Hvað er húðflúr?
Húðflúr er í raun sár sem er búið til í húðina á þér með því að stinga nál djúpt inn í hana og á meðan er sárið fyllt með bleki. Ástæðan fyrir að það fer ekki af er sú að það er gert svo djúpt inn í húðina. Blekið er ekki bara sett inn í “epidermis” sem er efsta lag húðarinnar, vegna þess að við erum sífellt að endurnýja hana og húðflúr munu fljótt hverfa ef það væri gert. Í staðinn er blekið sett inn í “dermis” eða húðleðrið en það er annað lag húðarinnar og mikið dýpra. Frumurnar í húðleðrinu eru mjög varanlegar þannig að húðflúrið helst þar óbreytt.
Húðflúr voru upphaflega gerð með höndunum, semsagt flúrarinn stakk gat í húðina með nálum og setti blek inn í hana með höndunum. Þótt að þessi aðferð sé sumsstaðar ennþá notuð eru samt flestir atvinnuflúrarar sem nota sérstakar “tattoo byssur” nú til dags. “Tattoo byssa” er rafknúið verkfæri sem er notuð til þess að setja nálarnar inn í húðina. Í einum endanum á henni er dauðhreinsuð nál sem er dýft í sótthreinsað ílát sem inniheldur blek. Flúrarinn ýtir svo á fótstig (svipað og á saumavélum) sem gerir það að verkum að nálin hreyfist út og inn, um það bil 3 millímetra inn í húðina.
Flestir flúrarar vita hve langt nálin á að fara og hafa tilfinningu fyrir því. Ef nálin fer ekki nógu langt inn þá getur húðflúrið orðið “flekkótt”. Ef nálin fer of langt getur það orsakað óvenjulega blæðingu og mjög mikinn sársauka. En gott er að hafa í huga að það blæðir oftast á meðan verið er að flúra og það er ekki gott að fá sér tattoo þó það tengist vissulega mismunandi stöðum á líkamanum og hversu mikið sársaukaþol þú hefur. Sumir eru einfaldlega viðkvæmari en aðrir fyrir sársauka. Það er misjafnt hve lengi það tekur að búa til húðflúr og fer það allt eftir stærð myndanna og hversu flókin hún er. Þetta segir sig í rauninni sjálft. En oft er talað um að líkaminn þolir einfaldlega ekki meira en ca 3 klukkutíma í flúri straight og fari einfaldlega að “hafna því”.
Þegar þú ert að fá þér húðflúr er mikilvægt að hafa eitt í huga. Vertu viss um að það verði gert fagmannlega. Þú verður líka að vera tilbúin/n í að hugsa vel og vandlega um það eftir á því húðflúr er, eins og kom fram hér að ofan, bara sár og þú þarft að hugsa vel um það til að fá ekki sýkingar. Það er mjög mikilvægt að tattoo stofan sem þú ferð á sé hrein og örugg. Vertu viss um að flúrarinn sé í einnota hönskum, að nálarnar séu einnota og allt annað sé sótthreinsað. Þú hefur rétt á því að horfa á hann sótthreinsa tæki og tól sem hann mun nota á þig. Svo ef þú ert ekki viss, ekki hika við að spurja og fá að fylgjast með. Vertu líka viss um að viðkomandi flúrari sé með leyfi frá heilbrigðisyfirvöldum til að stunda þessa vinnu. Ef leyfisbréf er ekki sjáanlegt biddu þá viðkomandi flúrara um að sýna þér það.
Nokkur atriði sem eiga sér stað á stofunni áður en byrjað er að flúra þig:
1. Flúrarinn þvær sér um hendur með sótthreinsandi sápu.
2. Staðurinn sem á að flúra þig á er hreinsaður og sótthreinsaður áður.
3. Flúrarinn setur á sig hreina, einnota hanska (og sumsstaðar eru notaðar andlitsgrímur þó ég haldi að það sé ekki gert á Íslandi)
4. Flúrarinn opnar umbúðir með nýjum nálum o.fl. fyrir framan þig
Þegar húðlfúrið er tilbúið er það þrifið, jafnvel sett eitthvað krem á það og svo er sett plastfilma yfir til þess að hlífa því fyrstu klukkutímana. Þú færð leiðbeiningar með þér heim og það er mikilvægt að fara vel eftir þessum leiðbeiningum.
Vonandi kom þetta að einhverju gagni.. Mér finnst bara svo gaman að lesa mig til og skrifa greinar um húðflúr!
- Meðfylgjandi mynd er tekin þegar Sverrir var að flúra drekann á hendina á mér sumarið 2004.
Kveðja PraiseTheLeaf