Disclamer: Nöfnum hefur verið breytt.


Ég var 18 ára þegar ég fékk mér litla furðulega tattúið mitt. Dagurinn sem ég fór undir nálina var yndislegur. Ég var nýbyrjuð með kærastanum mínum og við og tvö önnur pör, öll bestu vinir, vorum búin að eyða öllum deginum á tattústofunni Húðflúr og Götun í Keflavík. Strákarnir voru af vellinum og við allar úr Reykjavík, og einn drengurinn, Chris, var búinn að vera að prófa sig áfram með tattúvélina. Strákarnir eyddu miklum tíma á stofunni og þetta var nýr heimur fyrir okkur stelpurnar sem höfðum ekki mikið verið inni í galdraveröld tattúanna.

Vinkonur mínar tvær ákváðu að leyfa Chris að tattúa á sig og eyddu löngum tíma í að ákveða hvað þær vildu og hvar. Á endanum völdu þær sitthvort orðið en sama stað á líkamanum. Ristina. Ég var ekkert að hugsa um að fá mér neitt og fylgdist bara spennt með þeim. Þegar leið á daginn fór ég að heyra hvatningarorð frá hinum krökkunum um að velja mér eitthvað sjálf. Ég tók því bara sem gríni en sem á leið fór löngunin að magnast. Stelpurnar stóðu sig hetjulega og allt leit vel út hjá þeim og ég komst ekki hjá því að sjá sjálfa mig fyrir í stólnum.

Hvatningin hélt áfram og á endanum gafst ég upp á þessum leik og ákvað að fá mér bara lítið stykki á hendina. Vandamálið var að ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi, nema ég var með óljósa mynd af litlum dreamcatcher í hausnum. Chris sagði mér, að til að taka pressuna af valinu, myndi hann bara teikna á mig fríhendis. Og þar gerði ég mikil mistök. Ég settist í stólinn og hann tók til kúlupenna og krassaði upp litla mynd sem átti að vera dreamcatcher. Ég var í stresskasti og samþykkti bara myndina og hann byrjaði. Tattúið tók um tíu mínútur og þegar ég var búin var ég svo stolt að ég brosti hringinn. En það entist ekki lengi og næstu daga blótaði ég mér fyrir að hafa samþykkt þetta. Furðuverkið sem ég fékk er eins ólíkt dreamcatcher og hægt er. Þegar ég horfi á það sé ég stundum ananas og stundum mexikana. Aðrir sjá fisk.

Ég skrifa þetta sem minningargrein um mexananasinn minn, því nú líður senn að því að ég fái almennilegt tattú yfir hann. Með hjálp tveggja bestu vinkvenna minna hef ég fundið fullkomið cover up. Það verða settir þrír litlir hrafnar á handlegginn, einn breiðir sig yfir gamla. Hrafnarnir tákna okkur þrjár og vinskapinn sem mun vara að eilífu. Ég veit samt alltaf af hinu undir, sem minnir á gamla góða tíma, sem eins og tattúið eru liðnir undir lok.