Harry Potter og blendingsprinsinn: Miðnæturopnun! Harry Potter og blendingsprinsinn: Miðnæturopnun!

Opinber útgáfudagur bókarinnar “Harry Potter og blendingsprinsinn” er 12. nóvember og til að svala forvitni óþreyjufullra aðdáenda hefst sala á bókinni Á MIÐNÆTTI í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi. Fá 6 fyrstu kaupendurnir að bók númer 6 um Harry Potter hana á aðeins 6 krónur!

Bókin er nokkru styttri en bókin á undan (Harry Potter og Fönixreglan) og í samræmi við það sem Rowling sagði um bækurnar fyrir nokkru - sú fimmta yrði þeirra lengst en síðan myndu þær styttast. Bókin er þó um 500 blaðsíður og veitir ekki af því það er frá mörgu að segja nú þegar orrustan er hafin fyrir alvöru, töframenn og nornir skipast í fylkingar eftir því hvort þeir kjósa hið illa eða hið góða.

Árni Matthíasson á Morgunblaðinu fjallaði um Harry Potter og blendingsprinsinn þegar bókin kom út á ensku og sagði meðal annars:

“Þessi sjötta bók er talsvert frábrugðin þeim sem á undan eru komnar, stíllinn víst hinn sami og sömu persónur, en uppbygging sögunnar er önnur og upphaf bókarinnar frábrugðið þeim fimm sem þegar eru komnar, framvindan hraðari og atburðir skelfilegri. Endirinn bendir einnig til þess að sjöunda bókin verði áframhald af þeirri sjöttu, ekki eins sjálfstæð og þær hinar fyrri.

Harry Potter og blendingsprinsinn er ekki bara saga af Harry Potter heldur fær Trevor Delgome, sem síðar tók sér nafnið Voldemort, mikið pláss, saga hans sögð að miklu leyti. Í því hvernig Rowling púslar saman sögunni úr ólíkum brotum sést vel hve snjöll hún er orðin sem rithöfundur, henni hefur farið verulega fram með hverri bók.

Þótt viðfangsefnið og viðburðirnir sem sagt er frá séu óttalegir, svo óttalegir á köflum að viðkvæmir skyldu varast bókina, er kímnin aldrei langt undan, kannski eilítið lengra en í fyrri bókum en Rowling skýtur inn gamansömum viðburðum og hnyttnum tilsvörum hér og þar til að létta andrúmsloftið áður en næsta skelfing ríður yfir.

Harry Potter hefur smám saman orðið að unglingi og um leið flóknari persónuleiki, hann er ekki eins óþolandi fullkominn og í fyrstu bókunum, alltaf með sitt á þurru, heldur er hann líka þver og þrjóskur, skapstyggur og snúinn, allt í hæfilegum skömmtum þó, og verður fyrir vikið mun raunverulegri persóna en ella. Með aldrinum koma síðan ný vandamál - nú fer áhugi hans á hinu kyninu líka að þvælast fyrir honum og veldur honum hugarangri þar til hann finnur hina einu réttu og reyndar líka þegar hún er fundin eins og kemur í ljós á síðustu síðunum.

Rowling kann vel þá list að skrifa það sem breskir kalla ”cliffhanger“, skilur við söguhetjurnar á bjargbrún að segja í hverjum kafla þannig að lesandinn er heltekinn frá fyrstu síðu og leggur bókina ekki frá sér hálflesna. Leyndarmálin rakna upp hvert á fætur öðru, lokins fór Dumbledore að segja frá, ráðin hver dularfull og óttaleg gáta af annarri - en síðan hrúgast þær inn aftur, ógnvænlegri og snúnari en nokkru sinni. Ótrúlegt að Rowling dugi ein bók til viðbótar til að ráða fram úr öllu. Mikið hefur verið látið með það að persóna náin Harry Potter látist í bókinni, og víst er það rétt, þótt ekki verði farið nánar út í þá sálma af tillitssemi við væntanlega lesendur, en ekki kemur það dauðsfall beinlínis á óvart, það lýtur framvindunni, er nauðsynlegt til að móta hinn unga Potter og herða fyrir lokaslaginn við voðamennið Voldemort. Smám saman eykst einmanaleiki hans eftir því sem rennur betur upp fyrir honum að hann stendur að mestu einn - í lokaorrustunni hljóta þeir að glíma tveir þótt vinaliðið sé ekki síður mikilvægt.

Í öllum æsingnum sem spunnist hefur af vinsældum bókanna hefur gleymst að þær eru fyrst og fremst vinsælar vegna þess að þær eru vel skrifaðar og spennandi, sögupersónurnar forvitnilegar og trúverðugar. Heimurinn sem Rowling hefur náð að skapa er ekki síður skemmtilegur og þótt vissulega virðist muggarnir, þ.e. þeir sem ekki geta galdrað, hálfkjánalegir er galdraliðið líka barnalega fyndið á sinn hátt. Í fyrstu bókunum var heimsmyndin full ýkt og uppskrúfuð, en smám saman hefur hún mótast betur, verður forvitnilegri með hverri bók og vonandi á Rowling eftir að nýta hana betur í framtíðinni þegar sagan af Harry Potter er öll.”

SJÖTTA BÓKIN um Harry Potter, Harry Potter og Blendingsprinsinn er vinsælasta bókin í söguflokknum um galdrastrákinn. Bókin setti sölumet í sumar þegar hún kom út í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem níu milljónir eintaka seldust á fyrsta söludegi, 6,9 milljónir í Bandaríkjunum og rúmlega tvær milljónir í Bretlandi.

Þetta er tekið af penninn.is

Jæjja, hverjir ætla á miðnæturopnun?

RemusLupin