Tattoo í London Ég og kærastan mín fórum til London í lok maí og vorum búin að ákveða að við ætluðum að fá okkur sitt hvort tattooið úti, það fyrsta hjá okkur báðum.

Við vorum bæði búin að smitast af tattoobakteríunni og farin að plana að fá okkur mörg tattoo áður en það fyrsta kom loksins. Einn af aðalhöfuðverkjunum var einmitt að velja hvaða tattoo við myndum byrja á.

Annar höfuðverkur var að finna stað til að fara á úti. Við vildum ekki taka hættuna á því að fara á stað sem væri á einhvern hátt vafasamur. En eftir ábendingu héðan fórum við að skoða stofu sem heitir Eclipse og er í Camden Town (www.eclipse.me.uk). Við ákváðum að kíkja þangað og sjá hvort hún væri jafn góð og hún virkaði á heimasíðunni.

Fimmtudaginn 31. maí fórum við svo í Camden Town. Það var ekki erfitt að finna Eclipse, við beygðum bara til hægri þegar við komum út af neðanjarðarlestarstöðinni og gengum í smá stund þar til við sáum skiltið þeirra.

Þegar við komum inn á stofuna fengum við strax góða tilfinningu fyrir staðnum. Það mætti okkur sótthreinsilykt og við sáum strax að allt var vel aðskilið. Frammi var gott pláss til að skoða myndirnar sem þeir höfðu til sýnis og ákveða sig. Þeir voru líka með mjög gott úrval af alls konar lokkum. Tónlistin var líka góð, t.d. soundtrackið úr Ray. Passlega róandi fyrir byrjendur eins og okkur án þess að fara út í einhverja lyftutónlist. Annað sem vakti athygli var að þeir voru mjög strangir á aldri og meðan ég sat og beið eftir að röðin kæmi að mér sá ég að þeir gengu vel úr skugga um að viðskiptavinir væru nógu gamlir, athuguðu meira að segja hvort skilríkin væru nokkuð fölsuð. Það gaf mér aukna öryggistilfinningu fyrir þessum stað.

Við vorum ekki með pantaðan tíma og komum frekar seint (hálf fjögur-fjögur) en samt fengum við tíma fljótlega. Ég var með teikningu af tattooinu sem mig langaði í en kærastan mín var ekki alveg búin að ákveða sig þegar hún kom inn. Hún var þó mjög fljót að ákveða sig þegar hún sá mynd af svölu í myndasafninu þeirra.

Hún fór inn fyrst og ég beið fyrir utan á meðan, annað dæmi um hvað allt er vel aðskilið hjá þeim. Eftir um hálftíma kom hún út aftur með fallega svölu á úlnliðnum í mjög old school stíl, mynd á leiðinni. Þá var röðin komin að mér.

Mig langar í nokkur tattoo. Mig hefur lengi langað í tattoo á úlnliðina og eftir að við byrjuðum saman er ég búinn að ákveða að ég ætla að fá mér upphafsstafi okkar (H og S) í rúnaletri á úlnliðina. Svo ætla ég líka að fá mér Ægishjálm á vinstri upphandlegginn og undir því nafn sonar okkar í fuþarkletri (Frosti) og fæðingardaginn hans þar undir. Einnig er ég farinn að skipuleggja sleeve/half-sleeve pælingu á hægri handlegginn sem á að vera í old school stíl unnin upp úr textum og lögum Tom Waits.

En sem mitt fyrsta tattoo valdi ég að fá mér nautical stjörnu á bakið og upp á hálsinn. Til að hafa hana aðeins öðruvísi teiknaði ég hjarta inn í stjörnuna. Í mínum huga táknar þetta tattoo það að maður skuli hafa hjartað að leiðarljósi í lífinu. Hjartað er líka þarna fyrir kærustuna mína, það var líka vel við hæfi í þessari ferð þar sem við trúlofuðum okkur í ferðinni.

Mitt tattoo tók ca. hálftíma-45 mínútur og tilfinningin var allt öðruvísi en ég átti von á. Vissulega var þetta frekar vont, sérstaklega þegar hann fór upp á hálsinn. Samt dugði það ekki til að lækna okkur af tattoobakteríunni þar sem við vorum bæði farin að tala um hvað okkur langaði mikið í fleiri tattoo.

Við mælum alveg með Eclipse tattoo stofunni fyrir þá sem eru á leið til London og langar í tattoo. Það er eflaust hægt að finna ódýrari stofur þarna úti (borguðum 250 pund fyrir bæði tattooin) en við fengum okkur ekki tattoo úti til að spara. Gaurinn sem gerði tattooin okkar heitir John, þið getið séð tattoo eftir hann á heimasíðunni þeirra.

Fyrir þá sem fara þangað, eða bara fara í Camden Town yfir höfuð, mælum við líka með pöbbnum við hliðina á Eclipse. Hann heitir Buck's Head og við fengum okkur að borða þar áður en við fórum í tattoo. Ljómandi góður matur og ekki dýr. Hún fékk sér kjúklingasamloku og ég fékk mér nautasteik. Það ásamt hvítlauksbrauði og 2 kókglösum var á 20 pund.

Meðfylgjandi er mynd af tattooinu mínu og ég sendi inn fleiri myndir af tattoounum okkar.

Við munum sjálfsagt fara þangað aftur, við erum algjörlega heilluð af London og erum búin að ákveða að við ætlum þangað aftur. Þá munum við án efa fá okkur annað tattoo. Stefnan er líka tekin á það að fá sér tattoo hérna heima fljótlega.