“Ég var að pæla, hvernig eru inngangarnir hjá hinum heimavistunum þ.e. Ravenclaw, Huffelpuff og Slytherin?
Hefur það komið einhversstaðar fram í bókunum? ”
Eins og flestir vita er inngangurinn að Gryffindor heimavistinni á sjöundu hæðinni bakvið málverkið af feitu konunni í bleika silkikjólnum. Kunnir þú rétta aðgangsorðið sveiflast málverkið til hliðar og þá kemur í ljós hringlaga op sem skríða má í gegnum til að komast inn í setustofuna.
Inngangurinn að Slytherin heimavistinni er í dýflissunum. Þegar sagt er rétta aðgangsorðið opnast leynihurð sem leynist í auðum, rökum steinvegg við enda á einum ganganna í dýflissunum. Þetta kom fram í annarri bók Rowlings, Harry Potter og Leyniklefinn, þegar þeir Harry og Ron laumuðu sér inn í setustofuna í gervi Crabbe og Goyle.
Einnig hefur komið fram að Slytherin setustofan er undir vatninu, en það sagði Rowling við kvikmyndagerðamennina við gerð setustofunnar í 2. myndinni um Harry.
Erfiðara er að segja til um staðsetningu setustofa Ravenclaw og Hufflepuff. Við höfum séð ýmsar vísbendingar hér og þar í bókunum, en engin sem segir til um nákvæma staðsetningu.
Staðsetning Hufflepuff setustofunnar er á kjallaragangi , þar sem stigi liggur í áttina að henni frá aðalsalnum. Þessi sami gangur liggur einnig að eldhúsinu. Þessa vísbendingu fengum við í Harry Potter og Eldbikarinn, þegar Harry sá Cedric heitinn Diggory labba niður stigann í áttina að setustofunni sinni. Einnig kom vísbending fram um þetta í Harry Potter og Fönixreglan, þegar Harry fylgist, á kortinu sínu kyngimagnaða, með krökkunum halda heim að setustofunum eftir fund hjá Varnarliði Dumbledore.
Þar kom einnig fram vísbending um setustofu Ravenclaw nemenda, en þar héldu nemendurnir upp í turn í vesturhluta kastalans.
Hver veit, kannski mun Rowling fræða okkur nánar um þetta í næstu bókum sínum?