Nýja Harry Potter bókin komin til landsins
Baldur Guðnason, forstjóri Eimskip, opnaði í morgun gám fullan af nýju bókinni um Harry Potter sem var að koma til landsins úr prentun. Um sjöttu bókina um Harry Potter er að ræða og nefnist hún Harry Potter og blendingsprinsinn. Verður bókinni nú dreift í bókaverslanir en útgáfudagurinn er á laugardag.
Að sögn Jóns Karls Helgasonar hjá bókaútgáfunni Bjarti er fyrsta upplagið 15 þúsund eintökum og verður dreift í bókaverslanir á næstu dögum. Harry Potter og Blendingsprinsinn er vinsælasta bókin í söguflokknum um galdrastrákinn. Bókin setti sölumet í sumar þegar hún kom út í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem 9 milljónir eintaka seldust á fyrsta söludegi, 6,9 milljónir í Bandaríkjunum og rúmlega 2 milljónir í Bretlandi. “Í nýjustu bókinni er Harry orðinn drengur á sautjánda ári. Hann hefur smám saman orðið að unglingi og um leið flóknari persónuleiki, þver og þrjóskur, skapstyggur og snúinn, allt í hæfilegum skömmtum þó, og verður fyrir vikið mun raunverulegri persóna en ella. Með aldrinum koma síðan ný vandamál - nú fer áhugi hans á hinu kyninu líka að þvælast fyrir honum. Bókin er nokkru styttri en bókin á undan; Harry Potter og Fönixreglan, og í samræmi við það sem Rowling sagði um bækurnar fyrir nokkru - sú fimmta yrði þeirra lengst en síðan myndu þær styttast. Bókin er þó um 500 blaðsíður og veitir ekki af því það er frá mörgu að segja nú þegar orrustan er hafin fyrir alvöru, töframenn og nornir skipast í fylkingar eftir því hvort þau kjósa hið illa eða hið góða,” segir í tilkynningu frá Bjarti.
fréttin er tekin af mbl.is