Hver er betur til þess settur að svara þessari spurningu en sögukennarinn og prófessorinn Binns? (*réttir upp hönd og leggur nafnið Hermione til* Hóst, höldum áfram…) Í annarri bókinni um Harry Potter og félaga spyr Hermione Binns prófessor um leyniklefann og þegar hann lætur tilleiðast að segja söguna segir hann frá því að fjórir mestu galdramenn og nornir þess tíma hafi stofnað skólann. Þessir stofnendur hétu, eins og mörg ykkar kannski vita, Godric Gryffindor, Helga Hufflepuff, Rowena Ravenclaw og Salazar Slytherin. Orðrétt segir Binns
„Jæja þá, [...] Látum okkur sjá… leyniklefinn… Þið vitið auðvitað öll að Hogwartskóli var stofnaður fyrir meira en þúsund árum – nákvæm dagsetning er óljós [...] Þau byggðu þennan kastala í sameiningu, fjarri forvitnum augum Mugganna, af því að þetta var á þeim tímum þegar alþýða manna óttaðist galdra, og galdramenn og nornir urðu fyrir miklum ofsóknum.“ (bls.125).Þótt nákvæm dagsetning sé ekki vituð gefur Binns prófessor hér tvær misvísandi vísbendingar. Hann segir að skólinn hafi verið stofnaður „á þeim tímum sem alþýða óttaðist galdra og galdramenn og nornir urðu fyrir miklum ofsóknum.“ Þetta hljómar eins og nornaveiðarnar sem voru snemma á 17. öld. En ef bókin gerist árið 1992 og það eru yfir þúsund ár frá því að Hogwarts, skóli galdra og seyða var stofnaður þá hefur kennsla þegar verið hafin árið 992 (10. öld). Miðaldir í Evrópu voru frá árinu 375 til ársins 1500 og einhverntímann þá hefur kastalinn sjálfur líklega verið byggður. Það er almennur misskilningur að nornaveiðarnar hafi verið á miðöldum, þær komu ekki fyrr en seinna og engar sögulegar heimildir eru til (svo ég viti) um almenna galdrahræðslu á þeim tíma. Það er samt vitað er að galdrar voru bannaðir í Rómarríki á 5. öld. Við getum því allt eins giskað á að Hogwarts hafi verið stofnaður á miðöldum en í rauninni er það eina sem við vitum að skólinn var stofnaður eftir Kristsburð.
Við vitum ekki einu sinni hvort kastalinn hafi verið reistur til þess að hýsa nemendur eða hvort hann var bara tekinn í notkun af stofnendunum. Hver ætli eigi kastalann? Hver átti hann upphaflega? Líklegast er að kastalinn hafi verið reistur löngu áður en skólinn sjálfur var stofnaður þar sem það eru svo ótal margar leynileiðir og ranghalar sem gera ekkert nema rugla nemendur og koma í veg fyrir að þeir læri að fara um skólann. En eitt er þó næsta víst; kastalinn var ekki reistur af Muggum, það eru of margar leynileiðir sem ganga út á galdra til þess að það geti verið. Það er haldið að Rowena Ravenclaw hafi komið með hugmyndina að síbreytilegu stiga- og herbergjaskipan skóla (The Harry Potter Lexicon, 29. des. 04, http://www.hp-lexicon.org/wizards/founders.html) og Slytherin byggði leyniklefann en að öðru leyti er ekki mikið vitað um byggingu Hogwartskastala. Það er þó aldrei að vita, kannski fáum við að læra meira í komandi bókum. Við bara bíðum (mis) þolinmóð og vonum hið besta.