Eftir langa viðveru í krukku hinnar yngri frú Weasley hefur mér, sjálfri Ritu Skeeter, loksins tekist að sleppa burt. Því miður er ég að vinna huldu höfði og lofa því engu til aðdáenda minna um hversu mikil og lengi greinaskrif mín verða. Það er aldrei að vita hvenær stríðshetjan sjálf, Hermione Granger-Weasley, nær mér aftur. En bíðið við, ég hef ekki klárað að telja upp ástæður þess að elskulegir lesendur mínir hafa þurft að bíða í óþreyju eftir enn einni grein frá mér. Ég hef nefnilega átt í miklum erfiðleikum með að hafa uppi á einum af nýjum stjórnendum þessa áhugamáls, /hp, en þegar ég hafði upp á henni hófust margra vikna langar samningaviðræður! Það er því með miklu stolti sem undirrituð birtir þessa grein handa ykkur, kæru lesendur.
Hver er þessi dularfulli og lítt þekkti stjórnandi hér á /hp? Er hún útsendari Vefstjóra, send til að njósna um Harry Potter-aðdáendur sem ætla sér að taka yfir Huga? Eða er hún einfaldlega jafn góð og saklaus og hún segist vera?
Hin 22ja ára gamla yngismær, svanaerla, er nýlega ráðinn stjórnandi hér og mun ráða lögum og lofum hér næstu mánuðina eða jafnvel árin. Hún segist vinna sem þjónn og dregur undirrituð það eigi í efa enda er þessi kona kurteis og þægileg í viðmóti, rétt eins og afbragðs þjónar ættu að vera. Auk þess hefur hún þægilega rödd og þakkar hún því stífum og miklum kóræfingum sem hún stundar þegar hún er ekki á kafi í hinni miklu list þess að verða fjölmiðlafræðingur. Undirritaðri finnst það feiknagott hjá henni enda er það góð og göfug mennt. Hún segir að kyntröllið sjálft og fyrrverandi fanginn sjálfur Sirius Black sé hennar uppáhaldspersóna en James Potter hinn eldri fylgir fast á hæla hans, þótt það sé að mestu að þakka hinum svokölluðu “fanficum”, en hún segist “elska hann samt”. Það sem undirritaðri finnst þó verst er hatur viðmælenda hennar á hinni elskulegu Dolores Umbridge, konu með mikinn smekk fyrir bollastellum og blúndudúkum. Hún vildi ekki gefa upp ástæðu fyrir þessum fjandskap hennar á Dolores þannig að við neyðumst til að geta í eyðurnar. Hún gat ekki gefið upp nákvæmari tölu en “oft” þegar spurt var hversu oft hún hafði lesið bækurnar, en sú sjöunda og seinasta er hennar uppáhald. Að hennar indæla mati endaði serían á fullkomin máta og hefði engu viljað breyta. Hún segir að bækurnar séu mun merkilegri en myndirnar, sem hafa sína kosti og galla, og ráðleggur öllum þeim er þetta lesa að lesa bækurnar. Samt sem áður finnst henni myndirnar hin ágætasta afþreying og veltir undirrituð því fyrir sér hvernig það getur verið “afþreying” að fylgjast með hr. Potter, þar sem hann lendir oft í lífhættulegum aðstæðum.
Það er þó ef til vill ekki að undra að henni líki vel við þessi ævintýri hans þar sem hún mun vera líkust honum í hinu alræmda persónuleikaprófi sem undirrituð lætur viðmælendur sína taka. Svana er sem sagt umhyggjusöm, hugrökk og ævintýragjörn en hvatvís, ásamt því er hún þvermóðskufull og með greind í meðallagi. Einnig er hún góður leiðtogi og samviskusöm manneskja, en undirrituð er ekki viss hvernig það muni nýtast henni í fjölmiðlunum.
Þessi indæla dama er Gryffindor-nemi, hún er hugrökk og berst fyrir réttlæti. Því miður er hún einnig fífldjörf og mun þar af leiðandi oftar en ekki koma sér í hættulegar aðstæður sem jafnvel fjölmiðlafræðin getur ekki bjargað henni úr! En hún segist ávallt hafa verið góð stelpa og gat því miður ekki gefið undirritaðri neitt fréttnæmt til að fletta ofan af. Hennar helsti löstur er þó sjálfur Harry Potter-heimurinn, sem hún tekur alltof oft fram yfir lærdóminn. Það getur leitt til falls í fjölmiðlafræðinni, en undirrituð veit að sú grein lærdóms er með þeim erfiðari og krefst gífurlegrar einbeitingar. Það væri ef til vill ráð að hætta að lesa áhugaspuna um James Potter og hætta að stara á myndir af Siriusi Black (og taka niður allar þær sem hanga í herbergi hennar!) og fara að einbeita sér að lærdóminum, þótt það megi að sjálfsögðu ekki skilja áhugamálið eftir. Undirrituð efast um hvernig þessu áhugamáli muni farnast ef það yrði skilið eftir með aðeins tvo stjórnendur, önnur ung og ástsjúk (sjá ítarlegri grein frá árinu 2004) en hinn lífslítill og valdaóður kokkur (sjá einnig ítarlegri grein frá hinu góða ári 2004). Það er því niðurstaða undirritaðrar að þótt Svana sé í raun útsendari hins almáttuga Vefstjóra, sem veit án efa meira um hana en við, þá gætum við verið verr sett. Þó vaknar sú spurning hvernig hún varð stjórnandi. Aðeins ein grein send hér inn? Undirrituð hafði aldrei heyrt um hana áður en Vefstjóri réð hana sem stjórnanda hér en þrátt fyrir ítarlega rannsókn á öllum skjölum um hana, hefur undirrituð ekki komist að neinu. Verið því vakandi ef ég finn upplýsingar um hana og sendi hér inn!
(En verið ekki of vongóð, frú Weasley og Svana Erla gætu verið að vinna að því hörðum höndum að ná í mig á ný og fanga mig).
Ykkar einlæg,
Rita Skeeter.