“Hæ, heyrðu, ég var að vona að einhver gæti reynt að útskýra fyrir mér hvað gerðist í leyndarmálastofnuninni þegar Harry hljóp frá ”gyllta verðinum“. Það er (held ég) á blaðsíðu 700-701 í íslensku útgáfunni af fönixreglunni, (hef ekki lesið ensku bókina) einhvern veginn fattaði ég það bara ekki.
Takk”


“Ég hef ekkert fleira við þig að segja, Harry Potter,” sagði hann hljóðlega. “Þú hefur skapraunað mér of oft, of lengi. AVADA KEDAVRA!” Harry hafði ekki einu sinni opnað munnin til þess að veita honum viðnám. Hugur hans var tómur og sprotinn lafði gangslaus niður.
En hauslausa styttan af gyllta galdramanninum hafði lifnað við, stökk af stallinum og lenti með látum á gólfinu milli Harrys og Voldemorts. Álögin rétt strukust við brjóst styttunnar sem sveiflaði út handleggjunum til að verja Harry.
“Hvað - ?” æpti Voldemort og starði í kringum sig. Síðan hvíslaði hann: “Dumbledore!”

(bls. 698, Harry Potter og Fönixreglan eftir J.K.Rowling)
[.....]
Harry var handviss um að allt væri yfirstaðið og að Voldemort hefði ákveðið að leggja á flótta og gerði sig líklegan til að hlaupa frá verðinum. En Dumbledore kallaði: “Vertu kyrr þar sem þú ert, Harry!”
Í fyrsta skipti hljómaði Dumbledore eins og hann væri hræddur."

(bls.700, Harry Potter og Fönixreglan eftir J.K.Rowling)

Hér er verið að tala um styttu sem stendur í forsal Galdramálaráðuneytisins. Á hana er minnst á bls. 112 í Harry Potter og Fönixreglan. Í miðjum salnum er gosbrunnur með hóp af gríðarstórum gylltum styttum. Hæsta styttan er einmitt stytta af glæsilegum galdramanni sem beinir galdrasprota upp í loft og í kringum hann er stytta af galdranorn, kentár, húsálfi og svartálfi. Á botni laugarinnar í gosbrunninum eru alls kyns smámyntir en allur ágóði rennur til Sankti Mungosjúkrahússins.

Gyllta styttan sem að varði Harry og hann ætlaði að hlaupa frá, er styttan af galdramanninum í þessum forsal. Í þessum forsal mættust Harry og Voldemort og Voldemort komst ansi nálægt því að drepa Harry, en Dumbledore bjargaði málunum að sjálfsögðu.
Styttan skaddaðist mjög mikið þegar Bellatrix og Harry áttust við, áður en Voldemort og Dumbledore skárust í leikinn, en Dumbledore notaði alla styttuna í verndargaldurinn þegar hann kom. Nornin gerði árás að Bellatrix og hélt henni niðri, galdramaðurinn verndaði Harry, kentárinn hljóp að Voldemort sem tilfluttist og húsálfurinn og svartálfurinn fóru að eldstæðunum, líklegast til að láta vita af því sem var að gerast.

Eitt er víst, Galdramálaráðuneytið þarf örugglega að endurnýja styttuna í gosbrunninum hjá sér.