboði Harley Davidson í Yokohama. Shige byrjaði að flúra eitthvað að ráði 98 með sinni heittelskuðu Chisato sem hafði unnið innan tískuiðnaðarins í nokkur ár. Tveimur árum síðar opnaði hann sína eigin stofu í Yokohama. Sama ár kynntist hann Filip Leu sem hafði sópað að sér verðlaunum á hátíðum víðs vegar um heiminn til fjölda ára. Filip Leu verðskuldar sína eigin grein hér á Huga og vona ég að ég geti ritað hana sem fyrst. Eftir kynni Shige og Leu fékk sá japanski æði fyrir hinni ríku tattúarfleifð Japans og hefur síðan kappkostað að mynda sinn eigin stíl innan hins þrönga ramma listarinnar.
Árið 2001 tók Shige þátt í tattú festivali í Massachusetts en það festival var haldið af Paul nokkrum Booth. Á hátíð þeirri kom sá stutti sér á alheimskortið og hefur síðan þá verið ötull heimsflakkari. Shige naut þeirra forréttinda að fá að vera í þrjá mánuði á heimili Leu fjölskyldunnar í Sviss árið 2002. Þar fékk hann að læra af handbragði allra fjölskyldumeðlima þó að áðurnefndur Filip var honum mest innan handar. Fjölskyldan býr yfir áratuga reynslu á sviði húðflúrlistar eins og ég mun betur koma inn á þegar ég geri grein um þau og var þetta því mekka fyrir metnaðarfullan Japanann. Á dauðum stundum tók Filip Leu í byssuna og kláraði full body suit á Shige og þykir það verk vera aðdáunarvert. Shige á og rekur Yellowblaze tattoo studio ásamt spússu sinni og hefur unnið sig upp metorðastigann í senunni. Hann heldur áfram heimshornaflakki sínu ár hvert og drekkur í sig menningu og listir landanna sem hann heimsækir. Hann sækir sér innblástur hjá þeim húðflúrurum sem hann hittir á förnum vegi og prófar sig stöðugt áfram. Undanfarin ár hefur hann þróað stíl sinn í japönskum flúrum og er gaman að fylgjast með þróuninni lengst norður í höfum. Shige er maður sem allir húðflúráhugamenn ættu að kynna sér. Kraftur google.com er mikill og mikið sem þar er að finna. Ef áhugi er fyrir því þá ætla ég að reyna að rita greinar um flúrara í hinum stóra heimi þegar tími gefst. Er áhugi fyrir því eða?
______________________________________