Ferðasaga frá Gothenburg Tattoo expo. Sælt veri fólkið.

Dagana 28. - 30. mars var haldin húðflúrkeppnin Tattooexpo í Gautaborg í nágrannalandi okkar Svíþjóð. Keppnin er skipulögð af hjónakornunum Búddha og Petru sem eru ötulir húðflúráhugamenn. Þau halda reglulega keppnir og sýningar í Svíaríki og kappkosta að fá nafntogaða flúrara. Öllu var til tjaldað í þetta skiptið og var aðstaða Eriksbergshallen til fyrirmyndar. Keppt var í fjölmörgum flokkum og haldnar sýningar í öllu mögulegu og ómögulegu. Flaggskip sýningarinnar var án efa viðrinið Lizardman sem flaug alla leiðina frá USA til að heiðra hungraðan lýðinn.

Húðflúrararnir komu hvaðanæva að beggja megin Atlantshafsins og gott ef að einn hafi ekki verið frá Asíu. Dómararnir voru sænska tattúgyðjan Johanna sem er margverðlaunaður flúrari, Tattoo Sven sem er gamall danskur jaxl sem býr yfir áratuga reynslu og svo Alex sem er okkur Íslendingum góðu kunnur enda tíður gestur á Tattoo og skart. Í þetta sinn voru þrír íslenskir flúrarar sem tóku þátt og voru þeir: Búri og Jón Páll af íslensku húðflúrstofunni og Svanur eigandi Tattoo og skart.

Nokkrir Íslendingar mættu á pallana til að hvetja okkar menn og drekka í sig Skandinavíska tattúmenningu. Undirritaður fór ásamt spússu sinni og Praisetheleaf til að vera sýningargripir Jóns Páls og Búra. Með í för var gamla sleggjan og hárprúði víkingurinn hann Fjölnir tattú sem myndaði allt sem augað nam. Gleðin hófst á föstudeginum og fór fólk að streyma inn strax við opnun hátíðarinnar. Svanur byrjaði daginn á að gera ógnvekjandi mynd af gömlum manni með laskað höfuð og var útkoman vægast sagt skemmtileg. Myndin vakti mikla lukku meðal gesta og gangandi og sýndi án efa nákvæmni og hæfileika hins metnaðarfulla Íslendings. Undirritaður fékk kalt vatn milli skinns og hörunds í hvert sinn sem hann bar myndina augum, svo raunveruleg var hún. Búri hélt áfram með Ugluna á bringunni á mér og vorum við afar sáttir með útkomuna en ætla ég ekki að taka afstöðu með henni heldur læt ykkur um að dæma. Jón Páll gerði þrælskemmtiegt realisma tattú á spússu mína sem var í raun mynd af dóttur okkar og litskrúðugir fuglar með. Skemmst ber að nefna að Svanur var hársbreidd frá því að vinna hinn eftirsótta titil “best of day” en munurinn þótti stjarnfræðilega lítill. Búri vann “best new school” fyrir Ugluna mína og Jón Páll vann “best colour” fyrir verkið á frúnni og annað sætið í sama flokki fyrir rósina á praisetheleaf. Einnig lenti Jón Páll í öðru sæti í flokknum “best tribal or ornamental” fyrir víkingafléttu sem er á Fjölla.

Keppnirnar voru sumar á laugardeginum og fór því púður í að snurfusa og gera klárt fyrir sýningu flúrana fyrripart þess dags. Svanur réðst þó í indjána portrait af föllnum hetjum frumbyggja Bandaríkjanna á Jóa Tiger sem er Íslendingur búsettur í Danmörku. Mig skortir lýsingarorð til að lýsa útkominni því hún var stjarnfræðilega flott. Þeir geta báðir borið höfuð hátt enda var verkið augnakonfekt fyrir áhorfendur en ég veit ekki í hvaða keppni þeir skráðu það né hvernig það gekk. Nonni og Búri kláruðu snurfusið, tóku á móti verðlaunum og fóru svo að gera ný flúr. Nonni gerði japanskt inflúensaðan snák en Búri old school hnúajárn með vængjum og dúlli. Mannmergðin á þessum degi var svaðaleg og þegar mest var voru á þriðja hundrað manna í biðröð fyrir utan.

Sunnudagurinn bar merki þess að þreyta var hlaupin í lýðinn og flúrarana enda amstur laugardagsins svakalegt. Fjölmargir komu þó og fylgdust með en minni keppnisskapur var í mönnum. Svanur vann í black and gray bakverki á brasilískum kollega sínum, Búri gerði galdrakall í black and gray en Nonni gerði pin up stelpu á praisetheleaf. Doði var yfir keppninni og voru til að mynda afar fáir búnir að skrá sig til keppni þegar aðalkeppni hátíðarinnar átti að eiga sér stað. Það fór þó betur en á horfðist og bar þar sigur úr býtum sænskur old school listamaður með sugarskullverki. Eðluviðrinið var orðinn verulega þreytandi enda með sama lélega standöppið alla helgina og andrúmsloftið var litað af þreytu og doða.

Tattooexpo var frábær skemmtun fyrir húðflúráhugamann eins og mig enda nóg að sjá. Hægt var að versla varning, skoða tattú, skoða misundarlega Skandinava og drekka í sig menningu sem er áratugum á undan þeirri íslensku. Frábært var að sjá Heidi Hay sem hefur skapað sér sess sem einn virtasti tattúverari á norðurhveli og gulltennta hispanann hann Coney island demon. Best var þó að sjá hversu frambærilegir okkar listamenn voru. Þjóðernisstoltið sló taktvisst í brjósti manns og megum við vera stolt af “strákunum okkar”. Ég mæli eindregið með að fólk fari á þessar alþjóðlegu keppnir og vona að íslensku listamennirnir líti á þetta sem vítamínsprautu fyrir sig til að halda áfram á þeirri braut sem þeir eru. Þróunin er ör og gaman að sjá viðbrögð listamannana.

Með fyrirfram þökk og kærri kveðju

Peran
______________________________________