Ég keypti mér bók um daginn um tattoo rússneskra fanga. Ég heillaðist ekkert smá mikið af þessum heimi og ákvað að smá úrdrátt úr bókinni og því sem ég fann á netinu um rússnesk fangahúðflúr.
Í Sovétríkjunum var rík hefð fyrir húðflúrum meðal fanga. Á árum kommúnismans var fjöldi fanga gríðarlegur þar sem neyðin var mikil og fólk var í stórum stíl sent í fangelsi fyrir þjófnað og pólitíska glæpi. Meðal fanganna var skýr stéttaskipting og þeir höfðu sín eigin lög og sínar eigin refsingar. Sú leið sem þeir notuðu til þess að tjá sig var með húðflúrum. Það má eiginlega segja að þeir hafi borið ferilskrá sína á líkamanum í flóknu kerfi mynda og tákna.
Tattooin voru gerð með þeim áhöldum og efnum sem voru við hendi, oftast með nálum og rakvélablöðum og bleki sem búið var til úr pissi, sóti frá brenndum skóhælum og sjampói. Eins og gefur að skilja voru sýkingar mjög algengar sem jafnvel leiddu til dauða.
Þetta er harður heimur og ef einhver er staðinn að því að vera með tattoo sem hann á ekki skilið, þ.e. sem gefa e.t.v. til kynna að hann hafi verið hærra settur innan glæpasamfélagsins utan fangelsisins en hann raunverulega var, er hann látinn fjarlægja þau með því sem hendi er næst, sandpappír, glerbrotum eða rakvélablöðum. Því næst er hann barinn til bana af samföngum sínum.
Fangi bar ekki alltaf tattoo sín af fúsum og frjálsum vilja. Ef hann var sokkinn í spilaskuldir t.d. gat sá sem hann skuldaði farið fram á að á hann væri sett tattoo sem væri niðurlægjandi fyrir hann. Oftast voru það mjög grófar og dónalegar myndir á áberandi stað á líkama skuldarans.
Húðflúrlaus líkami er álitinn vera nakinn, ekki neitt, án allrar stöðu innan samfélags fanganna. Ef þú ert ekki með tattoo hefurðu enga stöðu í samfélaginu innan veggja fangelsisins, þú ert ekki einu sinni lægst settur, þú ert ekki til.
Konur voru húðflúraðar alveg jafnmikið og karlar. Þeirra húðflúr voru heldur ekkert öðruvísi en karlanna (þ.e. þau voru ekkert krúttlegri).
Merking tattooanna er oft allt önnur en sú sem við eigum að venjast. Til að mynda er algengt að menn séu með orðið “bog” sem þýðir guð á rússnesku, húðflúrað á líkamann. Það hefur þó enga trúarlega merkingu, heldur er orðið skammstöfun fyrir “ budu opyat grabit” eða “ég mun stela aftur”. Einnig er algengt að menn séu með myndir af kirkjum á bringunni, fjöldi turna á kirkjunni getur vísað til fjölda ára sem einstaklingurinn hefur afplánað, eða þann fjölda dóma sem hann hefur fengið. Stundum er áletrunin “Kirkjan er hús guðs” höfð undir, en merkir þá að fangelsið er heimili glæpamannsins.
Mynd af hníf á öxlinni sem stingst inn í hálsinn er merki nauðgara og barnaníðinga, þeirra sem sitja inni fyrir kynferðislega glæpi. Hauskúpur eru merki morðingja. Kettir eru merki þjófa, margir kettir tákna að hann hafi verið hluti af gengi, einn köttur þýðir að hann stal einn. Ljón, pardusar og tígrisdýr eru merki hátt settra þjófa og glæpamanna. Axlaskúfar (eins og eru stundum á einkennisbúningum hermanna) tákna að fanginn hefur framið einhverskonar afrek innan glæpaheimsins. SS merki nasistanna táknar að fanginn er virtur fyrir að hafa aldrei játað neitt eða komið sök á neinn. Algengt er að vera með X á handarbakinu eða hnúunum og það táknar þá fjölda dóma einstaklingsins. Einnig tákna stjörnur fjölda ára í fangelsi, árafjöldinn er þá jafnhár og fjöldi odda stjörnunnar. Stjörnur á hnjánum geta einnig táknað að sá sem þær ber lýtur ekki stjórn neins, þ.e. beygir sig ekki fyrir neinum yfirvöldum. Sól að setjast og fuglar að fljúga táknar að einstaklingurinn þráir að verða frjáls. Köngulær og köngulóarvefir eru tákn dópista.
Spil eru mjög algeng húðflúr og skiptir þá miklu máli af hvaða sort þau eru. Lauf eru tákn þjófa, spaði er merki glæpamanna, hjörtu eru veiðileyfi á að nota þann einstakling sem ber þau kynferðislega og tíglar merkja að einstaklingnum er ekki treystandi, þ.e. að hann sé kjaftaskur eða hliðhollur yfirvöldum.
Ég gæti haldið endalaust áfram, en ég verð að stoppa einhversstaðar. Ef einhver vill lesa meira um rússnesk glæpatattoo er bæði hægt að leita á netinu eða lesa “Russian Criminal Tattoo Encylopaedia” vol. eitt og tvö.
kv. creampuff